01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2916 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

208. mál, fjáraukalög 1974

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. það til fjáraukalaga fyrir árið 1974, sem hér liggur fyrir á þskj. 437, er samið af fjmrn. samkv. till. yfirskoðunarmanna Alþingis, eins og fram kemur í ríkisreikningi fyrir árið 1974. Er hér sami háttur hafður á og áður leitað er heimildar fyrir öllum umframgjöldum og eins og frv. ber með sér nemur fjárhæðin samtals 11 milljörðum 515 millj. og 194 þús. kr.

Í maímánuði 1975 gerði ég hv. Alþ. stutta grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1974 samkvæmt endanlegu uppgjöri ríkisbókhalds á A-hluta ríkisreikningsins fyrir það ár. Við 1. umr. fjárlagafrv. fyrir árið 1976 s.l. haust gerði ég nánari grein fyrir þessu efni og jafnframt var lögð fram grg. ríkisbókhaldsins um afkomuna. Þar eru helstu frávik fjárlaga og ríkisreiknings skýrð og má vísa til þeirra skýringa. Fjárlög fyrir árið 1974 gerðu ráð fyrir gjöldum að fjárhæð 29 milljarðar 223 millj. og 365 þús. kr. ef gjöld Alþingis eru ekki meðtalin, enda er ekki leitað heimilda fjáraukalaga fyrir þeim umframgjöldum. Sambærileg fjárhæð reiknings nam 40 milljörðum 732 millj. 892 þús. kr. eða 11 milljörðum 509 millj. 527 þús. kr. umfram fjárlög. Sundurliðun fjáraukalaga miðast við hvert ráðuneyti og þar sem gjöld fjárlaga og hagsýslustofnunar reyndust 5 millj. 667 þús. kr. undir áætlun fjárlaga er samtala fjáraukalaga þeirri fjárhæð hærri en fyrrgreindum mismun nemur.

Gjöld reiknings umfram fjárlög voru eftirfarandi í aðalatriðum. Niðurgreiðslur á vöruverði 2 milljarðar 242 millj. 377 þús. kr. Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir 535 millj. 657 þús. kr. Tryggingastofnun ríkisins og Atvinnuleysistryggingasjóður 2 milljarðar 76 milljónir 421 þús. kr. Vegagerð ríkisins 960 millj. 173 þús. kr. Rafmagnsveitur ríkisins 931 millj. 121 þús. kr. Áburðarverksmiðja ríkisins 244 millj. 113 þús. kr. Vextir og verðbætur 365 millj. 411 þús. kr. Húsnæðismálastofnun ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna 568 millj. 82 þús. kr. Dómgæsla og lögreglumál 677 millj. 193 þús. kr. Skóla- og fræðslumál 927 millj. 537 þús. kr. Þessir 14 liðir nema samtals 9 milljörðum 528 millj. 85 þús. kr. Önnur gjöld umfram fjárlög námu því 1 milljarði 987 millj. 109 þús. kr. og dreifast þau á marga liði.

Frv. til fjáraukalaga er nú sem áður byggt á gjöldum einstakra ráðuneyta umfram fjárl. að undanskildum alþingiskostnaði, eins og hér var getið. Þessi umframgjöld voru m.a. byggð á heimildarákvæðum fjárlaga, ákvæðum sérstakra laga og ákvörðun stjórnvalda. Má hér nefna áhrif markaðra tekna, en hækkun þeirra leiddi beinlínis til hækkunar gjalda ríkisreiknings um 1 milljarð 364 millj. 535 þús. kr. Aðrir sérstaklega tilgreindir liðir á bls. 183 og 184 í ríkisreikningi fólu í sér hækkun gjalda um 1 milljarð 299 millj. 402 þús. kr. Er þá ekki tekið tillit til áhrifa almennrar lagasetningar sem leiddi m.a. til aukinna framlaga ríkissjóðs til Tryggingastofnunar ríkisins.

Ég tel ekki ástæðu til þess nú að gera nánari grein fyrir frv. þessu til fjáraukalaga fyrir árið 1974, en vek athygli á því að einnig hefur verið lagt fram frv. til samþykktar á ríkisreikningi fyrir sama ár. Verður að sjálfsögðu gerð sérstök grein fyrir því frv. í hv. deildum Alþ. Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjvn.