01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2931 í B-deild Alþingistíðinda. (2419)

221. mál, graskögglaverksmiðjur

Stefán Jónsson:

Herra forseti. í þáltill., sem hér um ræðir, er hreyft hér á Alþ. máli sem allvel var kynnt fyrir þm. Norðurl. e. á fjölmennum og vel undirbúnum fundi á Húsavík fyrir ekki löngu. Á þeim fundi voru lagðar fram áætlanir um framkvæmdir við verksmiðju í Saltvík ásamt arðsemisútreikningum sem vissulega gerðu þetta fyrirtæki harla eftirsóknarvert í augum þeirra sem á hlýddu og skoðuðu þessi plögg.

Framkvæmdir eru þegar komnar það vel af stað við þetta fyrirtæki í ræktun á góðu landi, að varla fer á milli mála að dráttur á smiði þessarar verksmiðju fram yfir árið 1978 hlýtur að teljast til taps.

Það má geta þess m.a., að arðsemisútreikningar, sem okkur voru sýndir á þessum fundi og staðfestir af sérfræðingum, sýndu að graskögglaverksmiðjan fyrirhugaða í Saltvík yrði um það bil þrefalt arðgæfari heldur en fyrirhuguð málmblendiverksmiðja á Grundartanga í Hvalfirði virtist vera þegar hæstv. landbrh. mælti hvað ákafast með smíði þeirrar verksmiðju um þetta leyti fyrir einu ári, þótt þeir arðsemisútreikningar virðist nú eitthvað hafa brugðist. Nú kemur mér það í hug, þegar hæstv. ráðh. kvartar undan því að fé vanti til þess að koma upp heykögglaverksmiðju í Saltvík og Hólminum og víðar, hvort ekki komi nú til greina að nota eitthvað af því fé, sem fyrirhugað var og ákveðið við afgreiðslu síðustu fjárlaga til Grundartangaverksmiðjunnar, einmitt til þess að flýta fyrir graskögglaverksmiðjunum. Ég hef það fyrir satt að nú muni beinar fjárveitingar og skuldbindingar í sambandi við Grundartangaverksmiðjuna frægu nema allt að því milljarði kr. og mætti, ef hér væri um losað, reisa allmargar heykögglaverksmiðjur fyrir þá upphæð. Ég er hæstv. landbrh. sammála um það að hér er um að ræða fyrirtæki sem framtíð íslensks landbúnaðar byggist að ákaflega miklu leyti á, — fyrirtæki sem vænleg eru til þess að lyfta undir íslenskan landbúnað. Og ég efast ekki um að hæstv. landbrh, mælir það af alhug að hann vill stuðla að því að þessar verksmiðjur komist upp.

Ég get tekið undir með hæstv. síðasta ræðumanni um það, að mér þykir hæstv. landbrh. hafa farið vel af stað og myndarlega með ákvörðun sinni um skipun fremur þriggja nefnda en einnar til þess að undirbúa allsherjar átak í þessum málum. En ég er þeirrar skoðunar að ákvörðun um heykögglaverksmiðjuna í Saltvík og fjárframlög til hennar þurfi ekki að biða eftir niðurstöðum af rannsóknum og könnun þeirra nefnda.