06.04.1976
Sameinað þing: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3012 í B-deild Alþingistíðinda. (2492)

202. mál, framfærslukostnaður

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég þakka forsrh. svarið, en ég vek athygli á því að fyrir utan einn styrk, sem óbeint var til stuðnings við íslenska íþróttahreyfingu, hefur ekkert — alls ekkert verið gert fyrir íþróttasamskipti hjá Norðurlandaráði. Samkv. þessu svari hefur Norðurlandaráð fjallað um eflingu íþróttasamstarfs meðal Norðurlandanna á hverju ári frá a.m.k. 1970 og gert um það nýjar og nýjar ályktanir á hverju ári, ýtt málinu á undan sér, talið að nýjar samþykktir væru til frekari eflingar þessum samskiptum, en niðurstaðan hefur orðið sú að ekkert hefur verið gert.

Það kemur fram í því svari, sem forsrh. las, að menningarmálasamningurinn hafi ekki markað nein teljandi spor á íþróttasviðinu, hafi ekki leitt til neinna áþreifanlegra aðgerða og að hlutur íþróttanna í heildarfjárveitingum úr sjóðnum sé ekki fyrirferðarmikill. og er það vægt til orða tekið. Norræni menningarmálasjóðurinn hefur til umráða á árinu 1975 hálfan annan milljarð ísl. kr., en ekki ein einasta króna hefur farið til íþróttasamskipta. Ég get metið ummæli hæstv. forsrh. nokkurs þegar hann telur að fátt sé líklegra til þess að efla bróðurhug og samvinnu heldur en samskipti á sviði íþróttanna, og ég vona að þau orð geti orðið að veruleika. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki á hans valdi að taka þessar ákvarðanir, heldur er það Norðurlandaráðs og óbreyttra þm. Ég vil trúa því og held að það sé rétt, að fulltrúar okkar íslendinga hafi haldið uppi djörfum málflutningi og einörðum á þingum Norðurlandaráðs síðustu árin og það verði til þess að einhver raunhæfur árangur verði af.

Íslensk íþróttahreyfing hefur sótt um styrki á hverju einasta ári undanfarin 5 ár til Norræna menningarmálasjóðsins, en ávallt fengið synjun. Á þessu ári mun verða efnt til norræns unglingamóts hér á Íslandi sem 100 norrænir unglingar á aldrinum 14–16 ára taka þátt í. Þetta er á vegum frjálsra íþróttasamtaka sem standa illa að vígi fjárhagslega, og ég trúi því að Norræni menningarmálasjóðurinn og fulltrúar okkar í Norðurlandaráði muni vinna að því og sjá um, að eðlilegur styrkur fáist til þessa móts. Það mun verða prófsteinn á norræna samvinnu, og ef íslendingar og Norðurlandaráð yfirleitt vill ekki verða að athlægi meðal almennings, þá verður að gera bragarbót. Ég trúi því að hv. fulltrúar okkar í Norðurlandaráði og ráðh. íslendinga fylgi þessu máli eftir því að hér er sannarlega þarft verk að vinna.