04.11.1975
Sameinað þing: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

29. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð til þess að forða hv. þm. Albert Guðmundssyni frá áframhaldandi misskilningi á orðum mínum. Svo að ég taki síðasta atriðið fyrst, ég tók það skýrt fram að í umfjöllun þessa máls, fjárframlaga ýmissa fjársterkra hagsmuna- og atvinnurekendafyrirtækja til Repúblíkanaflokksins og Richards Nixons sem Bandaríkjaforseta hefði aldrei verið sannað að bein tengsl hefðu verið á milli þessara framlaga og ákvarðana sem forsetaembættið tók þeim í vil. Ég benti hins vegar á að siðareglur bandarískra stjórnmála væru samt sem áður það strangar, a. m. k. að dómi bandaríska þingsins, að það var talið að það þyrfti ekki að sanna að þetta hefðu verið kaup kaups, heldur eingöngu að þetta hefði farið saman í tíma hefði verið nægilegt til þess að skjöldurinn var ekki talinn nægilega hreinn. Ég vil að það sé haft rétt eftir. (AG: Það kemur fram í bókinni sem blaðamenn þeir, sem rannsökuðu þetta, skrifuðu, að það var allt sannað sem dæmt var fyrir. Það var ekki dæmt á neinum líkum, svo að ég ætla að biðja þig um að fara með rétt mál.) Já, það var hvergi sannað. Það, sem var sannað í málinu, var að þessir aðilar hefðu látið Repúblíkanaflokkinn og Richard Nixon í té þetta fé. En það var ekki sannað að það hefði verið gert eða Richard Nixon hefði tekið ákvörðunina um hagsmunamál þessara fyrirtækja vegna fjárframlaga. Það var aldrei sannað. (AG: Það er rangt.) Ja, ég ætla ekki að deila við hv. þm. um það, en að því leyti er hliðstæðan við hið svokallaða Ármannsfellsmál, að það verður aldrei sannað af eða á, það er tekniskt ekki hægt, hvort það hafi verið kaup kaups sem þarna áttu sér stað, líkt og happdrættismál hv. 8. landsk. þm.

Í öðru lagi vildi ég láta það koma fram að í þessum reglum er mönnum að vísu heimilað að ráðstafa fé, það var ekki um það sem ágreiningurinn stóð, heldur ber þeim skylda til þess að gera grein opinberlega fyrir öllum fjárframlögum, af hvaða tagi sem er. Það er það sem er kjarni málsins. Það er upplýsingaskyldan um meðferð fjármagnsins. En hv. þm. Albert Guðmundsson lýsti því yfir áðan að það væri hans skoðun að það kæmi engum við hvernig fólk ráðstafaði þessum fjármunum. Það er þar sem okkur greinir á milli, það er þar sem hann greinir á við þær reglur og þau lög reyndar sem sett hafa verið í Bandaríkjunum um fjárstyrki til alþm. og stjórnmálaflokka. Ef hv. þm. Albert Guðmundsson væri þm. í Bandaríkjunum, þá hefði hann orðið að leggja fram opinberlega, og ef Sjálfstfl. hefði starfað í Bandaríkjunum, þá hefði Sjálfstfl. orðið að leggja fram opinberlega skrá yfir alla þá aðila sem á einhvern hátt hefðu lagt fé til flokksins eða frambjóðenda hans, hvort sem í stóru eða smáu væri. (AG: Bara Sjálfstfl.?) Nei, nei, allir flokkar. En af því að hv. þm. er þm. fyrir Sjálfstfl., þá tók ég þetta sérstaklega fram, til þess að hann gæti sett sig í spor stjórnmálamanna í Bandaríkjunum. Þá gætu allir landsmenn, háir sem lágir, flett því upp opinberlega hvað margir hefðu styrkt Sjálfstfl. á einn eða annan hátt. og með hve miklum fjárframlögum. Það lægi alveg hreint fyrir. (AG: Bara Sjálfstfl.?) Nei, alla flokka, hv. þm., alla flokka. Ef það er eitthvert atriði fyrir hv. þm., hvort þetta er Sjálfstfl. eða allir, þá get ég lýst því yfir, að auðvitað munu lögin ganga jafnt yfir alla hér sem annars staðar. Ég vildi bara að það kæmi skýrt fram hér, vegna þess misskilnings sem kom fram hjá hv. þm., að það er ekki verið að deila um það hvort viðkomandi geti ráðstafað þessu fé eða ekki, það er verið að deila um upplýsingaskylduna. Það er vegna þess að Bandaríkin hafa hlotið svo bitra reynslu um það siðleysi sem hefur þróast í meðferð opinberra fjármuna og í stjórnkerfi landsins að framsýnni og heiðarlegri stjórnmálamenn í Bandaríkjunum hafa haft frumkvæði um þessa löggjöf. Og ég vona satt að segja að hv. þm. Albert Guðmundsson vilji frekar telja sig til lags við heiðarlega og framsýna stjórnmálamenn í Bandaríkjunum heldur en þá þm. þar sem reyndu, að vísu vonlaust, að mæla gegn því að þessi breyting yrði gerð.

Að lokum vildi ég ítreka ósk mína að þingflokkar allir sýni nú af sér þá víðsýni og dug að koma því einhvern veginn fyrir, hvort heldur með samstarfsnefnd sín á milli eða formlegum nefndum þingsins, að á þessu þingi verði lögð fram annaðhvort skýrsla eða drög að lögum um þessi efni, svo að við getum af okkar hálfu lagt skerf af mörkum til þess að eyða þeirri réttlætanlegu tortryggni sem ríkir á milli stórs hluta almennings og stjórnmálaflokkanna í landinu hvað meðferð fjármála snertir. Það verður ekki á móti því mælt og um það eru fjölmörg dæmi að fjármál og stjórnmál, þegar þau fara saman, bjóða heim a. m. k. hættu á margs konar siðspillingu. Það þarf sterk bein til að þola góða daga. Það þarf sterk bein til þess að fara um langan tíma með í senn stjórnmálavald og fjármálavald. Þetta hafa aðrar þjóðir rekið sig á. Þetta erum við að reka okkur á núna, og við verðum að bregðast við réttilega í þessu efni. Persónulegir hagsmunir einstakra þm., hagsmunir einstakra stjórnmálaflokka mega ekki standa í vegi fyrir því, að þetta mál verði leyst.