06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (2498)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Skv. lögum nr. 21 frá 10. apríl 1974, um jarðgufuvirkjun við Kröflu eða við Námafjall í Suður-Þingeyjarsýslu, var ríkisstj. heimilað að fela væntanlegri Norðurlandsvirkjun eða öðrum aðila að reisa og reka jarðgufuaflsstöð við Kröflu eða austanvert Námafjall með allt að 55 mw. afli til framleiðslu á raforku og leggja þaðan aðalorkuveitu til tengingar við aðalorkukerfi Norðurlands og Austurlands. Heimildarlög þessi voru samþ. shlj. á Alþ. 4. apríl 1974 að loknum ítarlegum umr.

Á undanförnum árum hafa farið fram viðtækar rannsóknir á Kröflu- og Námafjallssvæðinu með tilliti til fyrirhugaðrar jarðgufuvirkjunar þar. Hér er um að ræða fyrstu meiri háttar gufuaflsvirkjun hér á landi, en síðan 1969 hefur verið rekin lítil gufuaflsstöð á vegum Laxárvirkjunar í Bjarnarflagi.

21. júní 1974 skipaði þáv. iðnrh. n. sem skyldi hafa það verkefni að undirbúa jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall í samræmi við heimildarlögin. Í n. eiga sæti: Bragi Þorsteinsson, verkfræðingur, Ingvar Gíslason alþm., sem er varaform. n., Jón G. Sólnes alþm., sem er form. n., Páll Lúðvíksson verkfræðingur og Ragnar Arnalds alþm. Vegna tilfinnanlegs orkuskorts á Norðurlandi varlögð sérstök áhersla á að hraðað yrði svo sem frekast væri unnt tæknilegum og fjárhagslegum undirbúningi virkjunarinnar.

Hér er um viðamikið verkefni að ræða og hefur undirbúningur þess verið á vegum Kröflunefndar, Orkustofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins. Verkaskipting þessara aðila hefur verið sem hér segir: Kröflunefnd hefur séð um byggingu stöðvarhúss og kaup á öllum vélbúnaði tilheyrandi virkjuninni svo og kæliturnum, o.þ.h. Orkustofnun hefur haft með höndum rannsóknir á jarðhitasvæðinu, borun vinnsluhola og virkjun þeirra, enn fremur lagningu gufuveitu og framleiðslubúnaðar til vinnslu á gufunni þar til hún fer inn á vélar virkjunarinnar. Þá hefur Orkustofnun haft með höndum undirbúning þeirra mannvirkja sem munu taka við affallsvatni frá virkjuninni. Rafmagnsveitur ríkisins hafa unnið að undirbúningi og hönnun háspennulínu frá Kröflu til Akureyrar og tengingu þeirrar línu á Akureyri. Kröflunefnd hefur hins vegar undirbúið tengingu línunnar við tengivirki Kröfluvirkjunar.

Á s.l. ári ákvað ráðh. að efna til formlegs samstarfs þessara þriggja aðila undir forustu iðnrn. til að samræma starf og áætlanir við virkjunarframkvæmdir.

Á síðari hluta árs 1974 var unnið að rannsóknarborunum á Kröflusvæðinu í framhaldi af þeim rannsóknum sem fram höfðu farið árin 1970–1973. Á árinn 1974 voru boraðar tvær 1100–1200 m rannsóknarholur. Mældist hiti í annarri holunni allt að 300° C. og var gert ráð fyrir í skýrslu Orkustofnunar að niðri á 2000 m dýpi mætti búast við allt að 330–340° hita. Þó var gert ráð fyrir að meðalhiti innstreymis í holuna yrði lægri þar sem kaldara vatn streymdi inn í holurnar ofar.

Niðurstaða þeirra borana og rannsókna varð sú skv. skýrslu Orkustofnunar að Kröflusvæðið stæði undir 50–60 mw. gufuvirkjun og hugsanlegri síðari stækkun. Mælt var með því að hafist yrði handa um að bora vinnsluholur í Kröflu á árinu 1975. Gerð var grein fyrir samanburði á Kröflusvæðinu og Námafjallssvæðinu. Kröflusvæðið er talið fast að tífalt stærra að flatarmáli en Námafjallssvæðið og líkur á að það sé öruggara í vinnslu og standi undir verulegri stækkun síðar.

Að loknum þessum rannsóknum og gaumgæfilegum athugunum að öðru leyti lagði Orkustofnun til að jarðhitinn á Kröflusvæðinu yrði virkjaður og mannvirkið staðsett ofarlega í Hlíðardal, 500–1500 m frá fyrirhuguðu borsvæði.

Kröflunefnd gerði samning um verkfræðilega ráðgjöf og hönnun við Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens og verkfræðifyrirtækið Rogers Engineering. Seint á árinu 1974 var leitað tilboða í vélar virkjunarinnar. Í apríl 1975 var samið um kaup á aðalvélum, tveim 30 mw. vélasamstæðum frá japanska fyrirtækinu Mitsubishi.

Framkvæmdir við vegagerð og stöðvarhús hófust snemma sumars 1975. Framkvæmdir hafa síðan gengið eftir áætlun og var stöðvarhúsið fokhelt fyrir s.l. áramót. Á árinu 1975 var tekin ákvörðun um að aðeins fyrri vélasamstæðan yrði tekin í notkun á árinu 1976, en hinni síðari frestað um sinn.

Orkustofnun hóf sumarið 1975 borun vinnsluhola. Voru boraðar þrjár holur. Árangur þeirra borana var sá að fyrsta holan, hola 3, — en rannsóknarholurnar frá 1974 eru taldar nr. 1 og 2, — var frágengin til gufuvinnslu og gaf hún gufumagn sem svaraði til 5–6 mw. raforkuframleiðslu. Við borun á annarri vinnsluholunni, holu 4, komu í ljós miklir erfiðleikar vegna mikils þrýstings. Holan braut af sér loka í byrjun janúar og blés eftir það óbeislað og hrundi síðan saman. Nú hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að fá öflugri búnað fyrir þær borholur sem boraðar verða í ár. Verður þá mögulegt að ráða við þann þrýsting sem komið getur á þær holur sem boraðar verða héðan í frá. Þriðja holan, hola 5, var boruð niður á 1300 m dýpi og er gert ráð fyrir að hún verði dýpkuð þegar boranir verða hafnar nú í ár.

Í fjárlaga- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1976 er gert ráð fyrir fjáröflun. á þessu ári að upphæð 2809 millj. kr., auk þess er gert ráð fyrir fjármögnun með vörukaupalánum að upphæð 1 214 millj. eða samtals 4 023 millj. kr. Þetta skiptist þannig:

Fjáröflun

Vörukaupalán

Framkvæmdir á vegum:

millj. kr.

Kröfluvirkjunar

1694

1 084

Orkustofnunar

600

130

Rafmagnsveitna ríkisins

515

Það sem af er þessu ári hefur verið unnið að byggingu stöðvarhúss og undirstöðum véla. Aðalvélar virkjunarinnar eru nú fullsmíðaðar í Japan og hafa verið prófaðar þar. Er ráðgert að uppsetning fyrri vélar og tilheyrandi búnaðar geti hafist snemma sumars og verður lokið fyrir n.k. áramót, eins og framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir.

Skv. áætlun Orkustofnunar á að hefja boranir með Jötni í apríl. Á þessu ári er áætlað að bora fjórar holur og á árunum 1977 og 1978 átta holur til viðbótar. Fyrstu tvær holurnar verða boraðar í 1500–1600 m dýpi með möguleika á að dýpka þær síðar ef hagkvæmt þykir. Þegar borun þessara tveggja hola er lokið verður tekin afstaða til þess hvort dýpka skuli framangreindar holur eða bora fleiri holur 1600–1600 m djúpar.

Rannsóknir hafa sýnt að næg orka er fyrir hendi á Kröflusvæðinu. Framangreind áætlun um tilhögun á borunum miðast við það að fá megi nægilegt gufumagn með sem minnstri áhættu.

Í júnímánuði 1975 gerði Orkustofnun samning við verkfræðistofuna Virki og Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens um hönnun á aðveitukerfi gufu frá borholum að stöðvarhúsi og hönnun kælilóns fyrir affallsvatn.

Í nóv. 1975 kom út á vegum Orkustofnunar skýrsla ráðgjafaverkfræðinganna um forhönnun aðveitu Kröfluvirkjunar. Skv. forhönnun aðveitukerfisins er gert ráð fyrir 12 borholum í notkun samtímis og 2 til vara þegar stöðin er fullgerð. Áætlað er að meðalafköst hverrar borholu verði 40–50 kg/sek. og að innstreymishiti verði 270° C. Þessi afköst eru talin fullnægjandi fyrir vélar virkjunarinnar, en það þýðir að meðalafköst hverrar borholu yrði 5–6 mw.

Gert er ráð fyrir byggingu gufuveitunnar í tveimur áföngum, fyrri áfangi verði veita frá neðra borsvæði og ljúki honum 1. okt. 1976, síðari áfangi veita frá efra borsvæði sem mætti ljúka í okt. 1977, en áætlað er að hvor áfangi fyrir sig dugi fyrir eina aflvél virkjunarinnar.

Í upphaflegum áætlunum var gert ráð fyrir að affallsvatni yrði veitt í uppistöðulón í Þríhyrningadal, en í áðurnefndri skýrslu er lagt til að því verði veitt í tilbúið lón í Hlíðardal af tæknilegum og rekstrarlegum ástæðum. Ekki er það talið hafa teljandi áhrif á stofnkostnað á hvorum staðnum lóninu er valinn staður.

Kostnaðaráætlun gufuveitu og affallsvatns er: Fyrri áfangi, sem ráðgert er að byggður verði í ár, 410 millj. kr. Síðari áfangi 310 millj. kr. Samtals 720 millj. kr.

Rafmagnsveitur ríkisins hafa undirbúið lagningu háspennulínunnar frá Kröflu til Akureyrar. Kostnaðurinn er áætlaður 516 millj. kr. Staurar í línuna eru komnir til landsins. Gert er ráð fyrir að línan verði tilbúin 5 des. þessa árs.

Sú hugmynd hefur komið upp að fresta Kröfluvirkjun um eitt ár. Verða nú rakin þau atriði, sem skipta sérstaklega máli í því sambandi.

20. des. 1975 braust út eldgos í I.eirhnjúk. Jafnframt upphófst mikil jarðskjálftahrina. Sú hrina náði hámarki síðari hluta janúar, en upp úr mánaðamótum janúar og febrúar fór smátt og smátt að draga úr jarðskjálftum. Til skýringar skal þess getið að um miðjan janúar voru skjálftar stærri en 3 á Richterskvarða um 50 á viku. Um mánaðamótin janúar–febrúar voru skjálftar af sömu stærð um 40 á viku. Um miðjan febrúar voru ekki nema 5 slíkir skjálftar á viku. Og síðan 18. febrúar hefur skv. upplýsingum frá Raunvísindastofnun Háskólans enginn jarðskjálfti með styrkleika 3 eða meira fundist á Kröflusvæðinu.

Hinn 19. jan. s.l. rituðu fjórir sérfræðingar í jarðvísindum við Raunvísindastofnun Háskólans iðnrh. bréf þar sem þeir telja að meðan jarðskjálftahrinan, sem hófst 20. des., stendur yfir telji þeir óráðlegt að halda áfram framkvæmdum við Kröfluvirkjun öðrum en þeim sem stuðla að verndun þeirra mannvirkja sem þegar hefur verið fjárfest í. Framkvæmdir voru í samræmi við þessa ábendingu.

Með hliðsjón af því, sem að framan greinir, má gera ráð fyrir að jarðskjálftahrinan, sem hófst um s.l. áramót, sé liðin hjá. En rétt er að geta þess að smáskjálftar, þ.e.a.s. skjálftar minni en 3 að styrkleika, hafa fundist á Kröflusvæðinu síðan á miðju sumri 1975 og finnast enn.

Miðað við núverandi aðstæður eru viðhorf Orkustofnunar og Kröflunefndar þau að rétt sé að halda áfram óbreyttri framkvæmdaáætlun. Viðhorf Orkustofnunar kemur m.a. fram í bréfi til rn., þar sem segir:

„Nú hefur dregið úr jarðskjálftavirkni við Kröflu. Hafa nú upp á síðkastið ekki komið stærri skjálftar en í fyrrasumar og haust meðan boranir stóðu þar yfir. Skjálftar af þeirri stærð valda ekki vandkvæðum við boranir, og verður borinn því sendur að Kröflu að núverandi aðstæðum þar óbreyttum þegar borun við Laugaland lýkur.“

Vegna náttúruhamfara gæti fyrst og fremst verið um hættu af völdum jarðskjálfta og hugsanlegs eldgoss að ræða. Sú hætta er ávallt að vissu marki fyrir hendi þegar um er að ræða mannvirki á hinu virka eldgosabelti landsins. Það er álit vísindamanna, eins og áður var sagt, að jarðskjálftahrina sú, sem hófst fyrir alvöru með eldgosinu, sé liðin hjá, hugsanlegt sé hins vegar að hún gæti hafist að nýju, en ómögulegt sé að segja um það á þessu stigi.

Áhrif jarðskjálfta á mannvirki virkjunarinnar hafa verið athuguð af sérfræðingum. Stöðvarhúsið, svo og önnur byggingarmannvirki Kröfluvirkjunar, er reiknað fyrir jarðskjálftaáraun sem nemur 220 cm/sek2/3. Hér er um að ræða tvöfalt meiri kröfur um styrkleika mannvirkja heldur en gerðar eru til bygginga á höfuðborgarsvæðinu. Þetta samsvarar 20% þyngdar og væri sambærilegt við þá áraun sem búast mætti við í jarðskjálfta af stærð 7 eftir Richterskvarða er ætti upptök sín í námunda við stöðvarhúsið. Ekki er talið líklegt að svo stór jarðskjálfti geti Att sér stað á Kröflusvæðinu, því veldur jarðhitun, en einmitt hinn mikli hiti í jarðskorpunni á þessum stað hindrar að mikil spenna geti safnast saman í skorpunni. Stórir jarðskjálftar gætu hins vegar komið á norðurenda sprungusveimsins, þar sem ekki gætir jarðahita í miklum mæli.

Öllum tækjum í Kröfluvirkjun, aflvélum, rafbúnaði og öðrum tækjum, verður komið fyrir með tilliti til jarðskjálftaáraunar, hinnar sömu og áður er getið, þ.e.a.s. 7 stig á Richterskvarða. Er sérstaklega gengið frá öllum festingum og undirstöðum allra véla og tækja með tilliti til þessarar áraunar.

Fram hefur komið sú spurning hvort steypuvinna sé framkvæmanleg, einkum mikilvægir hlutir svo sem aflvélaundirstöður, á meðan búast má við jarðskjálftum. Að athuguðu máli er talið að engin sérstök áhætta sé þessu samfara og steypuvinna þurfi af þessum sökum ekki að tefjast. Hér er stuðst við athuganir á þessu atriði sem gerðar hafa verið í Japan við líkar aðstæður.

Þá hafa sérfræðingar einnig athugað áhrif jarðskjálfta á borun og mannvirki gufuveitu. Nokkrir skjálftar af styrkleika um 4 á Richterskvarða áttu upptök sin á Kröflusvæði meðan borun stóð þar yfir sumarið 1975. Borunarmenn urðu þeirra lítt varir og höfðu skjálftarnir engin merkjanleg áhrif á borunina þótt upptökin væru nærri bornum. Það er ekki talið af sérfræðingum að borholunum stafi hætta af jarðskjálftum.

Ólíklegt er talið að lögn gufuleiðslna frá borholum að stöðvarhúsi þurfi að tefjast þó að einhver skjálftavirkni verði á svæðinu. Álíta verður að leiðslunum sjálfum sé lítil hætta búin í jarðskjálftum vegna þess sveigjanleika sem er í slíku mannvirki. Ekki er heldur talið að háspennulínu stafi teljandi hætta af jarðskjálftum, enda liggur hún að meginhluta utan svæðisins.

Með hliðsjón af fyrri viðhurðum í Mývatnseldum er ekki talið útilokað að eldgos gæti hafist að nýju. Allar spár í þessu efni eru vitanlega mjög erfiðar, en ef til slíks kæmi er talið líklegast að það yrði á hinu virka sprungusvæði frá Bjarnarflagi norður fyrir Leirhnjúk, en mannvirki Kröfluvirkjunar í Hlíðardal og borholusvæðið liggja nokkuð austan við hið virka sprungusvæði. Án þess að talin séu mikil líkindi fyrir slíku gosi kemur til greina að gerðir verði varnargarðar á tveimur stöðum til að bægja frá þeirri hættu að hraun renni um ofanverðan Hlíðardal.

Eins og áður var tekið fram er gert ráð fyrir að bora fjórar holur á svæðinu sumarið 1976. Alltaf er nokkur óvissa í sambandi við gufuboranir. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að næg orka er fyrir hendi á Kröflusvæðinu. Framkvæmdaáætlunin tekur mið af því að næg gufa verði tiltæk á þessu ári fyrir fyrri vélasamstæðuna með fullum afköstum, en það eru 30 mw. Fari hins vegar svo mót von að ekki hafi fyrir árslok náðst þetta gufumagn að fullu er unnt að reka stöðina í upphafi með minna afli.

Enda þótt horfið yrði að því ráði að fresta virkjuninni í eitt ár hníga öll rök að því að gufuborunum yrði haldið áfram skv. upphaflegri áætlun.

Nú er búið að reisa mannvirki, festa kaup á vélum og búnaði og gera samninga um marga þætti virkjunarinnar og mun þegar varið til Kröfluvirkjunar nokkru á annan milljarð kr. Eins og fram kemur í því, sem nú hefur verið rakið, gefa náttúruhamfarirnar í vetur ekki tilefni til þess að fresta virkjuninni. Samt sem áður verður hér gerð grein fyrir því hvaða útgjöldum væri hugsanlegt að fresta í ár ef ekki er hægt að koma virkjuninni í gang fyrr en síðla árs 1977.

Skv. lánsfjárskýrslu fyrir árið 1976 er áætlað fé til framkvæmda á vegum Kröflunefndar 2 778 millj. kr. Ráðgjafaverkfræðingar telja að unnt væri að fresta uppsetningu tækja og búnaðar, byggingaframkvæmdum og tengdum liðum að fjárhæð 356 millj. kr. Að því er tekur til gufuveitunnar telja ráðgjafaverkfræðingar Orkustofnunar að hægt væri að fresta til ársins 1977 útgjöldum að upphæð 153 millj. kr. Framkvæmdir við gufuboranir á svæðinu voru í framkvæmdaáætlun fyrir árið 1976 að upphæð 280 millj. kr. Enda þótt horfið yrði að því ráði að fresta framkvæmdum við sjálfa Kröfluvirkjun og gufuveitu í eitt ár er ekki talið fært að fresta borunum eftir gufu á svæðinu.

Kostnaður við háspennulínu frá Kröflu til Akureyrar er áætlaður 515 millj. kr. Fest hafa verið kaup á efni til línunnar. Þau kaup nema samtals um 300 millj. kr. Ef um frestun Kröfluframkvæmda um eitt ár væri að ræða yrði lækkun útgjalda um 215 millj. kr. sem er kostnaður við lagningu línunnar.

Samtals væri því hér um hugsanlega fjármagnsfrestun að ræða að upphæð 724 millj. kr.

Á hinn bóginn kemur til athugunar hverja annmarka slík frestun hefur í för með sér fjárhagslega. Er talið í fyrsta lagi að gera yrði ráð fyrir að kostnaður við framkvæmd þeirra verkþátta, sem frestað yrði til næsta árs, mundi hækka um a.m.k. 20%. Í öðru lagi mundu vextir á byggingartíma hækka sem svarar ársvöxtum af fjárfestingunni. Í þriðja lagi er um að ræða verulegt tekjutap vegna seinkaðrar gangsetningar. Og í fjórða lagi kemur til athugunar gjaldeyriseyðsla vegna dísilorkuvinnslu sem ég mun víkja að síðar.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Norðurland hefur búið við tilfinnanlegan orkuskort að undanförnu. Hann hefur m.a. komið fram í því að síðustu árin hefur þurft að neita fjölda umsókna um húshitun á þessu svæði. Og þegar alvarlegar truflanir hafa komið í Laxárvirkjun hefur stundum ríkt neyðarástand á þessu orkuveitusvæði. Orkuskortur hefur staðið iðnaði mjög fyrir þrifum. Þurft hefur að grípa til mikillar dísilorkuvinnslu með ærnum tilkostnaði. Síðustu mánuði ársins 1975 var álag dísilvéla að degi til nokkuð stöðugt á bilinu 10–12 mw. Frá áramótum s.l. hefur orkuframleiðsla með dísilvélum verið tvöfalt meiri en á sama tíma í fyrra þrátt fyrir það að engar teljandi rekstrartruflanir hafi átt sér stað vegna ístruflana í Laxá.

Vitað er að á Norðurlandi er vaxandi áhugi á aukinni raforkunotkun. Sem dæmi má nefna að Samband ísl. samvinnufélaga hefur leitað eftir kaupum á 10–12 mw. viðbótarafli fyrir iðnfyrirtæki sín á Akureyri. Þá hefur Kaupfélag Eyfirðinga leitað eftir möguleikum á raforkukaupum til hinnar nýju mjólkurstöðvar, 8–10 mw., breytilegt eftir árstíma. Einnig er áhugi á aukinni raforkunotkun til iðnaðar á öðrum stöðum Norðurlands, svo sem Húsavík, Sauðárkróki, Blönduósi, svo að nokkrir staðir séu nefndir, og gæti þar verið fljótlega um 5–6 mw. aflþörf að ræða. Hér er í flestum tilfellum um að ræða val milli innlendra orkugjafa og olíunotkunar. Það gefur auga leið að skipa þarf málum á þann veg að hinn innlendi orkugjafi verði fyrir valinu. Til þess að svo megi verða þarf að stefna að því að nægileg raforka verði fyrir hendi norðanlands þegar á næsta vetri.

Orkuvinnsla á Norðurlandi öllu að undanskildu Skeiðfossvirkjunarsvæðinu hefur s.l. þrjú ár verið sem hér segir: 1973 var heildarorkuvinnslan 171 gwst., þar af dísilorka 32 gwst. Árið 1974 var heildarorkuvinnslan 181 gwst., þar af dísilorka 16 gwst. Árið 1975 var heildarorkuvinnslan 201 gwst., þar af dísilorka 18.6 gwst.

Ljóst er af þessu að 1973 hefur dísilvinnslan verið með langmesta móti og stafar það að sjálfsögðu af því að veðrátta hefur verið miklu hagstæðari nú síðustu tvö ár. Á árinu 1977 er gert ráð fyrir að orkuþörfin verði ekki undir 280–300 gwst. Miðað við þessa orkuþörf og erfiðar aðstæður í Laxá, eins og koma oft, gæti þörfin á dísilorkuvinnslu numið allt að 70 gwst. á því ári. Er þá m.a. höfð hliðsjón af því að árið 1973 þurfti að framleiða 32 gwst. í dísilstöðvum.

Þegar hafðar eru í huga tíðar truflanir í Laxá verður dísilorkuvinnslu varla útrýmt og aukinni eftirspurn fullnægt nema Kröfluvirkjun taki til starfa svo fljótt sem verða má, því að jafnvel þótt kleift yrði að flytja um norðurlínu allt að 8 mw., leysir það ekki vandann nema að hluta til. Auk þess er rétt að taka fram að í lögum, eins og ég gat um í upphafi þessa máls, lögum um Kröfluvirkjun, er heimild fyrir lagningu stofnlínu til Austurlands. Er unnið að undirbúningi þeirrar linu og vitað um mikinn áhuga á að sú lina geti komið sem fyrst.

En til frekari skýringa á því, hvað er í húfi, skal ég nefna hér tölur um þá geigvænlegu gjaldeyriseyðslu og fjáraustur í dísilframleiðslu sem fram undan kynni að vera. Samkv. upplýsingum frá Rafmagnsveitum ríkisins er meðalframleiðslukostnaður á kwst. í dísilstöðvum um 13 kr. Af því er erlendur gjaldeyrir 2/3 hlutar. Verði ástandið þannig að á næsta ári þurfi að framleiða allt að 70 gwst. í dísilstöðvum, mundi kostnaðurinn verða um 900 millj. kr., þar af erlendur gjaldeyrir um 600 millj.

Gerður hefur verið samanburður á framleiðslukostnaði nokkurra virkjana og er þá miðað við að þær séu fullgerðar og fullnýttar og miðað við verð við stöðvarvegg, þannig að um sambærilegar tölur er að ræða. Niðurstaðan er sú að framleiðslukostnaður á kwst. í Sigölduvirkjun og Hrauneyjarfossi verði á bilinu 1.50 kr. til 1.80 kr., í Kröfluvirkjun um 1.80 kr., í Villinganesvirkjun í Skagafirði um 2.30 kr. Samkv. þessu er því framleiðslukostnaður Kröflu mjög sambærilegur við hagkvæmustu vatnsaflsstöðvar.

Því er haldið fram að með virkjun Kröflu sé stigið of stórt spor í einu. Ég vil í því sambandi undirstrika, vegna þess að mikill misskilningur hefur komið fram í því efni, að á s.l. ári var, eins og ég gat um áðan, ákveðið að byrja aðeins með annarri vélasamstæðunni sem er að afli 30 mw., en fresta hinni. því er haldið fram að með virkjun Kröflu sé stigið of stórt spor í einu og að við eigum að virkja á þann veg að afl og orka sé fullnýtt um leið og aflstöðin tekur til starfa, þ.e.a.s. að hægt sé þegar í stað að selja alla orkuna. Það er ekki hægt að fallast á þetta viðhorf. Það mundi leiða af sér næstum sífelldan orkuskort, lama atvinnulífið og valda erfiðleikum og óhagræði fyrir almenning.

Fyrr á árum kom þetta oft fyrir. En sem betur fer hefur önnur stefna orðið ríkjandi. Dæmi skal hér nefnt. Árið 1953 tók til starfa Írafossvirkjun í Sogi með 31 mw. afli. Þá jókst uppsett afl úr 23.6 mw í 54.6 mw eða um rúm 130%. Á sama ári var fullgerður annar áfangi Laxárvirkjunar með 8 mw. og óx þá aflið þar úr 4:6 mw í 12.6 eða um rúm 170%. Þessi stóru framfaraspor urðu til mikillar gæfu. Næg raforka var fyrir hendi hin næstu ár, á Suðurlandi í 6 ár, á Norðurlandi í 7 ár. Slík framsýni örvar framtak og framfarir. Atvinnureksturinn hefur öryggi fyrir orku á næstu árum, getur gert áætlanir og ráðist í nýjar framkvæmdir og endurbætur sem á orkunni byggjast.

Iðnrn. hafa borist samþykktir er lýsa viðhorfum heimamanna til Kröfluvirkjunar og þykir rétt að skýra frá þeim.

Bæjarstjórn Húsavíkur samþykkti einróma 12. febr. 1976 ályktun um orkumál, þar sem segir: „Bæjarstjórn Húsavikur leyfir sér enn á ný að minna stjórnvöld á að á Norðurlandi hefur um árabil ríkt raforkuskortur. Með tilkomu Kröfluvirkjunar og undirbúningi að Blönduvirkjun sér bæjarstjórnin fram á varanlega úrlausn þessa máls. Bæjarstjórnin óttast ekki offramleiðslu á raforku í landshlutanum og bendir á að til að iðnaður rísi þarf orka að vera fyrir hendi. Það er álit bæjarstjórnar Húsavíkur að jarðhitasvæði landsins séu sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, og fagnar hún því áformum um aukna nýtingu þeirra. Bæjarstjórn Húsavíkur þakkar Kröflunefnd fyrir óvenju röskleg vinnubrögð við uppbyggingu Kröfluvirkjunar og væntir þess að áfram ríki góð samvinna við heimamenn um þessa framkvæmd.“

Hreppsnefnd Skútustaðahrepps samþykkti nú fyrir nokkrum dögum, eða 31. mars s.I., með öllum greiddum atkv.:

„Með tilliti til þess, hve mjög hefur dregið úr skjálftavirkni á Kröflusvæðinu frá því sem var fyrr í vetur, sér sveitarstjórn Skútustaðahrepps ekki ástæðu til annars en að framkvæmdum við Kröfluvirkjun verði haldið áfram samkv. áætlun, og telur sveitarstjórnin það eitt brýnasta hagsmunamál norðlenskra byggðarlaga að fyrri vélasamstæða virkjunarinnar komist í gagnið í lok þessa árs, eins og áætlað hefur verið, enda þótt það sé að sjálfsögðu ákvörðun fjárveitingavaldsins á hverjum tíma hvernig verkefnum er raðað. Jafnframt vill sveitarstjórnin árétta að jafnan sé fyrir hendi viðbúnaður til að mæta hugsanlegum náttúruhamförum í nágrenni orkuversins.“

Það hefur verið staðhæft að rekstrarhalli Kröfluvirkjunar verði á ári 1 milljarður kr. Það er torvelt að átta sig á því hvernig þessi furðufrétt er til orðin. Helst hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að hún sé þannig til komin að ráðgjafaverkfræðingar Kröflunefndar hafi áætlað árleg útgjöld Kröflu, þegar hún er fullgerð, um 1 milljarð kr., en höfundar furðufréttarinnar og auðtrúa blaðamenn hafa sleppt tekjum af orkusölu Kröflu sem eru áætlaðar nokkru hærri upphæð.

Þegar menn höfðu búið til þennan halla með því að taka aðeins útgjöldin, en sleppa tekjunum, þá var skammt í næstu staðhæfingu: Halli hjá Rafmagnsveitum ríkisins verður líka 1 milljarður, þá eru komnir tveir. Hér mun líka hafa láðst að telja fram m.a. þann tekjustofn Rafmagnsveitna ríkisins, verðjöfnunargjaldið; sem skilar í ár a.m.k. 700 millj. kr.

Hins vegar er það svo að Rafmagnsveitur ríkisins hafa ekki um ár, heldur um áratugi átt við fjárhagsleg vandamál að glíma. Í því erindi um fjármál raforkufyrirtækja, sem mest hefur verið rangtúlkað og misnotað, kemst Jóhannes Nordal svo að orði um þetta mál:

„Hins vegar eiga Rafmagnsveitur ríkisins við ýmis sérstök vandamál að glíma vegna þeirra erfiðu verkefna sem þeim hafa verið fengin í hendur. Er þar fyrst að telja rafvæðingu sveitanna og annars strjálbýlis þar sem bæði stofnkostnaður og rekstrarútgjöld eru miklu hærri en í þéttbýlli hlutum landsins. Hefur RARIK því í reynd verið falið hvort tveggja í senn að reka raforkufyrirtæki á viðskiptalegum grundvelli og að veita félagslega þjónustu í formi raforkudreifingar og framleiðslu langt undir kostnaðarverði í þeim landshlutum þar sem aðstæður eru erfiðastar.“

Nú voru blaðamenn búnir að búa til halla á tveim vígstöðvum og var hvor upp á milljarð. Milljarðurinn var orðinn móðins. Þess vegna kom þriðji milljarðurinn til núna um helgina. Svo er mál með vexti að þegar fyrrv. ríkisstj. gerði samning við landeigendur í Þingeyjarsýslu og Laxárvirkjun var því lofað að byggður skyldi laxastigi á kostnað ríkisins, og nú fékk einn blaðamaðurinn þá snjöllu hugmynd og lét hana á þrykk út ganga að laxastíginn mundi líka kosta einn milljarð. Einn milljarður. „Það er taxtinn,“ sagði mætur maður í Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar.

Í rauninni ætti ekki að þurfa um það að deila að orkumálin, virkjun vatnsfalla og jarðhita, nýting innlendra orkugjafa, verða að hafa forgang. Þeirri stefnu hefur margsinnis verið lýst yfir af hálfu ríkisstj., og um þetta virðast flestir landsmenn sammála. En til þess að virkjanir verði að veruleika og eðlileg þróun megi verða í þeim málum þarf m.a. þetta þrennt: lánsfé til langs tíma, aukið eigið fjármagn og raunhæfa verðlagningu á seldri orku. Ef lánamarkaðir eru í öldudal eins og nú, lán lítt fáanleg nema til fárra ára, þá má ekki gefast upp og leggja árar í bát, heldur bregðast við með ábyrgð og manndómi, finna leiðir og axla byrðarnar. Það verður að taka hin skammvinnu lán, en stefna að því að breyta þeim við fyrsta færi og lengja þau með nýjum lántökum.

Þegar meta skal afkomu rafstöðvar ræðst hún m.a. mjög af lánskjörum, einkum lánstíma. Raforkuver endast yfirleitt langan aldur, eins og reynslan sýnir. Elliðaárstöðin í Reykjavík er orðin 55 ára og Ljósafossstöðin er nær fertug. Báðar eru í góðu gildi. Það er eðlilegt og nauðsynlegt að lán til byggingar rafstöðva séu til langs tíma svo að endurgreiðsla stofnkostnaðar dreifist á áratugi. Það er rangt að leggja slíka byrði á eina kynslóð á örfáum árum.

Sé þess krafist, að skilað sé aftur á 7 eða 10 jafnvel 15 árum stofnfé rafstöðva, verður greiðslubyrðin óhæfilega þung. Slík krafa er óeðlileg og tíðkast hvergi í raforkuiðnaði í öðrum löndum svo að vitað sé. Greiðslubyrði lána er dreift sæmilega jafnt yfir eðlilegan endingar eða afskriftatíma.

Lán til Sogsvirkjana voru yfirleitt til 20 ára. Stærsta lán til Búrfellsvirkjunar var til 25 ára. En fáist ekki lán til langs tíma þegar mannvirki er reist verður siðar að framlengja lán eða taka ný lán til að lengja lánstímann. Endurfjármögnun er óhjákvæmileg. Þessi aðferð er iðulega viðhöfð innanlands og utan og ég skal taka nýleg dæmi.

Í jan. 1974 var gengið frá láni af hálfu Landsvirkjunar vegna virkjunar Sigöldu. Lánsupphæðin var 30 millj. dala. Lánið er til 10 ára, afborgunarlaust fyrstu 7 árin, en greiðist síðan þannig að 3 millj. dala. skulu greiddar ár hvert: 1981, 1982 og 1983, en eftirstöðvarnar, 21 millj. dala, skal greiða á árinu 1984. Þegar samið var um þetta lán þótti ljóst að breyta yrði greiðslu þeirri sem átti að fara fram á árinu 1984. Þetta var rætt við lánveitendur, en ekki gengið frá því hvernig lánabreyting yrði. Heildarkostnaður Sigölduvirkjunar er nú áætlaður nær 13 milljarðar. Miðað við gengi dollars í dag er sú greiðsla, sem fram á að fara á árinu 1984, 3.7 milljarðar ísl. kr. eða rúm 28% af virkjunarkostnaðinum. Í áætlunum sínum gerir Landsvirkjun ráð fyrir að sú upphæð, sem fellur í gjalddaga árið 1984, dreifist á 4 ár.

En fyrirgreiðsla til að létta greiðslubyrði jafnvel af mjög hagkvæmum virkjunum hefur einnig verið með öðrum hætti. Þannig hefur ríkissjóður veitt Landsvirkjun svonefnd „viðvíkjandi lán: Slík lán, sem Landsvirkjun hefur tekið hjá ríkissjóði, eru tvö. Það fyrra var tekið árið 1967, að upphæð 200 millj. kr., þar af 127 millj. í ísl. kr., en afgangurinn í erlendri mynt. Hið síðara, að upphæð 300 millj., er allt í — erlendri mynt. Þessi lán eru þess eðlis og þannig um þau samið að vextir og afborganir af þeim greiðast þá fyrst þegar hreinar tekjur að viðbættum afskriftum ná því að vera jafnar eða einum og hálfum sinnum hærri en heildargreiðsla vaxta og afborgana af öðrum lánum. Til þessa hafa hvorki afborganir né vextir verið greidd af lánum þessum, en vextir bæst við höfuðstól, og í árslok 1975 nam höfuðstóll þessara tveggja lána 1446 millj. kr.

Ég hef rakið hér nokkuð nauðsynina á því að lán verði til langs tíma og ef þau fást ekki þegar virkjun er byggð, þá verði síðar að breyta þeim, „konvertera“ sem kallað er, lengja lánin.

Í annan stað verða eigendur orkuvera, ríki og sveitarfélög, að huga að því hvernig unnt sé að afla fjár til að leggja fram fjármagn, ekki sem lánsfé, heldur sem stofnfé. Til þess þarf væntanlega að leita nýrra tekjustofna.

Í þriðja lagi þarf að haga gjaldskrám orkuvera þannig að þeim gefist kostur á að safna nokkrum sjóði til endurnýjunar og stækkunar. Borgarstjórn Reykjavikur hefur hagað fjármálum Hitaveitu Reykjavíkur á þann veg. Hún hefur hækkað gjaldskrá Hitaveitunnar á hálfu öðru ári úr 22.76 kr. fyrir hvert tonn upp í 54 kr. eða um rúmlega 120%. Þetta er að nokkru leyti til þess gert að standa undir stækkun þessa þjóðþrifafyrirtækis.

Ný viðhorf og ný vinnubrögð eru nauðsynleg á mörgum sviðum í þessu þjóðfélagi. Í orkumálum þarf að taka upp skipulagða kynningu á þeim möguleikum sem raforkuver og hitaveitur hafa að bjóða til þess að leysa af hólmi erlenda orkugjafa. Það þarf að hvetja atvinnurekstur og einstaklinga til þess að hverfa frá notkun olíu og nota í hennar stað rafmagn, heitt vatn og jarðgufu þar sem þess er kostur, og það þarf að skýra hverra kosta er völ fyrir nýjar iðnaðarhugmyndir. Hér er mikið og þarft verk að vinna, mikilvægt fyrir öll héruð þessa lands, en mikilvægast fyrir íslensku þjóðina alla.