01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2929 í B-deild Alþingistíðinda. (2417)

221. mál, graskögglaverksmiðjur

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Í ræðu þeirri, sem ég flutti við setningu Búnaðarþings í febr. s.l., nefndi ég það sem eitt af höfuðverkefnum landbúnaðarins nú að auka og hraða framkvæmdum við heykögglaverksmiðjurnar. Ég benti á það, að til þess að það væri hægt þyrfti meira fjármagn til heldur en nú væri til ráðstöfunar, og eins og kunnugt er hefur ríkissjóður ekki getað lagt þar meira fram en gert hefur verið. Ég nefndi því í því sambandi hvort ekki væri athugandi að leita til héraðanna sjálfra í þeim efnum og mundu þá þeir aðilar ganga fyrir sem vildu sinna því. Ég tók fram að þetta væri verkefni sem ég vonaðist til að Búnaðarþing tæki ákveðnum tökum og gerði ákveðnar till. um, og raunin varð líka sú að það gerði það á mjög myndarlegan hátt. Ég mun nú fljótlega skipa n. til að athuga einmitt þetta mál í heild, þ.e. hvar við eigum að hraða' uppbyggingu og hvaða möguleika við höfum til þess að koma áfram þeim byggingum sem þegar er búið að ákveða.

Eins og kunnugt er var ákveðið á sínum tíma að byggja verksmiðju á Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu, og tók hún til starfa á s.l. sumri, og í framhaldi af því kæmu Hólmurinn í Skagafirði og Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Mér er fullkomlega ljóst að þetta hefur gengið með minni hraða en þá var vonast til, enda þótt við gerðum okkur þá ljóst að þetta mundi kosta verulegar fjárhæðir. En auk þess hefur svo það komið til, að verksmiðjan í Saurbæ í Dalasýslu, sem þá tók til starfa og þá sem sérstakt hlutafélag, gat ekki haldið áfram starfsemi sinni með þeim styrk sem hugsað var að nægði henni og ríkið yfirtók hana. Enn fremur hefur verið haldið áfram uppbyggingu við þá fyrstu verksmiðju sem stofnuð var hér á landi, heykögglaverksmiðjuna í Gunnarsholti, sem hefur verið hið besta fyrirtæki svo sem kunnugt er, og einnig þurfti að endurnýja þá byggingu eða þá starfsemi, sérstaklega vélakost, og stækka og er verið að vinna að því einnig.

Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða sem verður unnið að, og ætlunin með nefndarskipuninni er einmitt að leita að leiðum, bæði á vegum ríkisins og annarra aðila, til þess að hraða þessari uppbyggingu.

Í sambandi við þetta mál finnst mér að einnig geti komið til athugunar að jafnhliða þessu eða í framhaldi af þessu verði skipaðar nefndir fyrir einstakar verksmiðjur, svo sem gert hefur verið um þær sem hafa verið byggðar til þessa. Hefur það orðið til þess að hraða málum, eins og t.d. í Austur-Skaftafellssýslu. Þeir unnu vel að uppbyggingu verksmiðjunnar á Flatey á Mýrum. Einnig hefur það verið gert í Dölum síðan breytingin var þar á gerð. Þetta finnst mér að komi einnig til athugunar í sambandi við þær verksmiðjur sem búið er að ákveða að byggja. En n. sú, sem ég hugsa mér að skipa, á að taka málið í heild eins og Búnaðarþing lagði til, og það verður ekki langt að bíða þess að hún verði skipuð og geti þá tekið til starfa.

Ég er sannfærður um að hér er mjög gott mál á ferðinni. Það hefur sýnt sig allt frá því að heykögglaverksmiðjan í Gunnarsholti tók til starfa og til þessa að hún hefur skilað góðu verki. Sama er að segja um heykögglaverksmiðjuna á Hvolsvelli. Þær hafa báðar verið ágæt fyrirtæki, og sömuleiðis í Brautarholti, en eins og vant er hafa orðið þarna ýmsir byrjunarörðugleikar og svo hefur dýrtíðin gert það að verkum að uppbygging í sambandi við þessar verksmiðjur hefur farið með minni hraða en löngun var til og stefnt var að. En ég vil bara segja það í tilefni af þessari þáltill. að í þetta horf mun þetta mál fara. Það verður skipuð n. til þess að taka þetta á landsvísu, og þá verður einnig lagt fyrir hana að athuga víðtækari möguleika til fjáröflunar heldur en bara frá ríkinu. Og svo finnst mér einnig koma til athugunar að setja sérstakar framkvæmda- eða byggingarnefndir í þær verksmiðjur sem er búið að ákveða, og mundi ég þá hafa samband við heimamenn þar að lútandi.