01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2940 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar þm. óska þess að beina fsp. til ráðh. utan dagskrár, þá er það orðin föst venja hér á Alþ. um fjölda ára að sá ráðh. sé látinn vita með hæfilegum fyrirvara. Í þetta sinn barst mér vitneskja kl. 1. í dag um að hv. þm. Bragi Sigurjónsson ætlaði að hreyfa hér utan dagskrár Kröflumáli. Út af ummælum hv. þm. um að ég hafi verið á fundi úti í bæ vil ég skýra frá því hér, sem hv. þm. er kunnugt, að í dag hófst ársþing Félags ísl. iðnrekenda þar sem er venja að iðnrh. flytji erindi um þróun iðnaðarmála. Því hafði ég lofað fyrir alllöngu og hafði fjarvistarleyfi hjá hæstv. forseta Sþ. í því sambandi og kom því ekki á þennan fund að sjálfsögðu strax kl. 2. Ef í þessu felast ásakanir frá hv. þm., þá eru þær ástæðulausar.

Ég býst ekki við að hv. þm. og líklega ekki heldur hv. fyrirspyrjandi ætlist til þess að ég fari að ræða við hann hér um blaðaviðtal úr einu dagblaðanna í morgun. Ég hef rætt um það við hæstv. forseta Sþ., og það var hv. fyrirspyrjanda kunnugt áður en hann fór hingað í stólinn, að ég hef óskað eftir því að á fundi Sþ. n.k. þriðjudag verði tekin á dagskrá skýrsla iðnrh. um Kröfluvirkjun. Ég mun því ekki nú ræða þau mál frekar.