06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3038 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

178. mál, veiting prestakalla

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Út af síðustu orðum hv. 4. þm. Vestf. vil ég segja það, að ég vænti þess að hv. þm. verði það víðsýnir að þeir felli þessa till.. vegna þess hvernig þetta mál hefur verið túlkað og allur tónn í þeim. sem talað hafa fyrir þessu máli, fyrir þessari till., — einmitt af því tel ég að hv. þm. ættu að vera það víðsýnir að fella hana.

Það er að vísu slæmt að hv. 1. flm. þessa máls og sá aðili sem hafði, að ég hygg, allan veg og vanda af því hér, mælti fyrir því, að hann skuli nú vera fjarri. og líka slæmt að þetta skyldi ekki koma upp á þeim tíma sem við höfðum annan þjónandi guðsmann hér innan þingsins. (Gripið fram í.) Ég meinti nú á öðru starfssviði eða starfsvettvangi. Ég vænti þess að þó að þessi hv. þm., sem nefndur var sem guðsmaður, sé starfandi á þessu sviði, þá takist honum ekki að hafa þau áhrif á hv. þm. að hann fái þá til fylgis við þá meginstefnu sem hann túlkaði í þessum málum. En við höfum hér eigi að síður enn einn hv. þm. sem er guðfræðingur, og það er alltaf æskilegt að sjónarmið úr þeirri átt og kannske má segja frá þeim aðilum, sem gleggst ættu að vita um málefnin, geti komið fram.

Ég varð þess var, eftir að umr. áttu sér stað hér á Alþ. fyrir nokkru einmitt um þetta mál og nokkrir þm. höfðu talað, þá var eins og það virtist vekja undrun bæði sumra blaða og fjölmiðla eins og ríkisútvarps og sjónvarps, að þm. skyldu láta sig það skipta, hvernig farið væri með málefni kirkjunnar, og ræða um hvort þeir létu sér það lynda að tekinn væri kosningarréttur af sóknarbörnum hringinn í kringum landið og sá réttur settur í hendur örfárra einstaklinga til þess að velja eða útnefna, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, — útnefna sálusorgara fyrir almenning. Mér finnst það ekkert skrýtið þó að þm. verði tíðrætt um mál sem þetta. Ég er a.m.k. þeirrar skoðunar, að ef af slíkri breytingu verður eins og grunntónn þessarar þáltill. er, að afnema almennan kosningarrétt hjá fólki til þess að velja sér sóknarprest, þá er hér að mínu viti um afgerandi mál að ræða, stórmál í mínum huga.

Það kom fram af minni hálfu strax, þegar þetta mál var rætt hér fyrst, að ég er algerlega andvígur því að afnema kosningarrétt fólks til að velja sér prest, — algerlega andvigur því. Og vegna þess hvernig grg. er, sem þessari þáltill. fylgir, og ekki síður vegna hins, hvernig á þessu máli hefur verið haldið af hálfu þeirra sem það flytja og styðja, þá mun ég greiða atkv. gegn þessari þáltill., því að það hefur gengið í gegnum allar ræður þeirra aðila sem þetta mál styðja að það er grundvallaratriðíð í þeirra huga að afnema kosningarréttinn. Það er grundvallaratriðið, grundvallartónninn í öllum þeim ræðum sem fluttar hafa verið hér þessari þáltill. til stuðnings. Þess vegna mun ég greiða atkv. gegn henni. Síðast kom þetta fram í framsöguræðu hv. þm. Ellerts B. Schram þegar hann mælti hér fyrir nál. allshn. Að vísu sagði hann að þetta væri sín persónulega skoðun, hann mælti ekki hér fyrir hönd n., en eigi að síður, grunntónninn var þessi.

Hv. þm. Páll Pétursson vitnaði hér í nokkrar umsagnir sem borist höfðu þegar frv. var hér til afgreiðslu 1973–1974. Þar kom í ljós að héðan af þéttbýlissvæðinu mesta, hafi ég tekið rétt eftir, komu andmæli gegn þessari breytingu sem hér er verið að tala um að gera á prestskosningalögunum. Andmælin eru ekki siður a.m.k. héðan af þéttbýlissvæðunum, af þeim svæðum sem sumir hv. þm. við fyrri umr. þessa máls sögðu að væri þannig ástatt um, að í prestskosningum á þessu svæði væru laðaðar fram allar lægstu hvatir manneskjunnar. En þó er á þessu svæði andmælt þessari breytingu.

Ég er ekki sammála því, sem hv. þm. Ellert B. Schram sagði hér áðan, að þessu eigi að breyta og breyting í þessa átt komi í veg fyrir deilur varðandi presta og kosningu þeirra. Ég á a.m.k. eftir að sjá að það verði ekki uppi sams konar deilur eins og sagt er að verið hafi, — ég segi: sagt er, vegna þess að ég þekki það ekki sjálfur, veit ekki dæmi þess af eigin reynd að miklar deilur hafi átt sér stað. En ég þykist vita það fyrir fram að sams konar deilur og sagt er að uppi séu núna í prestskosningum koma upp með kjörmannakerfinu, hinn vinsæla sem sumir telja nú. Það er enginn vafi á því að þar verður togast á milli hinna tiltölulega fáu einstaklinga sem þarna eiga að fá að ráða málum fyrir allan fjöldann, þannig að það er ekki nokkur vafi á því að verði þessu breytt, þá halda áfram deilur um þetta.

Menn hafa hér spurt að því hvort Alþ. bæri ekki að fara að vilja Kirkjuþings. Því aðeins ber Alþ. að fara að vilja Kirkjuþings að alþm. sjálfir telji að það sé rétt. Og ég er einn af þeim sem telja að þetta sé rangt, að breyta á þennan hátt, þrátt fyrir það að Kirkjuþing hafi mælt með því. Hv. þm. Ellert B. Schram hefur haldið því fram hér, að vísu í öðrum tilvikum, að þm. og Alþ. í heild tekið eigi ekki að láta segja sér fyrir verkum af aðilum utan úr bæ. Ef þetta er hans skoðun, þessa hv. þm., þá hlýtur það að gilda að mínu viti einnig um Kirkjuþing. Það á ekki að segja hér fyrir verkum. Það á hver og einn þm. að mynda sér skoðun um viðkomandi málefni og taka afstöðu til þess samkv. sinni skoðun. Og það á ekki síst við um þetta.

Ég er sammála því, sem kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni, að ég lít svo á að með breyt. í þessa átt, eins og hér er talað fyrir, sé verið að auka vald biskups og ráðh., taka valdið úr höndum almennings og færa það kannske fyrst og fremst í hendur tveggja manna. En hvað segja þeir hv. þm. sem mæla svo eindregið með að breytt verði í þessa átt? Vilja þeir afnema núv. fyrirkomulag um kosningu biskups? Vilja þeir samhliða slíkri breyt. gera þá breyt. að t.d. biskup yrði kjörinn á sama hátt og forseti? Eru menn reiðubúnir til þess? Hvað ætli prestastéttin segði við því? Ætli hún yrði til þess reiðubúin? Ef ég man rétt, þá leiddi annar þátttakenda í sjónvarpsþætti hér ekki alls fyrir löngu, þar sem fyrst og fremst átti að ræða um þetta mál, biskupsritari, hjá sér að svara þessari spurningu. Ég man ekki betur en hann leiddi hjá sér að svara þeirri beinu spurningu sem til hans var beint. Hvað ætli prestar og Kirkjuþing mundu segja við því að afnema núv. kerfi við kosningu biskups? Ég skal ekkert um það fullyrða hver afstaða þessara aðila yrði. En það væri gaman að fá um það einhverja vitneskju hver hugsanagangur í þeim herbúðum er til slíkra breytinga.

Ég færi ekki hv. allshn. neinar þakkir fyrir að mæla með þessari þáltill. Það er siður en svo. Það er þveröfugt. Það ætti frekar að setja ofan í við hana heldur en færa henni þakkir fyrir það. Og hvort sem mönnum þykir það frjótt eða ekki frjótt hér á Alþ. að fara að ræða um störf presta, þá er það einmitt það fyrst og fremst sem ræður afstöðu almennings til prests, hvernig slík þjónusta er innt af hendi sem þessi einstaklingur á að annast og menn vilja almennt fá að ráða sjálfir hver hann er. Ég tel vel koma til greina að setja inn í löggjöf tiltekinn árafjölda sem viðkomandi prestur ætti að vera í embætti og síðan yrði kosning aftur tekin upp, þannig að það væri ekki um æviráðningu að ræða.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti. En ég ítreka að á grundvelli þess tals, sem talsmenn þessarar þáltill. hafa haldið uppi, og sjáandi fyrir mér hvert þeir stefna til breyt., þá mun ég greiða atkv. gegn þessari þáltill.