01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2955 í B-deild Alþingistíðinda. (2433)

142. mál, tölvutækni við söfnun upplýsinga um skoðanir manna

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessarar till., Ragnar Arnalds, hefur gert henni allítarleg og mjög góð skil í framsöguræðu sinni svo ég þarf ekki ýkjamörgu við að bæta og verður jafnvel sumt af því, sem ég segi hér, endurtekning á hans orðum. En það verður þá aðeins til undirstrikunar á viðhorfum hans í þessu máli.

Ég lít á þetta mál sem hér liggur fyrir sem merkilegt og almennt mannréttindamál. Sannleikurinn er sá, að við nútímamenn verðum í vaxandi mæli að fórnardýrum þessarar margvíslegu töfratækni sem mannshugurinn í krafti hugkvæmni og snilli hefur fundið upp nú á s.l. árum. Finnst ýmsum að veldi rafmagnsheilans sé orðið full-ógnvekjandi við hliðina á hinu mannlega, og margir una því miðlungi vel að persónuleiki þeirra er orðinn að punkti, gati eða í besta lagi númeri á pappaspjaldi. En þannig hefur svokölluð tölvuvæðing síðari ára í flestum vestrænum ríkjum orðið viðkomandi þjóðum vaxandi áhyggjuefni. Til hennar var að sjálfsögðu stofnað til hagræðingar og í hagkvæmniskyni og að því leyti hefur talvan svo sannarlega ekki brugðist vonum manna. En hins vegar hafa æ betur komið í ljós margvíslegar hættur sem stafa af þessari tækni fyrir friðhelgi einkalífs manna, af hinni feiknalegu, víðtæku upplýsingasöfnun um einstaklinginn án vitundar hans og vilja. Hin gömlu spjaldskrárkerfi, sem engum kom til hugar að hafa neinn sérstakan beyg af, eru nú á hraðri leið með að verða að risavöxnum upplýsingabönkum, sem hafa tæknilega möguleika til að safna og miðla með ótrúlega fljótvirkum hætti vitneskju og upplýsingum um hvað eina varðandi persónulega hagi fólks.

Í atvinnu- og viðskiptalífi, skólakerfi, heilbrigðisþjónustu, alls staðar fer veldi tölvunnar vaxandi og um leið og því miður möguleikinn til misnotkunar. Í bandarísku mánaðarriti Privacy Journal, sem fjallar um tölvunotkun og einkalíf manna, er greint frá konu, kennara við Princetonháskóla í Bandaríkjunum, sem tryggingarfélag neitaði um tryggingu á bílnum hennar vegna þess að hún lifði í óvígðri sambúð, þótti líklega fyrir bragðið ekki nógu trúverðugur viðskiptavinur. Þessar upplýsingar hafði tryggingafélagið úr tölvuunninni neytendaskrá á vegum verslunarfyrirtækis sem konan trúlega hafði átt viðskipti við. Ekkert var það annað en þessar upplýsingar um óvígðu sambúðina sem hægt var að færa fram sem skýringu á þessari neitun tryggingafélagsins. Konan undi að vonum illa við þessa afstöðu tryggingafélagsins, kærði fyrir dómstólum og fékk leiðréttingu sinna mála. En þetta er aðeins eitt lítið dæmi um hvernig misnota má persónuupplýsingar, sem tölvan safnar, geymir og jafnvel dreifir út án þess að viðkomandi einstaklingar hafi hugmynd um það og geta liðíð víð það margháttuð óþægindi og jafnvel tjón. Það er einmitt vegna þessa sem æ fleiri þjóðir, er tekið hafa tölvutæknina í sína þjónustu, gera sér ljóst að nauðsynlegt er að setja ákveðnar takmarkanir, reglur og löggjöf sem verndi einstaklinginn gegn slíkri misnotkun.

Hv. flm. rakti nokkuð gang þessara mála í nágrannalöndum okkar og víðar. Svíþjóð ein Norðurlandanna hefur þegar samið löggjöf um þetta efni 1973. Á hinum Norðurlöndunum öllum er þetta í undirbúningi og Norðurlandaráð hefur oftar en einu sinni gert ályktanir um málið, að nauðsyn sé lagasetningar um tölvunotkun og um samvinnu Norðurlandanna á þessu sviði. Evrópuráðið hefur einnig látið málið til sín taka og Sameinuðu þjóðirnar og fannst mér sérstakur fengur að því að heyra einmitt úr skýrslu aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Kurts Waldheims, sem hv. flm. greindi frá í framsögu sinni og að hans sögn hafa orðíð öðrum þjóðum nokkurs konar leiðarvísir og um leið undirstaða að löggjöf í þeirra þjóðríkjum um þetta efni og verður það væntanlega einnig þeim mönnum íslenskum, sem þetta hlutverk verður falið.

Það virðist þannig fyllilega tímabært fyrir okkur íslendinga að við hugsum okkur til hreyfings á þessu sviði, eins og þessi till. gerir ráð fyrir. Tölvufræðingar hérlendis eru allþenkjandi út af því, að við höfum ekki enn hafist handa, og telja mjög aðkallandi að hraða undirbúningi slíkrar lagasetningar. Það er ljóst mál að slík lagasetning krefst vandlegs undirbúnings. Hann kann að taka nokkurn tíma, þessi undirbúningur, en löggjöf um þetta efni þarf umfram allt að verða samin í senn af viðsýni og nákvæmni og í anda lýðræðis og mannréttinda til handa hinum almenna borgara.

Hv. flm. gat um ráðstefnu um tölvutækni, sem Skýrslutæknifélag Íslands hélt hér í Reykjavík fyrir skemmstu, og gerði nokkra grein fyrir erindum sem þar höfðu verið flutt. Þessi fundur sendi frá sér eða gerði alla vega ályktun þess efnis í lok fundarins að skorað var á stjórnvöld að flýta undirbúningi slíkrar löggjafar sem hér um ræðir. Ég vil taka undir það með flm. till., að fámenni okkar íslendinga gerir hættuna og möguleikana á misnotkun á tölvutækni að sjálfsögðu enn þá meiri heldur en með fjölmennari þjóðum. Það er von mín, að till. fái góðan byr í gegnum þingið og skilning hv. alþm. á því að hér er um nauðsynjamál, en ekkert hégómamál að ræða. En áður en ég lýk máli mínu langar mig til, þó að ég sé nú raunar ein af flm. till., að benda á að orðalag hennar mætti að mínu mati betur fara á vissum stöðum. Á ég þar t.d. við fyrirsögn till. sem annars skiptir ekki miklu máli. Hún er óþarflega löng, að því er ég tel. Það hefði verið eðlilegra að fyrirsögnin hljóðaði einfaldlega upp á löggjöf um tölvunotkun. Og í tillgr. sjálfri, þar sem stendur: „um bann við persónunjósnum með tölvutækni“ kæmi fremur: „til verndar einstaklingum í sambandi við tölvuunnar persónuupplýsingar“. Það er ekki þar fyrir að þessi möguleiki er fyrir hendi, persónunjósnir, ég neita því alls ekki. En af því að till. á að vera á sem allra almennustum grundvelli, þá fyndist mér eðlilegra að orðalagið væri meira í þá átt. Ég geri þetta alls ekki að formlegri brtt. minni, en mælist til þess að hv. þn., sem fær þetta mál til umfjöllunar, taki það til sérstakrar athugunar.