05.04.1976
Neðri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2988 í B-deild Alþingistíðinda. (2476)

23. mál, umferðarlög

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það vekur sjálfsagt talsverða athygli og hefur þegar gert í þessum umr. að þn., sem fær til meðferðar stjfrv., skuli einróma leggjast gegn kafla í því frv. og það meira að segja meginkafla þess. Ég hef hlýtt á þær umr., sem hér hafa farið fram, og þær röksemdir, sem hv. allshn. hefur haft fram að færa, ásamt gagnrökum, og ég verð að segja það að þessar umr. hafa ekki orðið til þess að auka trú mína á því að með frv. þessu sé stefnt til betri áttar.

Það hafa komið fram nokkrar röksemdir af hálfu frsm. hv. allshn. gegn þessu máli, og ég get tekið undir þær a.m.k. í höfuðdráttum. En bað eru e.t.v. fleiri röksemdir sem hægt er að færa fram gegn þessu máli, og skal ég þá alveg víkja til hliðar því sem hv. síðasti ræðumaður kallaði númerasnobb.

Það, sem ég vil láta hér koma fram, er það m.a. að ef þessi breyting verður gerð, þá veldur það miklum erfiðleikum að hafa uppi á bifreið sem tapast, bifreið sem er stolið, þegar ekki er lengur um að ræða skráningu eftir umdæmum. Þetta hefur kannske ekki mikið að segja hvað þær bifreiðar snertir sem bera R-númer. En þegar um er að ræða bifreiðar sem eru merktar hinum ýmsu lögsagnarumdæmum öðrum, þá hygg ég að auðveldara sé að finna slíkar bifreiðar heldur en eftir að númerakeðjan er öll komin í eitt. Enn fremur er auðveldara fyrir ökumenn, sem brjóta af sér, að dyljast og komast undan með sitt ökutæki þannig að það verði trauðla fundið eftir þá breytingu sem fyrirhuguð er með þessu frv. Þetta held ég að sé nokkuð verulegt atriði eða a.m.k. atriði sem ástæða sé til þess að draga fram í þessum umr.

Ég verð að segja það út af því, sem hér hefur verið sagt í sambandi við sparnað eða ekki sparnað í sambandi við þetta mál, að þá hef ég þær fregnir frá bifreiðaeftirlitsmönnum, sem hafa mjög mikla og langa reynslu í afskiptum á þessum vettvangi, að þeir telja að hér sé um mjög ýktar tölur að ræða. Hvað er í raun er erfitt að meta af þeim umr. sem hér hafa farið fram, og t.d. hv. þm. Karvel Pálmason, sem hélt hér vandlætingarræðu yfir hv. allshn., gat að mínum dómi ekki bent á eitt einasta atriði sem væri til sparnaðar í þessu máli, eða ég varð ekki var við það í ræðu hans. Nú er það svo að í sambandi við skráningarskylduna, sem nú er í gildi, þá hafa skráningargjöld, bæði umskráningargjöld og gjöld fyrir nýskráningar, staðið óbreytt í fjölda ára og eru orðin svo lág að ekki nær nokkurri átt. Það er a.m.k. full ástæða til þess að hækka þessi gjöld og e.t.v. mundi það hafa einhver áhrif í þá átt að draga úr hneigð manna a.m.k. innan sama lögsagnarumdæmis til umskráningar við kaup á nýjum ökutækjum. En þetta hefur líka aðra þýðingu, sem sé þá þýðingu að ef umskráningargjöld og nýskráningargjöld, sem réttast væri að væri eitt og sama gjaldið, væru hækkuð til samræmis við það sem eðlilegt má teljast, þá væri þar fundinn tekjustofn sem a. m. k, að verulegu leyti gæti staðið undir rekstri Bifreiðaeftirlits ríkisins.

Ég held að ef þáttur í þessum svokallaða sparnaði er það sem hv. frsm. allshn. nefndi hér, að þyrfti að byggja stóra skemmu yfir eða við Bifreiðaeftirlitið til þess ökumenn þyrftu ekki að skipta um númer á ökutækjum undir beru lofti, þá væri það svona í samræmi við að það þyrfti að byggja yfirbyggðan gang meðfram öllum þjóðvegum landsins. Engum er talin ofætlun að skipta um hjólbarða, sem springur, úti á víðavangi hvernig sem veður er. Og ég tel að það sé ekki meira verk, nema síður sé, að skipta um númersspjöld á bifreið. Ég tel að íslenska þjóðin sé ekki orðin svo kveifarleg að ökumenn geti ekki skipt um númeraspjöld á bíl nærri því í hvaða veðri sem er.

Ég held að sú afstaða, sem ég hef í þessu máli og er í samræmi við afstöðu hv. allshn., sé ekki byggð, a.m.k. ekki einvörðungu, á neinu tregðulögmáli. Og þótt hún sé að einhverju leyti byggð á tregðulögmáli, þá held ég að við hér á hv. Alþ. mættum kannske hafa meiri tregðu til að bera í því að taka upp ýmsa nýbreytni sem flætt hefur yfir landslýðinn á undanförnum árum og oft hefur sýnt sig að ekki er til bóta. Ég tel að þegar um er að ræða breytingar sem eru mjög umdeildar og vafasamt er a.m.k. hvort nokkur sparnaður fylgir, en augljóst er að margir ókostir fylgja, þá sé rétt að fara að með allri varfærni og rétt að beita tregðu við samþykkt slíkra nýmæla enda þótt tekin séu í lög í öðrum löndum. Þess vegna kippi ég mér ekki upp við það þóttu mér verði borið það á brýn að ég láti að nokkru stjórnast af tregðulögmáli.

Hæstv. dómsmrh. gat um það í sinni ræðu áðan að meðal þeirra aðila, sem mælt hefðu með samþykkt þessa frv., væru tveir af þeim aðilum í landinu sem hefðu mesta reynslu og þekkingu í þessum efnum, þ.e. Bifreiðaeftirlit ríkisins og lögreglustjórinn í Reykjavík. Ekki skal ég vanmeta reynslu og þekkingu þessara aðila og þessara stofnana. Ég hygg þó að undir þetta álit hafi skrifað forstöðumenn þessara stofnana. En hvað sem því líður, þá er reynsla þeirra og þekking eða a.m.k. reynsla að verulegu leyti bundin við Reykjavíkursvæðið. Stundum þegar leitað er til forstöðumanna stofnana, sem staðsettar eru hér á höfuðborgarsvæðinu, sýnist vera um það að tefla að þær séu litaðar af þeim sjónarmiðum sem eru bundnar við þann ákveðna stað.

Nú hefur hv. allshn. litið algerlega fram hjá þessum sjónarmiðum og einmitt bent á það til mótvægis að þessari breytingu mundi væntanlega fylgja það að setja yrði upp sérstaka skráningarskrifstofu í Reykjavík, sem hefði í för með sér aukinn kostnað og aukna fyrirhöfn fyrir þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Og ég verð að segja það, að ég hlýt að þakka hv. allshn. fyrir að hafa litið víðari augum á þetta mál heldur en þann blett landsins sem við erum nú staddir á.

Ég hef fyrst og fremst fengið upplýsingar um þetta mál allt frá bifreiðaeftirlitsmönnum utan Reykjavíkursvæðisins, og sú reynsla og sú þekking, sem þeir höfðu mér að miðla í þessum efnum, var mjög svo öndverð við þá reynslu og þekkingu sem virðist hafa verið lögð til grundvallar áliti þeirra mætu manna sem undirritað hafa umsögn Bifreiðaeftirlits ríkisins og lögreglustjóraembættisins í Reykjavík. Þetta út af fyrir sig kann ekki að þykja neitt undarlegt þar sem mál þetta er umdeilt og skoðanir stangast á. En ég hef talað við ýmsa aðila sem þessum málum eru nauðakunnugir úti á landi, og ég hlýt að taka allmikið mark á því sem þeir hafa um þetta haft að segja. Þeir hafa talið að sparnaðurinn, sem þessu fylgdi, væri hégómi einn og óhagræðið og margvíslegir ókostir væru svo miklir að ekki væri rétt að samþykkja þetta mál. Ég vil þess vegna lýsa yfir stuðningi við álit hv. allshn.