01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2944 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

Umræður utan dagskrár

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég mun ekki taka þátt í því að lengja þessar umr. sem hér hafa farið fram utan dagskrár í sambandi við svokölluð Kröflumál. Til þess gefst væntanlega tækifæri á þriðjudaginn kemur þegar skýrsla orkumálaráðh. verður flutt í sambandi við þessi mál. En ég kem hér í ræðustól vegna ummæla hv. 8. landsk. þm. Sighvats Björgvinssonar, þar sem hann fullyrti að ég hefði farið með ósatt mál í margumtöluðum sjónvarpsþætti í nóv. s.l., þar sem fréttamaður eða spyrill beindi til mín spurningu út af upplýsingum sem hann kvaðst hafa um að ekki yrði næg gufuöflun til virkjunarinnar, og ég svaraði því að mér væri ekki kunnugt um að slíkar upplýsingar væru fyrir hendi frá Orkustofnun og margítrekaði í svari mínu og tilmælum til fyrrgreinds spyrils að hann gæfi mér upp heimildir sem hann hefði fyrir þessu. Ég harðneita að mér hafi verið kunnugt um þessar upplýsingar sem þessi virðulegi spyrill hafði þá um þessi mál, því að þær birtust í opinberri skýrslu sem var afhent þó nokkuð löngu eftir að þessi umræddi sjónvarpsþáttur var tekinn upp. Það kom því fram að þessi hv. spyrill, sem þarna átti hlut að máli, virtist hafa haft aðgang að upplýsingum, sem stóðu í umræddri skýrslu, mun fyrr en hún var gerð að opinberu plaggi. Því vísa ég því algjörlega til föðurhúsanna og tel ósæmilegt að vera að bera á mig hér í heyranda hljóði fyrir alþjóð að ég sé ósannindamaður. Það er ekki rétt.