05.04.1976
Neðri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2997 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

23. mál, umferðarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það má líklega segja að hér í dag eigi við hið forna spakmæli, að svo lengi lærir sem lifir. Ekki hafði ég reiknað með því að ég ætti eftir að lifa það hér á hv. Alþ., þá sjaldan ég tek málstað hæstv. ríkisstj., að hér kæmu upp í pontu hver á fætur öðrum hv. stjórnarþm. og skömmuðu mig fyrir það. En sú hefur nú orðið raunin á. (Dómsmrh.: Laun heimsins eru vanþakklæti.) Já, það kannast hæstv. dómsmrh. við, að laun heimsins eru vanþakklæti, það er enginn vafi á því.

Ég sé nú eiginlega nauðsyn á því að segja hér nokkur orð eftir allar þær ræður sem hér hafa verið fluttar gegn mér sem stjórnarandstæðingi, og vil ég þá fyrst koma að hv. þm. Pálma Jónssyni. Það var að vísu ekki margt sem hann kom inn á, en þó var þar sérstaklega um eitt atriði að ræða þar sem hann sagði að ég hefði ekki bent á neitt atriði í frv. sem verkaði í sparnaðarátt. Þetta er að vísu rétt, ég benti ekki á neitt sérstakt atriði frá eigin brjósti til viðbótar því sem er í frv., sem mundi verka í sparnaðarátt. Fyrst hæstv. ríkisstj. tókst ekki að sannfæra hv. þm. Pálma Jónsson um ágæti þessa máls, þá taldi ég litlar líkur á þó að ég færi að bæta við frá eigin brjósti, þó mikið brjóstvit sé nú talið kannske, að það hefði mikla þýðingu til að sannfæra hv. þm. En í grg. þessa frv. er þó drepið á þetta, og það hygg ég að hv. þm. hafi lesið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Kostir við þessa breytingu eru fyrst og fremst sparnaður í vinnu og aðstöðu, þar sem hætt yrði að umskrá ökutæki vegna flutnings milli umdæma eða annarra ástæðna. Jafnframt mundu falla niður þær skoðanir, sem nú er skylt að framkvæma við umskráningu. Sparnaður þessi mundi ekki einungis koma fram hjá þeim opinberu stofnunum sem hlut eiga að máli (lögreglustjórum, bifreiðaeftirliti og þinglýsingadómurum), heldur einnig hjá eigendum ökutækjanna, svo og öðrum, t.d. vátryggingafélögum.“

Hér er rækilega undirstrikað hvað hér er um að ræða sem mundi sparast ef þessi breyting yrði gerð, svo í sjálfu sér þurfti ég ekki að bæta neinu við þetta frá mér. Ég tel, eins og ég tók fram áðan, að hér sé sýnt fram á að um sparnað sé að ræða verði af þessari breytingu.

Mér þykir leitt að hv. 11. þm. Reykv., formaður og frsm. hv. n., er farinn úr salnum, því að ástæða hefði verið til að segja nokkur vel valin orð við hann. En hann byrjaði á því að gagnrýna þann hátt hjá mér nú að taka mér stöðu við hlið hæstv. ríkisstj., ég hefði áður skammað hann og aðra stjórnarliða fyrir það að þeir færu í einu og öllu eftir því sem hæstv. ríkisstj. segði í það og það skiptið. Og að vissu leyti er það rétt. Ég hef gagnrýnt bæði hann og aðra stjórnarliða fyrir það að dansa alltaf eftir nótum hæstv. ríkisstj., hversu vitlaus mál sem væru til meðferðar hverju sinni. Þess vegna sárnar mér það þegar þessir hv. stjórnarliðar loksins telja sig þess umkomna að rísa gegn hæstv. ríkisstj., að þá skuli það endilega gerast í einu af þeim fáu málum sem eru þó skynsamleg af hendi hæstv. ráðh., og virði mér það hver sem er til vorkunnar.

En út af því, sem hér hefur komið fram í sambandi við upplýsingar, þá hefði ég viljað spyrja formann allshn. um það, hvort n. hafi óskað eftir upplýsingum og athugunum frá Bifreiðaeftirliti ríkisins eða frá forstjóra Bifreiðaeftirlits ríkisins. Þessar athuganir eru til frá árinu 1972 og það hefði líklega ekki þurft annað en endurreikna þær og ekki hefði það tekið langan tíma, þannig að menn fengju í hendur raunverulegar tölur sem á væri byggjandi í þessum efnum. Ég sé hvorki í nál. allshn. né að það hafi komið fram í ræðum hv. nm. að neins staðar hafi verið greint frá því að samkv. athugunum eða upplýsingum, sem fyrir lægju, væri hægt að draga þá ályktun að hér væri ekki um neinn sparnað að ræða. Og mér finnst að það vanti inn í þetta að gerð sé glögg grein fyrir því með tölum af hálfu Bifreiðaeftirlits ríkisins, sem gleggst ætti að vera kunnugt um þetta mál, hvað hér er hægt að spara ef orðið yrði við þessari breytingu. Það þykir mér á skorta. Ég tek því undir þá ósk, sem kom fram hjá hv. þm. Benedikt Gröndal áðan, að ég sé ástæðu til þess að óska eftir því að hv. n. afli þessara upplýsinga, þannig að þdm. gefist kostur á því að taka afstöðu til málsins að fengnum raunverulegum upplýsingum um það hvort hér er um sparnað að ræða eða ekki og þá hversu mikinn.

Ég harma það að vísu að hæstv. dómsmrh. skuli ekki gera þetta að kappsmáli. Þetta hefði hann í raun og veru átt að gera að kappsmáli, hæstv. ráðh., því þetta er mál þess eðlis.

Ég sé að hv. formaður allshn. gengur í salinn og ég vil þá gjarnan endurtaka það sem ég beindi til hans í sambandi víð upplýsingarnar, þar sem ég spurði um það hvort allshn. hafi óskað eftir upplýsingum og athugunum frá Bifreiðaeftirliti ríkisins um hvað slík breyting sem hér um ræðir hefði í för með sér mikinn sparnað í rekstri. (Gripið fram í.) Ég veit að hæstv. forseti getur þm. kost á því að tala meira, það er svo sjaldan nú orðið sem slíkt gerist. Ég tel sem sagt að þessar upplýsingar eigi að liggja Fyrir. Það var gerð á þessu athugun 1972 og þá sýnt fram á með tölum hver sparnaðurinn væri, og það er enginn vafi á því, það þarf' enginn mér að segja að það sé ekki hægt með tiltölulega stuttum fyrirvara á skömmum tíma að afla þessara upplýsinga svo óyggjandi gætu talist. (Gripið fram í:

Var ekki einhver ráðh. að svara þessu áðan?) Nei. (Gripið fram í.) Ja, enginn. Það er ekki verra en það dæmi að þessi athugun liggur fyrir frá árinu 1972. Hún var þá gerð af Bifreiðaeftirlitinu. Um það eru til skýrslur, þannig að það ætti ekki að vera mikið verk að fara ofan í það mál, þannig að það væri hægt að fá samanburð á þeim tölum, sem þar eru, miðað við það sem teldist í dag. Ef það hefur verið álit hæstv, allshn. að engar slíkar athuganir væri hægt að fá, menn yrðu bara að slumpa á hvort hér væri um sparnað eða sparnað ekki að ræða, þá er hér hálfgert happdrætti á ferðinni. Ég tek því undir þá ósk sem hér kom fram, að hv. allshn. skoði þetta mál betur og leggi á borðið óyggjandi tölulegar upplýsingar um það hvort hér er um sparnað að ræða eða ekki og þá hversu mikinn. Þær á að vera hægt að fá, og er engin ástæða til þess að vorkenna hv. n. neitt um það að afla slíkra upplýsinga.

Ég sá ekki betur en forstöðumaður Bifreiðaeftirlits ríkisins léti hafa það eftir sér í einhverju dagblaðanna nýlega, vegna þess hver afstaða allshn. var til þessa máls, að að sjálfsögðu væri það alþm. sjálfra að ákveða hvort þeir vildu spara eða spara ekki, þannig að hann dregur greinilega enga dul á það að hér er um að ræða sparnað ef eftir þessu verður farið.

Ég hjó líka eftir því að hv. þm. Friðjón Þórðarson, einn af fulltrúum í allshn., sagði, að ég held orðrétt, að sér sýndist ekki að sparnaður lægi ljóst fyrir í þessu efni. Enn frekar undirstrikar þetta álit þessa hv. nm. í allshn. að það sé aflað betri og frekari upplýsinga um þetta. Margir hv. þm. hafa komið hér inn á það að ástæða sé til þess að bæta aðstöðu Bifreiðaeftirlits ríkisins, og ég tek undir það. Og ef hægt er að spara með þessari breytingu, þá væri þeim fjármunum ekki betur varið en til þess að gera aðstöðu Bifreiðaeftirlits ríkisins betri. Þó ekki væri nema 20 millj. á ári sem þetta sparaði, þá munar um það.

Ég skal svo, herra forseti, ekki hafa þessi orð fleiri, en ég ítreka að ég er til reiðu í stuðningi við hæstv. dómsmrh. um þetta mál. Ég hef sagt það áður hér á Alþ. og get sagt það einu sinni enn, að í mínum huga er ekki meginmálið hvaða aðili, einstaklingur eða flokkur, það er sem málið ber fram. Ef málið er gott, þá fylgi ég því. Og ég vænti þess að það verði orðið við þeirri ósk að hv. n. verði gefið tækifæri til þess að vinna betur, afla betri upplýsinga og leggja þær hér á borðið.