31.03.1976
Neðri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2911 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

214. mál, skólakostnaður

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég sé að ég hefði líklega átt að bíða með að kveðja mér hljóðs aftur þar til hv. þm. Jónas Árnason hefur tjáð sig, en ég fæ þá að koma upp aftur ef þörf gerist, þó ekki væri nema, eins og ég vona, að hann taki undir málið og ég geti þakkað honum fyrir.

Ég vil þakka þær undirtektir sem hér hafa komið fram frá hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur og Gunnlaugi Finnssyni. Ég hefði þó vænst þess að ég hefði heyrt fleiri tjá sig um svo mikilsvert mál sem a.m.k. það er í mínum huga sem hér um ræðir. En ég er ekki þar með að segja að það komi ekki að sama gagni stuðningur með þögninni, ef um það verður að ræða, heldur en þótt hér yrðu haldnar margar og langar ræður. Ég vil þó segja það, að þó að ég þakki þær undirtektir sem þessir hv. þm. létu í ljós, þá vænti ég þess að báðir þessir hv. þm., sem sæti eiga í þeirri n, sem málið fær til meðferðar, láti af hendi rakna meira en bara skilning, að þeir taki upp baráttu fyrir því að málið nái fram að ganga og að það verði með þeim hætti að hér sé hægt að breyta um. Það væri ábyggilega hægt að nefna fjöldamörg dæmi svipaðs eðlis eins og hv. þm. Gunnlaugur Finnsson nefndi hér áðan, þar sem getur verið um að ræða spurningu um líf eða dauða, spurningu um það hvort viðkomandi einstaklingur hefur átt þess kost að læra sund og síðan að halda þeirri kunnáttu sinni við ævilangt. Og það er ábyggilegt að þó að það megi rétt vera hjá hv. 9. landsk. þm. að það sé spurning hvort tímabært sé að flytja frv. um aukin útgjöld af hálfu ríkissjóðs, þá vil ég segja það fyrir mitt leyti, eins og ég raunar tók fram áðan í framsögu fyrir málinu, að ég tel að ef hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar sjá sér ekki fært að auka fjármagn til þessara hluta frá því sem nú er, þá tel ég að mál þetta sé þess eðlis og svo brýnt að það komi vel til greina að það njóti forgangs umfram annað, sem nú er í undirbúningi eða á að fara að framkvæma á sviði þessara mála, einmitt menntamálanna, þannig að ég er ekki með þessu frv. endilega að segja að það þurfi skýlaust að bæta öllu því fjármagni, sem þetta mundi kosta, við það sem nú er lagt til þessara mála. Ég tel að málið sé þess eðlis, að það komi vel til skoðunar að það njóti forgangs umfram aðrar framkvæmdir.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. 9. landsk. þm. í sambandi við uppbyggingu mannvirkja, ekki bara sundlauga, heldur, eins og hv. þm. Gunnlaugur Finnsson kom inn á, einnig íþróttamannvirkja almennt. Þetta var einmitt verið að ræða hér fyrir nokkru í sambandi við þáltill. sem var lögð fram um þetta efni, og það er auðvitað óhæfa eins og staðið hefur verið að þessum málum. Ég gat þess við þær umr. að það var í litlu sveitarfélagi vestur á landi, sem ekki hefur haft aðstöðu til sundkennslu eða sundiðkunar, að forráðamenn sveitarfélags heima fyrir áttu þess kost að koma upp sundlauginni sjálfri fyrir ca. 1 millj. kr., en það fylgdi því sá böggull að það þurfti að öllum líkindum að byggja búningsaðstöðu við þessa 1 millj. kr. sundlaug upp á líklega 7–8 millj., ef hún átti að vera þess virði að vera styrkhæf af ríkisins hálfu. Það er þetta, sem er um að ræða og verður að breyta. Með slíkri stefnu í þessum málum er hinum fámennari sveitarfélögum gert gersamlega ókleift að koma upp meira að segja bráðabirgðaaðstöðu til sundkennslu eða sundiðkunar, hvað þá meira. Og þessu verður auðvitað að breyta. Ef Alþ. samþykkti 75% þátttöku ríkissjóðs í slíkum mannvirkjum, þá færu kannske ráðandi menn í þjóðfélaginu að skoða hug sinn um það hvort ekki þyrfti með einhverjum hætti að breyta þeirri stefnu sem ríkt hefur, þannig að það væri hægt á hagkvæmari og ódýrari hátt að standa að uppbyggingu þessara mannvirkja, þegar ríkissjóður ætti að fara að taka svo stóran þátt í þessu sem hér er gert ráð fyrir. Þetta væri kannske líka ein leiðin til þess að opna augu ráðandi manna, sem ráða meðferð þessara mála, til þess að draga úr þeim gífurlega kostnaði og því óhófi sem mér virðist hafa ríkt í þessum efnum um áratugaskeið.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Gunnlaugi Finnssyni, að þetta er auðvitað spurning um vilja hæstv. núv, ríkisstj. og þingflokka sem ráða meiri hl. á Alþ. Spurningin er um vilja þessara aðila til þess að málið nái fram að ganga. Ég vænti þess að þetta mál eigi það miklu fylgi að fagna innan hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokka að það nægi til þess að koma málinu í höfn. Ég sé ekkert sem er því til fyrirstöðu að hægt sé að afgreiða þetta mál á þessu þingi. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu. Ef við eigum að bíða eftir því að þessi mál verði tekin til gagngerrar endurskoðunar í heild, þá er ég hræddur um með tilliti til fyrri reynslu af endurskoðunaraðferðum hér á hv. Alþ., að það gæti tekið langan tíma, mörg ár að bíða eftir slíkri endurskoðun og fá þannig lausn á þessu máli. Það væri hægt að nefna ótal dæmi þess. Ég gæti gert það, og er ég tiltölulega nýgræðingur hér á Alþ., — nefnt ótal dæmi þess að þær endurskoðunaraðferðir, sem hér eru notaðar á hv. Alþ., eru kannske fyrst og fremst til þess fallnar að drepa málum á dreif, þótt að vísu séu til undantekningar þar um, þannig að ég vænti þess að þeir, sem eru sammála þessu, leggi hönd á plóginn og taki upp baráttu fyrir því, bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar, að mál þetta fái þann byr sem nægir til þess að það fái afgreiðslu nú.

Hitt er alveg rétt, og það hef ég tekið undir áður, að það þarf að breyta stefnunni í þessum málum, ekki bara varðandi sundlaugarbyggingarnar heldur og íþróttamannvirkin almennt talað. En ég óttast að slík endurskoðun með tilliti til breytinga, ef breytingar fást, taki það langan tíma að það verði líklega búið að fórna mörgum mannslífum til viðbótar því, sem nú er, vegna þess að slík aðstaða sem hér um ræðir er ekki fyrir hendi í hinum ótrúlega mörgu sjávarplássum víðs vegar í kringum landið.