04.11.1975
Sameinað þing: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

29. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Þessum umr. er nú að ljúka og þær eru nú orðnar marglitar, margt sem inn í þær hefur fléttast. Menn eru nú unnvörpum farnir að vitna um framlög sín til annarra stjórnmálaflokka en þeirra sem þeir eiga sjálfir aðild að, og þykja mér það harla merkilegar umr.

Inn í þessi mál hefur svo spunnist Ármannsfellsmálið og það að sjálfsögðu ekki að ástæðulausu. Ég tel það að vísu ekki vera aðalefni þessarar umr., en óneitanlega hlaut það að fléttast inn í þessar umr. Vegna þess að hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson hefur mikið reynt að vefengja málflutning minn varðandi Ármannsfell og skattgreiðslur þess og hefur reynt að halda því fram að frv. hans geti alls ekki átt við þessa margnefndu gjöf Ármannsfells, og hefur þá m. a. reynt að smeygja sér fram hjá þessari staðreynd að með því að segja sem svo að það hafi aldrei verið ætlun hans að þessi brtt. verkaði aftur fyrir sig, þá get ég ekki látið hjá líða að benda honum á að hún gerir það samt sem áður. Hann kemst ekki undan því, eins og hann leggur sjálfur fram málíð. Tekjuskattslög eru alltaf afturvirk. Þau verka aftur til þess árs sem seinast leið. Ég verð að játa það, að ég hef lesið frv. allrækilega í gegn til þess að komast að raun um hvort einhver misskilningur geti verið hér á ferð, en ég sé ekki annað en þetta sé alveg ljóst. Hann flytur hér brtt. við lög um tekjuskatt og eignarskatt, og verði þessi breyting samþykkt núna á næstu mánuðum, þá gildir hún að sjálfsögðu við álagningu tekjuskatts á árinu 1976, enda segir hér alveg skýrt og skorinort í 4. gr. frv. Eyjólfs K. Jónssonar hv. þm.: „Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1976.“ Ég hef ekki fundið neitt í grg. sem getur komið í veg fyrir þetta, en ef einhver setning er þar, sem er öndverð þessu, þá breytir það að vísu ekki miklu því að lögin sjálf segja til um framkvæmdina og það eru auðvitað þau sem miðað er við.

Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Ég vildi bara að það kæmi alveg skýrt fram að hér er enginn misskilningur á ferðinni. Mikið er ósköp einfaldlega svona, að þessi breyting mun beinlínis snerta skattgreiðslur Ármannsfells í sambandi við þessa gjöf. Undan því geta menn ekki vikist þótt þeir reyni að stinga höfðinu í sandinn.

Ég vil svo að lokum segja það, að rauði þráðurinn í þessum umr. hefur, þrátt fyrir nokkurn skoðanamun um einstök smærri atriði, að minni hyggju verið jákvæður. Það hefur ótvírætt komið fram vilji til þess hjá öllum ræðumönnum að undirbúin verði löggjöf um réttindi og skyldur stjórnmálaflokka og þ. á m. um fjárreiður þeirra, væntanlega eins og þáltill. okkar gerir ráð fyrir. Í ræðum flestra hv. þm. hefur einnig komið fram stuðningur við það atriði að ríkið greiði styrki til stjórnmálaflokkanna, þótt ágreiningur sé að vísu um það í hvaða mynd það skuli vera. Ég tel því að þessar umr. hafi orðið að nokkru gagni.