05.04.1976
Neðri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2992 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

23. mál, umferðarlög

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, hefur margoft og nánast í hverju máli staðið hér upp og borið þd., þn. og einstökum þm. og þá einkum og sér í lagi auðvitað stjórnarþm. það á brýn að þeir séu hér aðeins til þess að afgreiða mál ríkisstj., rétta upp hendurnar samkv. skipun frá henni, þingið sé orðið afgreiðslustofnun. En svo þegar það á sér stað að ein lítil þn. kemur hér með nál. sem ekki er alveg í fullu samræmi við það sem frv. upphaflega segir til um, þá telur hann að við séum að leggjast gegn hæstv. ráðh. og fella stjfrv.

Annar þm. stendur upp, hv. þm. Benedikt Gröndal, og telur að n. sé að gera uppreisn gegn hæstv. ráðh. Það er auðvitað mikill misskilningur hjá þessum annars þingvönu mönnum, a.m.k. þeim síðarnefnda, að halda að nefndir eigi alltaf að samþykkja hrá þau frv. og þær till. sem frá ríkisstj. koma og það sé einhver uppreisn, þó að það sé ekki gert. Ég vísa því algerlega á bug. Hér er um að ræða mál sem auðvitað skiptir ekki mönnum í pólitískar fylkingar, ræður ekki úrslitum um framtíð neinnar ríkisstj., og eins og fram hefur komið hjá hæstv. ráðh., þá gerir hann að sjálfsögðu þetta mál ekki að neinu fráfararatriði.

Hv. þm. Karvel Pálmason skorar á n. að leggja fram tölulegar upplýsingar til þess að afsanna þær fullyrðingar að hægt sé að spara. Þetta eru alveg ný vinnubrögð ef hægt er að fullyrða eitthvað annaðhvort í grg. eða í ræðum og svo eigi aðrir að afsanna þessar fullyrðingar. Eðlilegur gangur mála er að menn rökstyðja eigin málflutning og eigin fullyrðingar. Ef þeir geta ekki gert það, þá standast ekki þessar fullyrðingar, þá eru það órökstuddar fullyrðingar sem menn geta ekki tekið mark á. Og svo er í þessu máli. Því er haldið fram í grg. með frv. að þarna sé um að ræða sparnað í vinnu og álagi í Bifreiðaeftirliti ríkisins er hjá einstökum embættum. Að það þýði 20 millj. kr. sparnað ef breytt er um hvað snertir vinnu og álag, því á ég bágt með að trúa. Ég held að ef n. óskar eftir umsögnum, fær til sín viðkomandi embættismenn og óskar eftir nánari upplýsingum um viðkomandi málefni og þær berast ekki nema að mjög takmörkuðu leyti, þá verði n. að taka afstöðu og taka sínar ákvarðanir í samræmi við það. En umsagnaraðilar, hverjir sem þeir eru, geta ekki ætlast til þess að nefndir séu síi og æ að koma til þeirra og spyrjast frekar um eitt eða annað. Í þessu máli leitaði allshn. umsagnar hjá þeim aðilum sem besta þekkingu hafa, það hefur ekki verið vefengt, og við drögum ályktanir af þeim umsögnum m.a. Auðvitað eru umsagnir ekki einhlítar, og það er í þessu máli eins og öllum öðrum að við fáum upplýsingar, þær berast ýmist jákvæðar eða neikvæðar, og síðan tekur n. afstöðu og metur gildi þeirra.

Hér hefur mönnum orðið tíðrætt um það hvort hægt væri að spara. Vissulega er það sjónarmið sem vegur hvað þyngst, og það hef ég sagt hér tíka að mundi vissulega ráða miklu um afstöðu mína hvort hægt sé að sjá fram á einhvern sparnað. Ég hef ekki séð hann. Ég hef ekki fengið rök fyrir því að umtalsverður sparnaður fáist af þessari breytingu. Ég er a.m.k. ekki á móti því að byggt sé yfir Bifreiðaeftirlit ríkisins, það er auðvitað sjálfsagt mál. En ég hef skilið það svo að þegar verið er að tala um aukið álag og aukinn kostnað fyrir Bifreiðaeftirlitið, þá sé það vegna þess að þeirra mati að þeir þurfi að byggja stærra hús en nú er ráðgert ef umskráningarnar eiga að halda áfram. Og út frá þeirri forsendu finna þeir sjálfsagt að hægt sé að spara, eða þessi viðbótarbygging kosti svo og svo margar millj. En það er auðvitað ekki sparnaður frá því sem nú er enda þótt hægt sé að sýna fram á að einhverntíma í framtíðinni þurfi að byggja eitthvað stærra og veglegra hús heldur en nú er gert ráð fyrir.

Hv. þm. Benedikt Gröndal taldi að ég gerði ekki greinarmun á sjálfum mér og bílnum mínum. Ég skal fullvissa þennan þm. um að mér er nokkuð ljóst hver munur á mér og mínu farartæki er. Hins vegar er það útúrsnúningur hjá honum ef hann vill ekki viðurkenna að bílnúmer eins og önnur auðkenni hafa auðvitað á sér nokkurn sérstakan blæ. Við skulum t.d. taka það að hér á Íslandi búa menn við götur með ákveðnum heitum, menn búa hér á bóndabýlum, sem heita ákveðnum nöfnum, og vissir einstaklingar eru kenndir við þessar götur og við þessi bæjarheiti og eru þekktir undir þeim. Ég held að slík auðkenni geti verið persónuleg og sérstæð, og þau gera íslendinga að sjálfstæðum einstaklingum og nokkuð þekktum borgurum í samfélaginu og þau gera okkur alla að einni fjölskyldu þegar á allt er lítið. Þetta á við um bílnúmer líka. Þau hafa á sér persónuleg auðkenni, hafa á sér sérstæðan blæ, og ég er ekkert hissa á því þó að menn vilji halda í þau einkenni, án þess að ég sé að halda því fram að það sé meginforsendan og aðalástæðan fyrir því hvernig afstað þeirra mótast í þessu máli.

Hæstv. ráðh. taldi að hér væri um að ræða prófstein á það hvort þm. vildu spara eða ekki spara. Ég held að í þessu máli sé um það að ræða að þetta sé mál sem er prófsteinn um það hvort breytingar feli í sér sparnað eða ekki. Og eftir að hafa athugað málið mjög gaumgæfilega, skoðað öll rök með og á móti, þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu og allshn. hefur komist að þeir:i niðurstöðu að breytingin feli ekki endilega í sér sparnað. Það má vel vera að hægt sé að sýna fram á tölulega einhverjar smáupphæðir, en engan umtalsverðan sparnað sem réttlætir þessa breytingu. Fullyrðingar um 20 millj. kr. sparnað eða eitthvað í þá átt hafa ekki verið rökstuddar frekar og því vísa ég þeim á bug.

Hv. þm. Benedikt Gröndal hefur óskað eftir því við hæstv. forseta að þessari umr. væri frestað og n. fengi málið til frekari athugunar. Ég vil lýsa því yfir sem formaður í þessari n. að ég sé engin rök til að það sé gert. N. hefur skoðað málið og rætt það á fjölmörgum fundum. Hún hefur komist að niðurstöðu sem allir eru sammála um. Og ég vek athygli á því að til þess eru hér þrjár umr. í hvorri d. um hvert mál að hægt sé að skoða mál milli umr. Ég tel því þinglegt að þetta mál fái nú afgreiðslu víð þessa umr. N. telur ekki ástæðu til að skoða málið aftur. Ef fram koma nýjar upplýsingar í málinu milli umr., þá verða þær upplýstar, þá koma þær fram hér við 3. umr. og þá er ekkert því til fyrirstöðu að einstakir nm. — eins og þm. allir geta auðvitað breytt um skoðanir — geta breytt um afstöðu ef nýjar, veigamiklar upplýsingar koma fram. En þær hafa ekki komið fram enn þá, og meðan svo er sé ég enga ástæðu til þess að fresta umr. þessari eða afgreiðslu þessa máls.