01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2936 í B-deild Alþingistíðinda. (2424)

Umræður utan dagskrár

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Aldrei hefði mig grunað, að það kæmi í minn hlut að átelja okkar ágæta forseta fyrir stjórn hér á Alþ. En það virðist undarlega erfitt að fá að kveðja sér hér hljóðs. Ég hef aldrei lagt það í vana minn að kveðja mér hljóðs utan dagskrár, ég veit að það á að nota sér mjög takmarkað. En þegar það er í fyrsta skipti sem ég hef óskað eftir því, þá skil ég varla hvers vegna allir þeir steinar eru lagðir í götu mína sem ég hef orðið hér var við. Ég veit ekki annað en það sé hefð, það kannske vantar um það ákveðin lög, — en ég veit ekki annað en það sé hefð í þingsköpum að þegar óskað er eftir því að fá að ræða þingsköp, þá er manni undireins gefið orðið, og þetta hefur verið nauðvörn þm. þegar ekki er orðið við því að leyfa þeim að tala utan dagskrár. Þetta fékk ég ekki, heldur er búið að taka hér tvö, ef ekki þrjú mál á dagskrá, sem a.m.k. voru ekki öll eins nauðsynleg og ég tel að það mál sé sem ég ætla nú að ræða og vonast eftir að geta fært rök að þó síðar verði. Engu lofa ég um það hvort ég verði langorður eða stuttorður, því að ég tel hér um mál að ræða sem full ástæða er til að þm. hugleiði gaumgæfilega.

En það er kannske rétt að víkja að steinunum. Ég er búinn að nefna einn, en annar var sá, að það, sem olli því að ég ákvað að kveðja mér hér hljóðs utan dagskrár, er grein í Þjóðviljanum í dag um Kröfluvirkjun, og það er viðtal við ekki ómerkari mann en Þorleif Einarsson jarðfræðing sem er talinn einhver okkar besti sérfræðingur á þessu sviði. Ég tel alveg öruggt að ekki einungis alþm., heldur almenningur um allt land kynni sér þessa grein og sjái út í hvaða óefni er verið að vaða með þjóðina.

Ég tilkynnti niður í rn., að vísu ekki fyrr en rétt fyrir hádegi, að ég ætlaði að fá að ræða þetta mál utan dagskrár. Ég fékk seinna þau boð að ráðh. væri upptekinn á einhverjum öðrum fundi. Ég vek athygli á því að þm. og ráðh. eiga að meta meira Alþingi íslendinga heldur en einhvern fund úti í borginni. En sleppum því. Ég sagði að ég mundi láta mér nægja að einhver ráðh. hlustaði á mál mitt, því að þetta væri mál allrar stjórnarinnar. Enn voru ýmsar vöflur, eins og ég gat um áðan, hvernig forseti neytti valds síns. En það var ekki nóg með það. Þegar ég sit hér í sæti mínu áðan, þá kemur einn þm. til mín, varaformaður Kröflunefndar, og spyr hvort það sé virkilega satt að ég ætli að ræða Kröflumálið hér í dag. Jú, jú, ég segist ætla að gera það. „Þú skalt ekki hafa betra af því,“ segir hann með þjósti. Ég ætla að vona að þessi ágæti þm. komi hér upp á eftir og sýni þá karlmennsku að standa við þessi orð.

En víkjum þá að Kröflumálinu. Þetta er raunaleg saga alls konar mistaka, og ég ætla ekki að hengja neinn sérstakan fyrir þau. Það eru allt of margir ábyrgir þarna til þess að hægt sé að benda á einn sérstaklega sekan. En ég hygg þó að við getum ekki fríað fyrrv. orkumálaráðh. af töluverðri sök þarna, og sá, sem nú situr í því sæti, heldur áfram með vitleysuna, sýnist manni, þrátt fyrir gos, þrátt fyrir að markaður hafi breyst, þrátt fyrir það að Grundartangaverksmiðjan virðist ekki vera á næsta leiti og þar af leiðandi mikið rafmagn þá og þegar til staðar við Sigöldu. Samt sem áður á að fara áfram með þetta mikla fyrirtæki, sem kostar milljarða, án þess að enn þá sé þörf fyrir það. Og þetta er gert á sama tíma og þeir, sem best hafa vit á fjármálum okkar eða telja sig hafa best vit á þeim, eru að segja okkur að þjóðin sé á hraðri leið í gjaldþrot. Nýlega var sagt og ekki mótmælt að hin ágæta ríkisstj., sem nú situr, rétti hverju barni, sem fæðist á Íslandi núna, um 300 þús. kr. skuldabagga. Síðan bættust við tvö lán sem voru tekin nú á dögunum. Ætli þetta sé þá ekki komið upp í 400 þús., og þegar hún kannske færi frá, ja, hvenær? — hún virðist sitja furðuföst þrátt fyrir alla vitleysu sína, — ætli það verði ekki orðin hálf milljón sem hún réttir að blessuðum börnunum sem fæðast hérna þá? Það mætti segja mér það. En hér kom sendinefnd frá Akureyri til að reyna að fá að halda áfram að bora á Laugalandi í Eyjafirði, Laugalandi fram, þriðju borholuna, til að það kæmi í ljós fullkomlega hvort hægt yrði að hita Akureyri upp með heitu vatni þarna úr firðinum og ef það yrði hægt, þá hefur verið bent á að markaðurinn fyrir Kröflurafmagn gerbreyttist. En í Morgunblaðinu í morgun stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Orkumálastjóri: Borinn fer til Kröflu, því verður ekki breytt. Okkur er uppálagt að mæta með borinn við Kröflu, og því verður ekki breytt,“ segir hann.

Engin breyting hvað sem fram undan er. Allt of dýr virkjun, ekki markaður fyrir rafmagnið, stórkostlega aukið rafmagn, sem ekki selst við Sigöldu innan skamms tíma, og loks það, sem fyllti nú mælinn í mínum huga, það er grg. eða frásögn Þorleifs Einarssonar í Þjóðviljanum í dag. Ég vek athygli á því, að þetta er birt í blaðinu Þjóðviljanum. Formaður Alþb., Ragnar Arnalds, er einn í stjórn Kröfluvirkjunar. Takið eftir þessu. Þessi grein er töluvert ítarleg, og ég geri ráð fyrir að millifyrirsagnirnar séu kannske blaðsins. En Þorleifur hefur áreiðanlega vitað að þær voru settar, og ég ætla að lofa ykkur að heyra fyrst millifyrirsagnirnar: „Skjálftavirknin óeðlileg — fljótandi efni undir.“ Önnur millifyrirsögn: „Pólitísk Kröflunefnd mistök.“ Þriðja millifyrirsögn: „Villandi upplýsingar um jarðskjálftaþol stöðvarhúss.“ Næsta millifyrirsögn: „Varnir gegn hraunrennsli þarf að athuga betur.“ Enn: „Svæðið hefur tæmst af gufu.“ „Engin forrannsókn fór fram á svæðinu.“ Þarna höfum við það sem við höfum verið að spyrja eftir og aldrei fengið hrein svör um. Ég spurðist fyrir um forrannsóknirnar í vetur. Jú, jú, jú, jú, það hafði svo sem verið rannsakað. En nú kemur jarðfræðingurinn Þorleifur Einarsson og segir okkur svart á hvítu: „Engin forrannsókn fór fram á svæðinu.“ Og enn meira: „Bora þarf tvöfalt fleiri holur vegna vélakaupanna.“ Og síðan leggur hann til: „Frestun Kröfluvirkjunar — línu yfir Sprengisand.“

Ég ætla aðeins að lesa örfáar glefsur úr þessari grein, með leyfi hæstv. forseta. T.d. kemur hérna um skjálftavirknina:

„Það má svo aftur benda á það núna, að þó að stór jarðskjálftahrina sé liðin hjá, er skjálftavirknin langt frá því að vera eðlileg og er raunar núna tvöföld á við það sem hún var í sumar, Þá má og benda á það að hitabreytingar á svæðinu eru litlar samkv. mælingum. Þó er ljóst að hiti hefur hækkað á svæðinu næst stöðvarhúsinu. Hvað þetta þýðir skal ég ekki segja um, en það er þó öruggt og víst, að enn þá eru mestar líkur á því að næsta eldgos á Íslandi brjótist út á Kröflusvæðinu.“ Ég endurtek: „Hvað þetta þýðir skal ég ekki segja um, en það er þó öruggt og víst, að enn þá eru mestar líkur á því að næsta eldgos á Íslandi brjótist út á Kröflusvæðinu.“

Ég benti á það í fsp. í vetur hvað þetta væri háskalegt svæði sem þarna hefði verið ráðist í að virkja, og viti menn, örfáum dögum eftir að ég flutti mína fsp. hér hófst gosið á þessum stöðum, svo að það sannaðist a.m.k. að ég benti þar á háskann sem í virkjuninni fólst. — Og enn segir Þorleifur Einarsson hér:

„Þá má einnig benda á það, að engar titringsbylgjur (S-bylgjur) mælast þegar jarðskjálftabylgjur fara í gegnum Kröflusvæðið, en titringsbylgjur fara eingöngu í gegnum fast efni, en ekki fljótandi. Þetta gæti bent til þess að einhvers konar vökvi sé þarna undir, sumir mundu halda hraunkvika.“

Enn segir hann hér:

„Mér finnst pólitísk Kröflunefnd mistök. En fyrst svona var að málum staðið hefði hún átt að ráða sér „yfirlestrar“-sérfræðinga til að fara yfir áætlanir ráðgjafarverkfræðinga, þar sem nm. sjálfir eru vart dómbærir um slík sérfræðileg mál. Við eigum hæfa menn sem þekkja vel til slíkra virkjana. Þar má nefna t.d. þá Gunnar Böðvarsson,“ — heimsfrægur maður á þessu sviði — „og Svein Einarsson, sem báðir starfa erlendis, og Þorbjörn Karlsson prófessor við Háskóla Íslands.“

En Þorleifur veit af því að til þessara manna hefur ekkert verið leitað. Það þótti ekki nein þörf á því að fá sérfræðinga varðandi þetta mál. „Svæðið hefur tæmst af gufu,“ segir hann. „Á það ber að benda, að í I.eirhnjúksgosinu streymdi feikilegt magn af gufu út úr svæðinu. Sumir telja að aflið hafi kannske verið 500–1040 mw. Þarna hefur því Kröflusvæðið tapað geysilegri orku á nokkrum vikum, svo sem sjá má af því að eina nothæfa borholan hefur misst um 64% af afli sínu“ — 60% minnkar það við gosið. –„Enginn veit hversu langan tíma tekur fyrir svæðið að jafna sig, en ólíklegt er að boranir í vor og sumar muni veita upp svo öflugu gufustreymi sem verður í framtíðinni. Eigi að koma annarri vélinni í gagnið í haust, þarf því fleiri borholur en við eðlilegar aðstæður. Þetta ásamt fleiru bendir á að fresta beri framkvæmdum við Kröfluvirkjun. Að öðru leyti þarf ég vart að ræða um óhagkvæmni virkjunarinnar. Það hefur verið gert svo rækilega á undanförnum vikum og mánuðum.“ — Það hefur bara ekki verið tekið tillit til þess, hverjir sem hafa talað.

Síðan, eins og ég sagði áðan, bendir Þorleifur Einarsson á að engin forrannsókn fór fram á Kröflusvæðinu, heldur var farið í virkjunina án eiginlega nokkurrar athugunar, en síðan segir hann: „Við boranir í fyrra kom í ljós að hiti á svæðinu er meiri en ráð hafði verið fyrir gert. Vélarnar eru gerðar fyrir 270 gráðu hita, en í stóru borholunni, sem nú er ónýt, er hann álitinn 330–340 stig. Þar sem vélarnar eru gerðar fyrir 270 stig og bundnar við það, er ljóst að ekki má bora það djúpt að full aflköst fáist úr holunum, sé miðað við hitastig í ónýttu holunni. Það þýðir að bora þarf tvisvar til þrisvar fleiri holur þar sem þær mega ekki vera fullsterkar. Þetta hefur í för með sér meiri fjárfestingu í holum og leiðslum.“

Sem sagt, virkjunin hækkar enn, enginn veit hvað mikið. Síðan leggur hann þetta til, og ég held að alþm. hafi gott af því að heyra hvað hann ráðleggur. Þetta er enginn Bragi Sigurjónsson, sem er að tala, heldur er það Þorleifur Einarsson jarðfræðingur og einn þekktasti maður okkar á því sviði:

„En hvað á þá að gera til úrbóta á þessu, eins og málin standa í dag, þegar ekki er hægt að afskrifa gos og gangurinn í framkvæmdinni hefur verið eins og þú hefur lýst?“ spyr blaðamaðurinn.

„Það á að byrja á því að selja vélarnar. Þær eru sagðar svo góðar að það ætti ekki að vera neinn vandi að fá kaupendur.“ — Ég veit nú ekki, hvort það er kannske ofurlítið háð í þessu, jæja, sleppum því. — „Síðan er best að hugsa upp á nýtt og fikra sig áfram eftir því með forrannsóknum, auk þess sem sjá verður hvert framhald verður á jarðhræringum á svæðinu sem enn eru óeðlilegar eins og fram hefur komið. Það er ljóst að með lagningu byggðalínunnar verður komið í veg fyrir raforkuskort á Norðurlandi, en hún á að geta flutt 8–10 mw. næsta haust. Í framtíðinni eru svo horfur á að Akureyri fái hitaveitu sem spari a.m.k. önnur 8 mw. í raforku. Það er ljóst, að Grundartangaframkvæmdum seinkar um óákveðinn tíma. Sigölduvirkjun fer hins vegar í gang næsta vetur. Það verður því enginn skortur á raforku í náinni framtíð og alveg óhætt að hugsa svolítið af viti,“ segir Þorleifur. „Það hefur hins vegar verið lagt á það allt kapp af Kröflunefnd að fjárfesta og kaupa sem mest til þess að tryggja það að hvergi verði við snúið.“ — Sem sagt, ómögulegt að bakka.

„Á föstudagskvöldið síðasta var í sjónvarpinu sýnd mynd frá uppskipun staura í línu frá Kröflu til Akureyrar. Þá staura ætti þegar í stað að nota í línu frá Sigöldu norður yfir Sprengisand í Bárðardal allt í Fosshól. Þeir mundu nægja í helming hennar. Þaðan mætti svo dreifa rafmagni austur og vestur og þegar Kröfluvirkjun svo kæmi í gagnið ef jarðhræringar þar hættu og unnið yrði af viti mundi hún geta flutt orku í allar áttir. Þar með yrði losnað við vandræðavirkjun í Bessastaðaá“ — takið eftir þessu: „losnað við vandræðavirkjun í Bessastaðaá í Fljótshlíð, sem er engu betri en Grímsá — vatnslaus allan veturinn“.

Og hér held ég að ég lofi nú Þorleifi að hafa síðasta orðið. En ég ráðlegg alþm. að lesa þessa ágætu grein, þótt hún sé í Þjóðviljanum, og hjálpa ríkisstj. til að fara að hugsa af viti.