05.04.1976
Efri deild: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2970 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

46. mál, fasteignasala

Frsm. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Allshn. hefur haft frv. þetta til meðferðar. Leitað var umsagnar nokkurra aðila og barst n. meðal annarra umsögn frá Lögmannafélagi Íslands þar sem það lýsir fylgi sínu við frv. Þetta er stutt umsögn sem mig langar til að lesa, með leyfi forseta:

„Reykjavík, 4. des. 1975.

Allsherjarnefnd Ed.

Alþingishúsinu,

Reykjavík.

Stjórn Lögmannafélags Íslands hefur borist bréf yðar, dags. 28. nóv. s.l., þar sem óskað er umsagnar um hjálagt frv. til laga um breyt. á lögum um fasteignasölu, nr. 47 1938, 46. mál. Félagsstjórnin hefur athugað frv. þetta gaumgæfilega og er samþykk efni þess og mælir eindregið með að frv. verði samþ. sem lög frá Alþ.

Virðingarfyllst.

Páll S. Pálsson,

formaður Lögmannafélags Íslands.“

Allshn. þótti ástæða til þess að taka af allan vafa um orðalag og taldi að þyrfti að gera breyt. á frv. og umorða 1. gr., að hún hljóðaði þannig:

„Ný gr., sem verður 14. gr. laganna, orðist svo: Skylt er að geta þess í öllum skjölum varðandi fasteignakaup, svo sem kauptilboðum, kaupsamningum, skuldabréfum og afsölum, hver hafi samið skjöl þessi, og skal geta nafns og nafnnúmers. Enn fremur skulu þeir, sem fasteignaviðskipti annast, geta nafns síns í auglýsingum, eins þótt viðskiptin séu rekin í nafni skrásetts firma.“

Með greininni þannig orðaðri mælir allshn. eindregið með samþykkt frv.