01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2923 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

156. mál, bann við geymslu kjarnavopna á íslensku yfirráðasvæði

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., er í sjálfu sér mjög einfalt. Það eru allir sammála um að á íslensku yfirráðasvæði skuli ekki leyfð staðsetning kjarnorkuvopna, og engin rödd hefur heyrst um að þeirri stefnu skuli breytt. En því miður eru ekki allir vissir um að þessari sameiginlegu stefnu allra íslendinga sé fylgt þar sem bandaríski herinn á Keflavíkurflugvelli er annars vegar.

Hæstv. utanrrh. hefur að vísu lýst því yfir oftar en einu sinni og nú seinast hér áðan, að hann sé víss um að kjarnorkuvopn séu ekki hér á landi. Afstaða hans virðist byggjast á óbilandi trú. En í ræðu hans kom skýrt fram og hann viðurkenndi að ekki hefði verið sannað með tæknilegum aðferðum, sem íslendingar ráða yfir, hvernig þarna væri í pottinn búið. Og staðreynd er að bandarísk yfirvöld hafa hvað eftir annað neitað að svara þessari spurningu, og það sem meira er, virt erlend tímarit erlendis hafa hvað eftir annað lýst yfir að kjarnorkuvopn séu hér á landi.

Ég verð að segja að mér finnst satt að segja ekki mikil ástæða til þess að fjölyrða um þetta mál hér á Alþ. Hljótum við ekki öll að vera sammála um að eðlilegt og sjálfsagt sé að Alþ. slái því föstu í eitt skipti fyrir öll með setningu löggjafar að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn og það skuli vera bannað um alla framtíð? Og getum við ekki einnig verið sammála um að sjálfsagt sé að hafa uppi virka viðleitni til eftirlits með því að þessu banni sé framfylgt?

Hæstv. utanrrh. kvartaði yfir því í ræðu sinni hér áðan að ekki hefðu verið færð nægileg rök fyrir því að grunurinn um kjarnorkuvopn kynni að vera á rökum reistur. Ég tel að málflutningur af þessu tagi sé ekki frambærilegur. Að sjálfsögðu er þarna verið að snúa sönnunarbyrðinni við. Við viðurkennum fúslega, sem áhyggjur höfum af þessu máli, að það sé ekki á okkar valdi að sanna neitt til eða frá í þessum efnum. Málið er ekki þess eðlis. En við bendum á það að með því að beita fullkomnustu tækni við rannsókn málsins og fullkomnu eftirliti er hægt að ganga úr skugga um hver sé sannleikur þessa máls.

Öll vitum við að íslenska stjórnmálaflokka greinir mjög á um afstöðuna til hersetunnar og við hæstv. utanrrh. höfum ekki að öllu leyti sömu afstöðu til þeirra mála, þó að ég hafi oft gert mér vonir um að við værum og kynnum að verða skoðanabræður. En þetta mál er alveg sérstaks eðlis, og hlýtur að vera hafið upp yfir deilur um herstöðvamálið sem slíkt að við hljótum að ganga úr skugga um þetta umdeilda atriði. En þrátt fyrir ýmislegt, sem fram kom í ræðu hæstv. utanrrh. og olli mér nokkrum vonbrigðum, þá heyrði ég ekki betur en hæstv. utanrrh. lýsti því yfir í lok sinnar ræðu að ekki stæði á sér að mál þetta fengi þinglega meðferð og úr þessu deilumáli yrði skorið. Ég tek því þessa yfirlýsingu hans sem vilyrði um að hann muni reiðubúinn til þess að samþykkja þá þáltill. sem hér hefur verið fram borin og er þess eðlis að allir alþm. hljóta að vera sammála um efni hennar.