01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2925 í B-deild Alþingistíðinda. (2414)

156. mál, bann við geymslu kjarnavopna á íslensku yfirráðasvæði

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Alþfl. er sammála þeirri grundvallarskoðun sem kemur fram hjá flm. og einnig hefur komið fram hjá hæstv. utanrrh., að hér á Íslandi eigi ekki að leyfa neins konar kjarnorkuvopn. Við höfum um langt árabil verið þessarar skoðunar. Þegar spurningin um hvort hér séu kjarnorkuvopn án okkar vitundar eða ekki hefur komið upp höfum við tekið trúanleg orð íslenskra yfirvalda og íslenskra utanrrh. sem lengi vel voru úr okkar eigin flokki. Við sjáum ekki ástæðu til að byrja skyndilega að vefengja orð þeirra þegar utanrrh, er úr öðrum flokki.

Það er að vísu alltaf rétt að vera tortrygginn í málum eins og þessu og raunar í utanríkisog öryggismálum öllum. Venjulega hefur hugsun manna um þetta mál í fortíðinni leitt til þess að það kunni að vera að hægt sé að fela sjálfar sprengjurnar, þær eru ekki fyrirferðarmeiri en svo, en að öryggisráðstafanir, sem alls staðar eru hafðar í kringum kjarnorkusprengjur og allan flutning þeirra, hljóti að vera svo fyrirferðarmiklar að þær gætu varla farið fram hjá íslendingum á Keflavíkurflugvelli. Hæstv. ráðh. kom raunar að þessu sama atriði, að það er ekki sprengjan, sem mest ber á, heldur öryggisráðstafanir sem þeir munu án efa sjá best um er mest afskipti hafa af þessum ógnarvopnum.

Nú hefur tækninni fleygt fram, og það kann að vera svo, þó að mig skorti þekkingu til að dæma um það, að vopnin séu orðin það miklu minni, léttari og að öryggisráðstafanir séu nú á dögum fyrirferðarminni heldur en áður voru, þannig að þessar röksemdir fái ekki lengur staðist, og ég sé ekkert á móti því að Alþ. láti kanna þetta mál mjög vel og taki sínar ákvarðanir að því loknu.

Um till. til þál. hef ég aðeins það að segja, að ég undrast að flm. hafa sleppt einni veigamestu hættunni á því að kjarnorkuvopn komi hér í nágrenni við okkur og springi e.t.v. í loft upp í fanginu á okkur, en það eru kjarnorkuvopn um borð í skipum. Flugvellir eru hér að vísu nærri þéttbýli og mundu kjarnorkusprengingar þar vafalaust valda óhugnanlegu tjóni, manntjóni og eignatjóni. Hafnirnar eru enn nær íslensku þéttbýli, og erlend herskip hafa verið hér t.d. á ytri höfninni í Reykjavík og lagst upp að bryggju, fjöldamörg skip frá ýmsum löndum sem vel gætu verið með þessi vopn innanborðs. Ég veit ekki til að það hafi nokkurn tíma verið um það spurt, þótt gengið sé út frá að það sýni enginn þann dónaskap að sigla hingað með slík vopn innanborðs án þess að láta vita af því og spyrja um leyfi.

Þar fyrir utan er erfiðasti hluti þessa máls, sem er að meta hversu hættulegar siglingar kjarnorkukafbáta í hafinu umhverfis landið eru. Við vitum að bæði bandarískir og sovéskir kjarnorkukafbátar hafa undanfarin ár siglt nærri Íslandi báðum megin við landið til þess að komast á svæði þar sem þeir halda sig reiðubúnir til að gera þann óskunda sem þeir eru byggðir til að valda ef sú ógæfa skylli yfir mannkynið, Samkv. lögum hafa þessi skip rétt til að sigla upp að fjögurra mílna linunni við Ísland án þess að spyrja nokkurn mann eða láta vita af sér. Það er því alls ekki útilokað að svo gæti verið að kjarnorkuvopn færu hér rétt við bæjardyrnar miklu oftar en við höfum hugmynd um. En ég bendi á þetta, að ef rætt er um kjarnorkuvopn í flugvélum sem kunna að lenda á Íslandi, þá er ekki síður ástæða til að gefa gaum að því að hér kunna að koma skip að landi sem hafa þessi vopn innbyrðis.