31.03.1976
Neðri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2913 í B-deild Alþingistíðinda. (2403)

23. mál, umferðarlög

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Allshn. Nd. hefur athugað þetta frv. og vísað því til umsagnar allmargra aðila, rætt um það á fjölmörgum fundum og hefur nú skilað nál. þar sem n. er algerlega sammála um afstöðu til þessa frv.

Meginefni frv. má segja að sé þríþætt. Í fyrsta lagi kveður það á um að setja inn í umferðarlög ný ákvæði varðandi notkun og skráningu beltabifhjóla. Í öðru lagi kveður frv. á um breytingar á ákveðnum ákvæðum sem fjalla um vátryggingarfjárhæðir og felur í sér hækkun frá því, sem nú er í lögum, á vátryggingarfjárhæðunum og eigináhættunni. Og í þriðja lagi, sem er jafnframt meginefni frv., felur það í sér allverulegar breytingar á skráningu bifreiða.

Varðandi tvo fyrst nefndu þættina er skemmst frá því að segja, að n. er sammála um að mæla með þeim ákvæðum, sem lúta að þeim, óbreyttum.

Hins vegar er það niðurstaða n. að ekki skuli grípa til þeirra breytinga varðandi skráningu bifreiða sem frv. gerir ráð fyrir, og vil ég nú aðeins gera grein fyrir þeirri niðurstöðu.

N. fékk umsagnir, eins og fyrr segir, frá allmörgum aðilum, m.a. Bifreiðaeftirliti ríkisins, lögreglustjóranum í Reykjavík, Félagi ísl. bifreiðaeftirlitsmanna, Sambandi ísl. tryggingafélaga, nokkrum tryggingafélögum og Félagi ísl. bifreiðaeigenda. Í þessum umsögnum komu fram aths., sumar jákvæðar, aðrar og miklu fleiri neikvæðar.

Rökin fyrir því að breyta reglum um skráningu bifreiða, breyta þeim í það horf að láta númer fylgja bifreið frá upphafi og meðan hún endist, í stað þess að umskrá bifreiðar við eigendaskipti, og að fella niður skráningu bifreiða eftir lögsagnarumdæmum koma aðallega fram í grg. með frv. þar er sagt frá því að kostir breytingarinnar séu fyrst og fremst sparnaður í vinnu og aðstöðu.

Í umsögn frá Bifreiðaeftirliti ríkisins er það endurtekið að kostir breytingarinnar séu fyrst og fremst sparnaður í vinnu og aðstöðu og minna vinnuálag á þeirri stofnun sem fer með umskráninguna, þ.e.a.s. Bifreiðaeftirlit ríkisins og lögreglustjóraembættum. Gegn þessum rökum hafa verið færð önnur rök sem felast einkum í því: Í fyrsta lagi, að hætt sé við að eigendaskipti komi ekki eins glöggt fram og nú þegar menn halda sínum gömlu númerum eins og á sér stað í dag. Einnig í öðru lagi, að hækkun á gjaldi fyrir skráningu eigendaskipta, eins og gert er ráð fyrir, muni stuðla enn frekar að vanhöldum á tilkynningum um eigendaskipti. Í þriðja lagi er bent á, að ekki sé tekið fram hvernig veðmálabækur skuli haldnar yfir ökutæki, þannig að kaupendur notaðra ökutækja geti verið fullvissir um að engar veðskuldir, fjárnám og þess háttar hvíli á þeim. Í fjórða lagi er talið, að möguleikar á góðu eftirliti hins opinbera minnki við þessa tilhögun. Í fimmta lagi er vakin athygli á því, að vátryggingafélög hafi notað núgildandi skrásetningarkerfi til að taka ákvarðanir um iðgjöld eftir áhættusvæðum, en samkv. reynslu sé áhættumismunur verulegur á milli þéttbýlis og dreifbýlis, og óttast er að aukin vanhöld á tilkynningu eigendaskipta, svo og að fellt sé niður að skrá bíla eftir umdæmum, raski þessu viðmiðunaratriði.

Því er haldið fram og það er álit n., að til þess að mæta þeim sjónarmiðum, sem leiða til sparnaðar í vinnu og aðstöðu, sé hægt að grípa til ýmissa annarra aðgerða en að taka upp nýtt skráningarkerfi. Það má benda á að fella mætti niður þá skoðunarskyldu sem nú er við umskráningu. Það mundi spara nokkra vinnu. Það mætti jafnframt hugsanlega fækka nokkuð umskráningum með því að hækka greiðslur fyrir þær.

Jafnvel þó að hugsanlegt væri að spara eitthvað með nýju umskráningarkerfi, þá eru líka nokkrar ástæður til að halda að kostnaður hljótist af því að taka upp nýtt fyrirkomulag. Í fyrsta lagi má benda á að ekki er annað sjáanlegt en setja þurfi á stofn nýja þinglýsingarstofu og þá sennilega í Reykjavík til þess að skrá í veðmálabækur bifreiðar og eigendur þeirra svo og ef eitthvað hvílir á þeim. Í öðru lagi eru líkur á því að fyrirhöfn bifreiðaeigenda eða eigenda ökutækja mundi mjög aukast við það að finna út hvort veðskuldir hvíldu á bifreiðum og til þess að ganga úr skugga um hver hafi verið eigandi, hvort rétt sé skýrt frá um aldur bifreiða og annað því um líkt. Í þriðja lagi má halda því fram, að hugsanlegt tjón geti orðið af því að minna öryggi er að eftirliti með bifreiðum og skráningu þeirra og þá einkum vegna veðskulda sem á þeim kunna að hvíla. Í fjórða lagi eru líkur á því, að iðgjöld mundu hækka þar sem ekki væri lengur hægt að taka mið af hinum ýmsu og ólíku áhættusvæðum. Í fimmta lagi er augljóst, að nokkur kostnaður mun verða af gerð nýrra númera sem verður að taka upp ef núverandi skráningarkerfi er lagt niður.

Allt þetta út af fyrir sig og samanlagt gerir það líklegt að nokkur kostnaður hljótist af þessari breytingu sem frv. gerir ráð fyrir. Það er mat n. að þessi breyting sé svo róttæk að fyrir henni þurfa að liggja nokkuð sterk rök sem réttlæti þessa breytingu. N. hefur því miður ekki sannfærst af þeim rökum, sem fram koma í frv. eða í umsögnum sem borist hafa, og getur því ekki mælt með því að breytingin sé tekin upp.

Bent hefur verið á að undirbúningur að nýju skráningarkerfi sé þegar hafinn, m.a. með kaupum á skráningarvélum, og tekin hafi verið upp ný spjaldskrá og skráningarskírteini. En í grg. með frv. er vakin athygli á því, að enda þótt þessi undirbúningur sé hafinn, þá sé hann algerlega óháður því hvort skráningarmerkjum verði breytt eða ekki og hann muni koma að notum engu að siður. Þetta er nauðsynlegt að taka fram, því að margir hafa bent á að óskynsamlegt sé að snúa nú við eftir að undirbúningur að nýju skráningarkerfi sé raunverulega hafinn. Það er tekið strax fram í grg. með frv. og er vissulega rétt, að sá undirbúningur getur komið að notum áfram og það skráningarkerfi, sem þar er í undirbúningi, má hafa jafnhlíða því skráningarkerfi sem í gildi er.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um nál. Það kemur fram í þskj. 454 hver afstaða n. sé og af hverju. Hún er á þá leið sem þar er frá skýrt, og ég mun því ekki lesa það upp né gera frekari grein fyrir því nema tilefni gefist til. Ég vil aðeins benda á að jafnframt þessu nál. hefur n. lagt fram brtt. á þskj. 462 sem eru í samræmi við það nál., sem ég hef gert grein fyrir, og laga þá frv. að því kerfi sem nú er, en látnar haldast þær breytingar sem frv. fól í sér varðandi beltabifhjólin og vátryggingarfjárhæðir.