05.04.1976
Neðri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2994 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

23. mál, umferðarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hv. frsm. allshn., sem hér lauk máli sínu, hefur gert svo skilmerkilega grein fyrir afstöðu n. til þessa máls að ég þarf þar í raun og veru sáralitlu við að bæta. En vera má að rétt sé að það sé staðfest að það ríkti alger eining í n. um þetta mál. En svo kemur hér fram hæstv. dómsmrh. með nokkra stjórnarandstæðinga sér til fulltingis og líkar ekki eða lætur sér ekki líka meðferð n. á málinu.

Það fyrsta, sem manni kemur í hug, er það að þegar breyta á skipulagi sem vel hefur gefist eða sæmilega um margra ára skeið. þá þarf að fá eitthvað betra í staðinn. Talað um sparnað í þessu efni. Ég tel það lágmark að sú krafa sé gerð til hæstv. ríkisstj., þegar hún vill breyta skipulagi, sem vel hefur reynst, og rökstyðja það með sparnaði, þá sé sýnt fram á slíkan sparnað í grg. með frv. eða a.m.k. að slíkt liggi nokkuð ljóst fyrir. En í þessu efni tel ég að þetta atriði liggi ekki í augum uppi.

Það er rætt um að þessi skipan hafi verið upp tekin á Norðurlöndum. Ég er mikill fylgjandi norrænnar samvinnu og tel henni margt til kosta, en þó algerlega ástæðulaust að taka hvað eina upp eftir okkar ágætu frændum á Norðurlöndum. Það er margt gott sem þaðan kemur, en þó alls ekki allt, og okkur hefur stundum orðið hált á því að taka of margt upp eftir þeim sem ekki á við að öllu leyti hér á okkar eylandi.

Þá eru það umsagnir um þetta mál. Þær hafa skipst mjög í tvö horn. Ýmsir aðilar, sem fengið hafa þetta mál til umsagnar, eru því andvígir, og það eru aðilar sem þekkja málið og kunna glöggt um það að segja. Ég vil aðeins benda á eitt atriði í viðbótar.

Það er talað um fordild í sambandi við bílnúmer. Vissulega verður maður oft hennar var. Og það er alveg ástæðulaust að menn greiði ekki fyrir þann kostnað sem af umskráningu leiðir, sérstaklega þegar menn eru af alls konar sérvisku að skipta um bílnúmer innan sama skráningarumdæmis. Ég tel alveg sjálfsagt að taka fyrir þá vinnu gjald sem ber uppi þann kostnað sem af þessu leiðir. Það eru afskaplega margir menn hér á landi, bæði í Bifreiðaeftirlitinu í Reykjavík og í sýsluskrifstofum og bæjarfógeta úti um land, sem þurfa að eyða miklum tíma í þessi mál. En það er ekki heldur að undra þegar menn virða fyrir sér allan þann fjölda bifreiða sem streymir til landsins á ári hverju.

Bifreiðanúmer eru fyrst og fremst til þess að einkenna bifreiðina. Ég vil benda á eitt atriði í því sambandi. Þegar bifreið lendir í umferðarslysi eða ekur burt af slysstað, svo að dæmi sé nefnt, þá er það harla oft að áhorfandi nær bókstafnum, hvort sem hann er R eða A eða E eða eitthvað slíkt, en nær ekki númerinu að öðru leyti. Þetta atriði getur því oft haft úrslitaáhrif að mínu mati í þá veru að hreint og beint sé hægt að upplýsa málið. Ég vil láta þetta koma fram, því að ég hef áður heyrt minnst á þetta atriði í samræðum um þetta málefni.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta á þessu stigi, en vekja athygli á einu í lokin, og það er aðstaða sú sem bifreiðaeftirlitsmenn hafa búið við, einkum hér í Reykjavík. Sú aðstaða, sem þeim hefur verið búin nú um margra ára skeið, hefur vægast sagt verið fyrir neðan allar hellur. Það er varla hægt að ætlast til þess að menn, sem vinna við þær aðstæður, skili hlutverki sínu til fulls. Það hefur verið mjög brýnt mál um margra ára skeið að gera vinnuaðstöðu Bifreiðaeftirlitsins betri, sérstaklega hér í Reykjavík. Það er sannarlega von þeirra sem til þekkja að nú fari að rætast úr í þeim efnum, því að það er ekki hægt að ætlast til þess að menn nú á tímum vinni og skili sínu starfi vel unnu víð hvaða aðstöðu sem vera skal. Þetta hef ég oft heyrt bifreiðaeftirlitsmenn minnast á. Þetta hef ég séð sjálfur með eigin augum og veit að þarna þarf og verður að ráða bót á til batnaðar.