01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (2431)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður, en ég tel þó ekki rétt að láta þessum umr. ljúka án þess að það komi fram sem mig langar til að vekja athygli á.

Þessar umr. hófust á því að hv. 1. landsk. þm. vakti athygli á stórmerku víðtali við einn helsta jarðfræðing landsins sem birtist í Þjóðviljanum í morgun, málgagni eins af meðlimum Kröflunefndar. Enn fremur hefur verið vitna ð til ummæla ýmissa annarra sérfræðinga í þessum umr. En í málgagni, sem telur sig styðja núv. hæstv. ríkisstj. og þar með hæstv. iðnrh. í aðalatriðum a.m.k., þ.e.a.s. í Vísi, birtist þriðjudaginn 30. mars s.l. grein eftir ungan og mjög vel kunnan lögfræðing, Baldur Guðlaugsson, þar sem hann m.a. gerir Kröflumálið að umtalsefni með þeim hætti að ég tel ívitnun í það eiga heima í þessum umr. Baldur Guðlaugsson, lögfræðingur segir m.a. í þessari merku grein sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Því er að þessu vikið, að undanfarna daga hafa birst í fjölmiðlum svo ógnvekjandi upplýsingar um mistök í raforku- og iðnaðarmálum að ekki verður lengur orða bundist. Spurningin er einungis sú, hvort unnt muni að hefja umr. um pólitíska ábyrgð á augljósum mistökum án þess að vera sakaður um ómerkilegar persónulegar árásir á orku- og iðnmrh. Þau atriði, sem hér er vitnað til, eru tvenns konar: annars vegar óstjórn í mörkun orkumálastefnu á Norðurlandi, hins vegar rangar ákvarðanir varðandi eignaraðild að málmblendiverksmiðjunni á Grundartanga.“

Þessi orð eru rituð af kunnum ungum sjálfstæðismanni undir nafni, og fer ekki milli mála hver skoðun hans er á því máli sem hér er um að ræða. Ég vitna ekki í það sem hann segir um Grundartangamálið, það er ekki hér til umr., en síðar í greininni segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Hitt er þó öllu alvarlegra, að samhliða framkvæmdum við Kröfluvirkjun var hafist handa við lagningu byggðalínu norður í land og þar lagt í fjárútlát upp á hundruð millj., jafnvel milljarða.“

Hér víkur þessi ungi sjálfstæðismaður einmitt að því sem er kjarni málsins, meginmistökin í því máli sem hér er um að ræða, að samhliða skuli hafa verið lagt í og vera unnið að byggðalínunni norður í land og hinni stórfelldu Kröfluvirkjun. Þegar ég vakti máls á því þegar í október, í útvarpsumr. um stefnuræðu forsrh., að ég teldi eiga eftir að koma í ljós að Kröflumálið mundi reynast stórfellt fjárhagsævintýri, þá fékk ég fyrir þessi ummæli hinar mestu ákúrur úr mörgum áttum, bæði af hálfu ýmissa — (Gripið fram í) — eða sagði ég e.t.v. hneyksli. Ég hef vel getað sagt hneyksli, a.m.k. mundi ég ekki hika víð núna að nota orðið hneyksli um þetta mál allt saman. Ég man ekki nákvæmlega hvað ég sagði, en annað hvort orðið hef ég eflaust notað og gæti sem sagt notað hvort sem er núna og bæði saman. Þetta er hneykslisævintýri sem hér er á ferðinni, ekki bara að minni skoðun, heldur einnig skoðun þess unga sjálfstæðismanns sem ég er hér að vitna til.

Ég gerði málið enn fremur að umtalsefni í sambandi víð frv. sem hæstv. fjmrh. flutti rétt fyrir jól, þar sem leitað var heimilda til lántöku m.a. til Kröfluvirkjunar. Mestur hluti þess erlenda láns, sem það frv. fjallaði um og heimilaði ríkisstj. að taka, var einmitt til Kröfluvirkjunar. Þá vakti ég athygli á því, og það mun hafa verið í fyrsta skipti sem það var upplýst, að áður en framkvæmdir voru hafnar var engin greiðsluáætlun gerð við þessa virkjunarframkvæmd og engin áætlun gerð um raunverulegan kostnað við framleiðslu orkunnar með þeim hætti sem hér var um að ræða. Ég benti á að það mundi vera í fyrsta skipti sem slíkt hefði gerst í sögu íslenskra virkjunarmála. Á þetta var mjög harkalega deilt í þessum umr., jafnvel sagt að það væri ósatt. Það er nú komið í ljós og viðurkennt af mörgum aðilum að þetta var auðvitað satt og rétt og er satt og rétt. Þannig hefur smám saman verið að koma í ljós af hálfu æ fleiri aðila sannleiksgildi þeirra orða, sem um þetta hafa verið sögð á undanförnu hálfu ári a.m.k., og málið er að taka á sig sífellt alvarlegri mynd. Það er að taka á sig svo alvarlega mynd að þessi ungi lögfræðingur, sem er mjög eindreginn stuðningsmaður og fylgismaður Sjálfstfl., Baldur Guðlaugsson, lýkur hinni athyglisverðu grein sinni með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta, og ég skal ljúka máli mínu með þeirri tilvitnun:

„Á 25. þingi sovéska kommúnistaflokksins í febr. var kosin ný framkvæmda- og miðstjórn flokksins. Það vakti athygli hve lítil mannaskipti áttu sér stað. Þar var þó ein umtalsverð undantekning. Landbrh. var sparkað. Ástæðan er talin vera sú að landbúnaðaráætlanir höfðu ekki staðist sökum uppskerubrests. Finnst ekki fleirum en höfundi þessara lína“ — og nú bið ég menn um að hlusta vel hvað ungur sjálfstæðismaður skrifar í þetta ágæta dagblað „finnst ekki fleirum en höfundi þessara lína að eitthvað sé nú orðið öðruvísi en ætla mætti ef ráðh. austur í Sovét eru látnir standa og falla með verkum sínum, en ráðh. á Íslandi eru yfir pólitíska ábyrgð hafnir? En þetta er kannske bara persónulegar árásir.“

Ég vona að allir skilji hvað þessi ungi ágæti forustumaður í hópi ungra sjálfstæðismanna er að segja með þessum orðum sínum.