01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2941 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera jafnstuttorður og formælendur Kröfluvirkjunar sem hér hafa talað, en þeir hafa verið svo stuttorðir að það mætti meta hvert orð, sem þeir hafa látið um málið falla, á einn milljarð a.m.k. Ég tel það vera talsvert ánægjulegt að það komi fram hér yfirlýsing frá hv. þm. Ragnari Arnalds, formanni Alþb., að það sé varhugavert að taka of mikið mark á því sem í Þjóðviljanum stendur. Enn fremur kom ábending frá þessum hv. þm. um það að Þorleif Einarsson skorti sérfræðiþekkingu. Ég verð nú að segja eins og er, að það virðist vera orðið þannig hjá þessari ágætu Kröflunefnd að menn, sem í henni sitja, ætli að þeir einir sitji uppi með sérfræðiþekkingu í þessum málum, þannig að það duga ekki lengur viðvaranir til þeirra frá þeim sérfræðingum sem við höfum. Þeir telja sér ekki einu sinni skylt lengur að hlusta á guð almáttugan þegar hann reynir að vara þá við, svo mikil er sú sérfræðiþekking sem í þessari n. er fólgin.

Ég vil vekja athygli þm. á því hvernig að þessum Kröflumálum og upplýsingum um þau hefur verið staðið. Því var haldið fram alveg fram á síðasta dag að þjóðin þyrfti ekki að óttast að nein eldsumbrot eða jarðhræringar yrðu í Kröflu eða þar í nánd sem gætu spillt þessari framkvæmd. Síðan gerist það, að þegar það verður, þá er því lýst yfir í blaðaviðtali við jarðfræðinga, sem fylgdust með eldsumbrotunum, að þeir hefðu haft vitneskju um það síðan í sept. í haust að þetta væri í vændum. Þeir skýrðu frá því að þeir hefðu látið almannavarnanefndir vita. Þeir skýrðu frá því að þeir hefðu látið yfirstjórnendur þessara framkvæmda vita. Og ég ætla að Kröflunefnd hafi ekki verið alls óvitandi um það hvað var þarna að gerast. Samt sem áður leyfa þessir menn sér að fullyrða það fram á síðustu stund að þeir viti ekki til þess að menn þurfi að hafa neinar áhyggjur af slíkum hlutum. Slík er þeirra sérfræðiþekking. Hún var meiri en jarðfræðinganna í þessu tilliti.

Þá kom það einnig fram í sjónvarpsviðtali við formann Kröflunefndar, hv. þm. Jón G. Sólnes, þar sem hann var spurður um ýmsar upplýsingar og beðinn að gefa svör við ýmsum upplýsingum sem fyrirspyrjendurnir þóttust fara nærri um að væru réttar, en gátu ekki staðreynt með því að beita ákveðnum sérfræðingum fyrir sig, að hv. þm. formaður Kröflunefndar neitaði öllum þessum fsp. og upplýsingum fréttamannanna og sagði að þetta væru staðlausir stafir. Nokkrum vikum síðar kom út skýrsla frá Orkustofnun sem staðfesti hvert eitt og einasta atriði af því sem hv. þm. hafði mótmælt og jafnframt lá það fyrir að þegar hv. þm. mótmælti þessum ummælum í sjónvarpsþætti, þá lá það fyrir frá yfirmönnum Orkustofnunar og honum var kunnugt um að fréttamennirnir voru að fara rétt með, þannig að þetta mál á sér mjög flókinn aðdraganda og einkennilegar starfsaðferðir sem við það hafa verið hafðar.

Til hvers í ósköpunum erum við íslendingar að virkja orkulindir okkar? Að sjálfsögðu til þess að reyna að afla okkur ódýrrar orku. En er rétt á málum haldið þegar þær virkjunarframkvæmdir, sem nú er verið að vinna fyrir erlent lánsfé, geta kostað það að við íslendingar séum að selja fjárhagslegt sjálfsforræði okkar í hendur erlendra bankastjóra, það lánsfé sé notað þannig að það árið, sem þessar virkjanir komast í gagnið, tvöfaldist raforkuverð á Íslandi. Ekki ómerkari maður en Jóhannes Nordal hefur haldið því fram, að ef haldið verði áfram eins og gert hefur verið að undanförnu, þá þurfi annað tveggja á næsta ári að tvöfalda raforkuverðið eða taka upp niðurgreiðslur úr ríkissjóði á raforkuverði. Er það svona sem við ætlum að nota dýrt erlent lánsfé til þess að skapa íslendingum ódýra orku? Dugir sérfræðiþekking Kröflunefndar líka til þess að leysa þetta mál?

Það hefur verið talsvert mikið um þessi mál skrifað í blöð nú að undanförnu. Hv. þm. Bragi Sigurjónsson hefur gert grein fyrir nokkrum af þessum atriðum, en þau eru talsvert fleiri. í dagblaðinu Vísi fimmtudaginn 25. mars s.l. birtist viðtal við einn af stjórnarmönnum í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins, Björn Friðfinnsson. Þar kemur fram að rekstrarhalli á Kröfluvirkjun er áætlaður 1 milljarður á ári. Einn milljarður á ári er áætlaður rekstrarhalli Kröfluvirkjunar. Samt sem áður er haldið áfram, þó að vitað sé að þarna er verið að byggja virkjun sem ekki hefur markað fyrir orku sem hún framleiðir. Þarna er verið að byggja fyrirtæki sem getur ekki selt þá vöru sem það framleiðir. Samt er haldið áfram. (Gripið fram í.) Það kemur ekki fram í viðtali við Björn Friðfinnsson hver þessa áætlun hefur gert, en alla vega hefur því ekki verið mótmælt með rökum að þetta sé rétt, og alla vega hefur því ekki heldur verið mótmælt með rökum að áður en virkjunarframkvæmdir hófust hafi ekki verið gerð rekstraráætlun um það hvernig ætti að reka þessa virkjun þegar byggingu hennar væri lokið.

Þá kemur einnig fram sú fullyrðing frá þessum stjórnarmanni Rafmagnsveitna ríkisins að bygging Kröflu hafi e.t.v. jafnvel verið lögbrot, þar sem lög um Kröfluvirkjun heimili 55 mw. virkjun, en þarna sé byggð 70 mw. virkjun. Eitt atriðið enn sem e.t.v. þyrfti að fá útkljáð hjá þeim vísu mönnum sem stjórna þessum málum.

Þá kemur einnig fram hjá þessum sama stjórnarmanni að á næsta ári, ef svo heldur fram sem horfir og Kröfluvirkjun verður tekin í notkun, þá muni raforkuverð til norðlendinga á meðalstóra norðlenska fjölskyldu, sem hv. þm. Ragnar Arnalds bar svo mjög fyrir brjósti í ræðu sinni hér áðan, árskostnaður hækka um 100 þús. kr. Slíkur er Kröfluskatturinn að sögn stjórnarmanns í Rafmagnsveitum ríkisins. Sjálfsagt munu sérfræðingarnir í Kröflunefnd ekki vera í vandræðum með að gera grein fyrir svörum við þessu.

Þá kemur það fram í þessu sama blaði föstudaginn 2$. mars að árið 1979 verði ekki einu sinni þörf fyrir nema helming af orkunni sem framleidd er í Kröflu. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Raforkuframleiðslan á Norðurlandi á þessu ári er áætluð 200 gwst., þar af fara 50 gwst. til húshitunar á Akureyri. Sá markaður tapast að mestu á næstu árum ef bitaveita verður lögð til Akureyrar. Á næsta ári er ráð fyrir því gert að núverandi aflstöðvar norðanlands geti framleitt 94 gwst. af u.þ.b. 130 sem framleiða þarf. Árið 1979 er áætlað að núverandi aflstöðvar geti framleitt 187 gwst., en þá er heildarþörfin metin u.þ.b. 285–295 gwst. Þá er aðeins þörf á rúmlega 100 gwst. framleiðslu hjá Kröflu sem er aðeins helmingur af afkastagetu orkuversins. Ekki er talið að markaður verði sunnanlands fyrir orku frá Kröflu sem tryggja mætti með byggðalinu. Miðað víð núverandi og fyrirhugaðar framkvæmdir austanlands virðist heldur lítil von til þess að markaður opnist þar fyrir rafmagn frá Kröflu. Hér er ekki reiknað með stóriðju norðanlands, enda eru engar umr. þar um eins og sakir standa.“

Þetta segir í frétt Vísis frá 26. mars s.l., og þessari frétt hefur enginn mótmælt svo ég viti til.

Þá kemur einn sérfræðingurinn enn, að vísu ekki Kröflusérfræðingur. Sá sérfræðingur er verkfræðimenntaður, prófessor við Háskóla Íslands, Jónas Elíasson. Þetta er álit hans, hann segir:

„Ég hef talið að ekki ætti að reisa Kröfluvirkjun svona stóra. Ég tel að hún sé rangt tímasett og það hefði átt að reisa hana í áföngum. Auk þess fellur Krafla illa inn í raforkukerfið á Norðurlandi. Rafmagnsþörfin er fyrst og fremst fyrir afl, en ekki fyrir orku. Kröfluvirkjun hefur mikla orkuvinnslugetu, en tiltölulega lítið afl í samanburði við orkuvinnslugetuna. Það eru tæknilegir örðugleikar á að ljúka þessari virkjun á tilsettum tíma. Það er fyrirsjáanlegt að henni verður ekki lokíð í ár, Framkvæmdaáætlunin sem slík er ágæt, en framkvæmdum er flýtt óþarflega mikið.“

Þetta er álit Jónasar Elíassonar prófessors við Háskóla Íslands, þannig að það er ekki aðeins einn sérfræðingur og ekki bara tveir, sem gengið hafa á fund þeirra, sem þessum málum ráða og varað þá við. En þeir vilja víst ekki hlusta, þessir ágætu menn. Þeir vilja hvorki hlusta á viðvaranir sérfræðinga né á þær viðvaranir sem koma fram í afstöðu fjölda fólks sem látið hefur sig þessi mál varða, — fólks sem hefur áhyggjur af því að á þessum árum, við þá efnahagsörðugleika sem íslenska þjóðin á í, þá sé verið að binda á fólkið bagga skulda í erlendum lánum til þess að byggja virkjun til að framleiða orku sem enginn getur selt. Og að nokkrum manni skuli detta í hug að hlusta ekki einu sinni á slíkar viðvörunarraddir, hlusta hvorki á sérfræðinga, sama í hvaða starfsgrein þeir sérfræðingar eru, né aðra, til þess þarf meiri kjark heldur en mætti ætla að þeir hefðu sem nú stjórna þessu landi.