04.11.1975
Sameinað þing: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

29. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er nú orðið liðið á þennan fund. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög. Ég held að þær hafi sýnt hve brýn nauðsyn er á því að stjórnmálamenn hér á Alþ. og annars staðar ræði hreinskilnislega um þessi efni, því að sú umr., sem hér hefur átt sér stað í dag, hefur sýnt það að jafnvel þótt dagblöðin í landinu, hinir opinberu umfjöllunaraðilar um íslensk þjóðmál, hafi fjallað um hið svokallaða Ármannsfellsmál vikum saman, þá hafa hvergi í þeim umr. komið fram þau merku atriði, sem hv. þm. Albert Guðmundsson, 12. þm. Reykv., lét koma fram hér áðan, þ. e. a. s. í fyrsta lagi að hann viti persónulega ekki hvort það var Ármannsfell sem lagði fram þessa frægu millj. sem kennd hefur verið við Ármannsfell af borgarstjóra Reykjavíkur, af Morgunblaðinu, af Vísi, af öðrum borgarstjórnarfulltrúum Sjálfstfl. og allir staðið í þeirri trú að hafi verið lögð fram af Ármannsfelli, hvort hún hafi verið það eða lögð fram persónulega af hálfu þeirra manna sem við þetta fyrirtæki starfa og í því eiga hlut. Hér er náttúrlega um gerólík atriði að ræða og algert grundvallaratriði þessa máls. Það sýnir okkur hve óhugnaleg brotalöm er í íslenskri þjóðmálaumr. að slíkt grundvallaratriði skuli núna fyrst koma fram. Og þótt þeir hv. þm., sem lögðu fram þessa till. sem hér er til umr., hafi ekki áorkað annað en þetta, þá er það allmikið að sýna okkur í hnotskurn hvers eðlis stjórnmálaumr. er á Íslandi.

En það var fleira sem hv. þm. Albert Guðmundsson upplýsti. Ég vil segja honum það til hróss, því að margt hefur verið sagt um hann neikvætt á undanförnum vikum og mánuðum, — ég vil segja honum það til hróss að mér fannst ræða hans hér að mörgu leyti vera til fyrirmyndar um þá tegund hreinskilni sem þar kom fram. Mér fannst það virðingarvert að koma hér fram og karlmannlegt og lýsa því yfir að hann hefði haft til að bera það sem sumir mundu kalla víðsýni, hv. 12. þm. Reykvk., þm. Sjálfstfl, Albert Guðmundsson. að hafa styrkt Alþfl. fjárhagslega og Alþýðublaðið. Það sýnir okkur að víða liggja þræðirnir í þessu kerfi, að það blað, sem einna harðast hefur sótt að hv. þm. Albert Guðmundssyni í þessu svokallaða Ármannsfellsmáli, skuli hafa í gegnum forustu síns flokks leitað til þessa sama manns — Það var ekki upplýst hvenær — um fjárstyrk og tekið við honum. Ég held að alþýðu þessa lands þætti það fróðlegt ef menn hefðu til að bera sams konar karlmennsku og hv. þm. Albert Guðmundsson, þeir sem kunnugir eru völundarhúsi íslenskra stjórnmála, héldu áfram að gera sams konar játningar og hann hefur gert hér í dag.

Það hefur ekki farið fram hjá almenningi í þessu landi, að tveir stjórnmálaflokkar hafa á undanförnu ári staðið í veigamiklum húsnæðisframkvæmdum, bæði keypt fasteignir eins og Framsfl. hér við Austurstræti, reist stórhýsi eins og hann hefur reist við Rauðarárstíg, þar sem hann lætur nú reka hótel, og byggingu Sjálfstæðishússins. Fólkið í landinu hefur velt því fyrr sér hvernig þetta er hægt, hvaðan þessir fjármunir hafa komið. Enn fremur er vitað að nokkur af blöðunum á Íslandi hafa verið rekin með halla og það mikinn halla. Ég vil ekki fara með sögusagnir hér, en það hefur heyrst frá ábyrgum aðilum að eitt af dagblöðunum hér í borginni skuldi tugi millj. Við lifum í litlu landi, við lifum í fámennu landi þar sem sögusögnin er einn af þeim upplýsingamiðlum sem tíðkast hafa og þessar sögur ganga viða. Ég held að það sé alveg rétt, sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sagði í þessum umr., að það er orðin brýn nauðsyn fyrir lýðræðið í landinu, fyrir það traust sem þarf að ríkja milli almennings í þessu landi og fulltrúa hans á Alþ. og annars staðar, ef lýðræðið á Íslandi á að vera meira og annað en form, að stjórnmálaflokkarnir allir komi og geri hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum.

Því hefur verið lýst hér í dag að einstakir þm. hafi hug á að láta undirbúa löggjöf um stjórnmálaflokka og hagsmunasamtök, og ég fyrir mitt leyti vil styðja það að það sé gert. Ég held að það sé mikilvægt að Alþ. undirbúi þetta vel og kynni sér löggjöf í þessum efnum. En löggjöfin ein sér er ekki nóg. Mörg samtök á Íslandi og víðar í heiminum hafa sett sér siðareglur sem eru skráðar eða óskráðar. Og í þeim löndum, sem hafa skyld stjórnkerfi og við, vilja telja sig lýðræðisþjóðfélög og jafnvel þingræðisþjóðfélög, þar gilda mjög strangar siðareglur um stjórnmálamenn. Ef sumir þeirra manna, sem komið hafa við sögu á Íslandi í fjármálum flokkanna og fyrirtækjum, væru starfandi í þessum löndum, þá hefðu þeir orðið að haga sér á allt annan hátt. Í Bandaríkjunum t. d. tíðkast það að maður, sem tekur við ráðherrastöðu, verður að afsala öllum þeim hlutabréfum, sem hann á, í hendur annarra aðila. Hann getur ekki gegnt ráðherrastöðu og haldið áfram að eiga hlut í fyrirtækjum sem eiga kannske margvísleg viðskipti við ríkið. Í Bretlandi tíðkast það að stjórnmálamaður, sem á sæti í stjórn fyrirtækis sem verður uppvíst að misferli, verður að segja af sér þótt það sé sannað mál að persónulega hafi hann hvergi nærri þeirri ákvörðun komið. En það eitt, að hann er viðriðinn viðkomandi fyrirtæki á þann hátt, er talið nægilegt brot á siðareglum í Bretlandi til þess að viðkomandi maður sé knúinn til þess að segja af sér. Einn af fremstu leiðtogum breska Íhaldsflokksins var fyrir nokkrum árum knúinn til að segja af sér einmitt af þessari ástæðu. Og svona mætti lengi telja.

Ég vildi þess vegna, þótt margt mætti fleira um þetta mál segja og þessar umr. hér séu á góðri leið með að verða hinar athyglisverðustu, aðeins láta það koma skýrt fram, um leið og ég lýsi yfir stuðningi við það að Alþ. sýni nú af sér þann manndóm og viðsýni að allir þingflokkar geti náð saman um raunhæfa, ítarlega og nákvæma löggjöf í þessum efnum, þá íhugi menn einnig hvort ekki sé nauðsynlegt að setja fram siðareglur, eins konar Codex etieus fyrir íslenska stjórnmálamenn. Þessar reglur eru í gildi annars staðar og þær eru taldar viða í þessum löndum vera ein helsta vörnin fyrir lýðræði og þingræði í þessum löndum. Og það er alveg rétt, sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir vék að hér í athyglisverðri ræðu, að það stafar veruleg hætta um þessar mundir að íslensku lýðræðiskerfi og íslensku þingræðiskerfi. Ég held að það væri gagnlegt fyrir hv. þingheim að afla sér ítarlegra gagna um það hvers konar löggjöf og hvers konar siðareglur lönd eins og Bandaríkin og Bretland til viðbótar við þau lönd, sem hér hafa verið nefnd í dag, hafa komið sér upp í þessum efnum. Það væri mikil gæfa fyrir Alþingi íslendinga, fyrir tiltrúna sem þarf að vera milli fólksins í landinu og löggjafarstofnunarinnar, ef íslenskir þm. hefðu manndóm til þess að taka upp sams konar skipulag og ríkir í þessum löndum. En það er því miður ekki á Íslandi í dag.

Hv. þm. Albert Guðmundsson lýsti því yfir að hann sæi ekkert athugavert við það þó að fyrirtæki og einstaklingar ráðstöfuðu fé sínu eins og þeim sýndist, það væri eitt af grundvallarlögmálunum að fólk ætti að geta gert þetta. Þetta er, hv. þm., ein af grundvallarreglum kapítalismans, að sá, sem á peningana, á að fá að ráðstafa þeim eins og honum sýnist. Og í ýmsum löndum, sem hafa búið við kapítaliskt hagkerfi, eins og t. d. Bandaríkin, hefur það verið viðurkennt að þessi regla býður heim hættu á slíku siðleysi, jafnvel lagabrotum og brotum á grundvallarreglum í stjórnkerfi landsins, að í Bandaríkjunum hefur verið sett löggjöf gagngert til að stemma stigu við því að menn geti neytt þessa réttar sem hv. þm. Albert Guðmundsson taldi vera grundvallaratriði. Ég held að það væri fróðlegt fyrir aðdáendur frjáls hagkerfis og þess vestræna lýðræðis, sem tíðkast í Bandaríkjunum, að hv. þm. kynntu sér einmitt þessa löggjöf, þessar reglur sem Bandaríkin hafa sett. Þar eru þm. og flokkar skyldugir til þess að birta opinberlega skrá yfir öll framlög, stór eða smá, frá hvaða aðila sem er, sem þeir hafa fengið. Eitt af þeim mörgu málefnum, sem urðu Nixon Bandaríkjaforseta að falli, voru samskipti hans og ráðh. hans við fjársterk hagsmunasamtök, við framleiðendur og aðra atvinnurekendur sem höfðu látið fé í kosningastarfsemi Repúblíkanaflokksins og Nixons sérstaklega gegn því að fá sér vilhallar ákvarðanir frá bandarískum stjórnvöldum. Þetta var upplýst, þetta var gagnrýnt og þetta var ein af þeim ásökunum sem bandaríska þingið setti formlega fram gegn Nixon forseta þegar það tilkynnti að það væri reiðubúið til að setja hann af. Þar var ekki beint samhengi á milli, frekar en í Ármannsfellsmálinu, á milli tímasetningar fjárframlags og vilhallrar ákvörðunar. En það var talið nægilegt af hálfu bandaríska þingsins að sýna fram á, að þessi samtök höfðu um svipað leyti og ákvörðunin var tekin látið Repúblíkönum og Nixon í té stórfé til stjórnmálastarfsemi, til þess að skjöldur forsetans væri ekki eins hreinn og bandarísku lýðræði var talin nauðsyn á að hann væri ávallt.

Þannig er hægt að telja upp fjölmörg dæmi um ákvarðanir, löggjöf, siðareglur og einstök tilfelli í þeim löndum sem t. d. hv. þm. Sjálfstfl. vilja helst sækja fordæmi til um stjórnarfar og stjórnarhætti. Ég vænti þess í einlægni að þeir geti orðið okkur öðrum þm. samferða í því, helst á þessu þingi, að setja lög og reglur sem ekki standa löggjöf í þessum löndum að baki.