01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2940 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hv. þm. Bragi Sigurjónsson hefur tekið sig til og lesið hér utan dagskrár langa grein úr einu dagblaði bæjarins sem inniheldur viðtal við Þorleif Einarsson jarðfræðing. Hann hefur sérstaklega vakið athygli alþm. á því að þessi grein hafi birst í Þjóðviljanum og í því sambandi bætt því við að formaður Alþb. eigi sæti í Kröflunefnd, það sé kannske einmitt þetta, sem sé athyglisverðast í þessu sambandi.

Án þess að fara að ræða hér í smáatriðum um efni þessa viðtals, þá vil ég leyfa mér að benda á að í því er fjallað um þetta mál frá býsna mörgum hliðum. Það er rætt um málið frá jarðfræðilegu sjónarmiði, frá sjónarmiði vélaverkfræði, frá sjónarmiði jarðskjálftafræðinga og frá sjónarmiði þeirra sem gerst vita um raforkumarkað og viðskiptamál. Ekki skal ég draga neina dul á það, að sá, sem viðtalið er við, Þorleifur Einarsson, er hinn mætasti maður, ágætur jarðfræðingur, sem margt gott liggur eftir. En það vill nú svo til að hann er ekki sérfræðingur á öllum þessum sviðum sem ég hef nú nefnt og þetta viðtal fjallar um. Það, sem hann segir í þessu viðtali um jarðfræðileg efni, er ekki í neinu ósamræmi við skoðanir annarra jarðvísindamanna um þessi efni eða a.m.k. ekki að neinu marki, og mér virðist ekki að þau sjónarmið, sem hafa verið ríkjandi í Kröflunefnd, hafi verið þar í neinni andstöðu við. En þegar kemur að öðrum sviðum þessa máls, þá ber æðimikið á milli, og ég get aðeins sagt það eitt, að þessi ágæti maður hefur ekkert dómsvald í þeim efnum. Ég læt nægja að segja það eitt á þessu stigi málsins, að það úir og grúir í þessu viðtali af ýmiss konar misskilningi sem þarfnast leiðréttingar, ýmsar stóryrtar fullyrðingar sem lítill rökstuðningur er á bak við. Þar er margt ofsagt og kannske enn fleira vansagt.

Ég reikna með að í umr. um þetta mál á þriðjudag gefist tækifæri til þess að ræða þessi mál frá ýmsum hliðum, og er því að sjálfsögðu engin ástæða til þess að fara að elta ólar við einhvern misskilning sem stendur í einu dagblaðanna, jafnvel þótt gott dagblað sé. Því mun ég ekki gera það.

En ég stend nú kannske ekki eingöngu upp vegna þess að að mér skyldi vera sveigt í orðum hv. þm., heldur einnig vegna hins, að ég tel sem þm. norðlendinga að hér sé um býsna stórt og mikið hagsmunamál að ræða fyrir Norðurland. Norðurland býr við mikinn orkuskort í dag og fyrirsjáanlegt er að Austurland þarf einnig á orku að halda sem fyrst frá þessari sömu virkjun. Og enda þótt menn geti verið frjálsir að því að gagnrýna og rökræða þetta mál eins og önnur frá öllum hliðum, þá vil ég síður að mjög óheiðarlegur og óvandaður málflutningur í þessu efni verði til þess að koma okkur norðlendingum í meiri vanda í orkumálum en orðið er, því að að sjálfsögðu væri það það alvitlausasta sem hægt væri að gera í raforkumálum á Íslandi í dag, að hætta við Kröfluvirkjun.