05.04.1976
Neðri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2990 í B-deild Alþingistíðinda. (2477)

23. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki bæta mörgum orðum við það sem ég hef áður um þetta sagt. Ég vil aðeins út af orðum hv. síðasta ræðumanns taka það fram að þær tölur, sem ég nefndi, standa ekki í neinu sambandi við neinar byggingar yfir bifreiðaeftirlit. Auðvitað er það svo að það á að byggja yfir bifreiðaeftirlit og bifreiðaskoðun á að fara fram innanhúss. Bifreiðaskoðun getur aldrei verið í því lagi, sem hún þarf að vera, með þeim hætti sem orðið hefur að hafa að þessu, að skoðanir hafa farið fram úti. Nú er verið að bæta úr því til bráðabirgða hér í Reykjavík, þannig að Bifreiðaeftirlitið hér fær sérstakt húsnæði sem tekið hefur verið á leigu, og þó að það sé ekki framtíðarhúsnæði, þá bætir það úr brýnni þörf og kemur þessum málum í betra horf en verið hefur. En víðast hvar eru þessi mál í hinum mesta ólestri. Þó er þar frá undantekning, t.d. nálægt hv. síðasta ræðumanni. Á Blönduósi hefur einmitt verið byggt yfir bifreiðaskoðunina og það þarf að gera á hverjum stað til þess að skoðun geti farið fram eins og vera þarf. Það er mesti misskilningur að það sé aðeins um það að ræða að skipta um númer á bílum, eins og allir vita sem hafa nokkuð með þessi mál að gera, heldur fer fram skoðun og á að fara fram skoðun. Og það er auðvitað allt annað að gera það innanhúss eða utan.

Ég tel því að það breyti í sjálfu sér engu um þann aðbúnað sem Bifreiðaeftirlitið þarf að fá hvort þetta nýja skipulag verður lögleitt eða ekki. Það er óhjákvæmilegt og sjálfsagt að bifreiðaskoðun geti farið fram innanhúss. Það er ekki nokkur meining í því að verið sé að fást við bifreiðaskoðun úti í hvaða veðri sem er, og það verður tæplega lag á slíkri skoðun.

En viðvíkjandi þeim sparnaði sem hér getur verið um að ræða, þá vil ég segja að það er rétt, eins og kom fram hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni, að fyrir 4–5 árum, 1971–1972, fór fram rækileg athugun á þessu, var lögð rækileg grg. fyrir fjvn. eða undirnefnd hennar, og það mun vera sú grg. sem hann átti við, og þá var í þeirri grg. sparnaður áætlaður 3.5–4 millj. kr. En það hefur ekki farið fram slík könnun nú og það sagði ég. En ég hafði aðeins þessa tölu eftir forstöðumanni Bifreiðaeftirlitsins hér í Reykjavík sem hann nefndi við mig. Ég skal ekkert segja um á hve mikilli athugun hún er byggð, en hann taldi að það mundi sparast 20 millj. bara við Bifreiðaeftirlitið í Reykjavík. En ég vil taka það fram að þetta er ekki byggt á rannsókn sem nú hafi farið fram, heldur er þetta hans álit.

Hv. frsm. n. vék að því að það mundi verða talsverður kostnaður í sambandi við þessa breytingu. Ég vil geta þess að þegar hefur verið undirbúin og gerð þessi skrá, undirbúningur að henni og því sem gera þarf í því sambandi við 80% bifreiða hér í Reykjavík og helming bifreiða utan Reykjavíkur, þannig að það er þegar búið að leggja í kostnað við það sem að vísu kemur út af fyrir sig til góða vegna þess að það þarf að hafa eina slíka skrá. Við verðum sjálfsagt að hafa hana. En þetta verk er a.m.k. að talsverðu leyti þegar unnið.

Ég skal svo, eins og ég sagði, herra forseti, ekki gera þetta mál að neinu kappsmáli. En mér finnst þetta vera talsverður prófsteinn á það samt hvort þm. vilja leggja sig fram um að spara, ef mætti spara. Ég get ekki fallist á þann hugsunarhátt sem kom fram hjá hv. þm. Pálma Jónssyni. Hann lét þess getið að það mætti bara hækka skráningargjöld og skrásetningargjöld og þá mundi það standa undir sér. Ég held að slíkur hugsunarháttur gæti víða átt við ef það skiptir ekki máli hvað hluturinn kostar, heldur bara litið á það hver borgar hann. Það eru auðvitað útgjöld og kostnaður sem er því samfara þó að hann lendi þá á bíleigandanum eða bílkaupandanum, — kostnaður sem mætti spara, að talið er af þeim sem hér mega nokkuð til þekkja. Þetta er hugsunarháttur sem mér finnst allt of víða gera vart við sig, að það geri ekki mikið til hvað hluturinn kostar ef neytandinn borgar. En það er að mínum dómi mjög hæpinn hugsunarháttur að líta þannig á þetta.

Ég held líka að það sé ekki rétt að gera lítið úr því að forstöðumaður Bifreiðaeftirlitsins hafi þekkingu á bifreiðaskoðun viða um land. Ég held að hann hafi það. Hann er yfirmaður bifreiðaeftirlitsins hvarvetna um landið. Og ég hygg líka að segja megi með fullum rétti, að eins og þeim málum var lengi háttað, þá hafi lögreglustjórinn í Reykjavík haft yfirgripsmikla þekkingu á þessum málum viða um landið. Það kom fram í umsögninni sem hv. frsm. las upp frá Félagi bifreiðaeftirlitsmanna að hún var samþykkt þar, en tekið að vísu fram að skiptar væru skoðanir, en það liggur ekkert fyrir um að þeir, sem samþykktu, hafi allir verið héðan úr Reykjavík og hinir, sem höfðu aðra skoðun á þessu, væru utan af landi. Ég held að það liggi ekki fyrir nein umsögn varðandi þetta mál frá aðila utan af landi sem mælir gegn þessu. Ég efast satt að segja um að það sé hægt að skipta mönnum þannig í þessu máli. Ég held að skoðanir manna hér í Reykjavík séu ákaflega skiptar um þetta mál. og ég dreg ekki í efa að skoðanir manna úti um land séu líka skiptar. Ég held að það sé alveg mislukkað að fara að draga menn eitthvað í dilka eftir búsetu í þessu efni.

Ég skal svo, herra forseti, ekki eyða fleiri orðum um þetta og læt það svo ráðast hver niðurstaðan verður í því.