06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3041 í B-deild Alþingistíðinda. (2504)

178. mál, veiting prestakalla

Jón Helgason:

Herra forseti. Í þáltill. þeirri sem hér er til umr., er lagt til að kjósa nefnd þm. til að endurskoða lög um veitingu prestakalla sem nú er orðin um 60 ára gömul. Ég held að flestir hljóti að viðurkenna að slíkt er ekkert óeðlilegt. Hins vegar kom það fram í framsöguræðu hv. 1. flm. þessarar þáltill. að hann hafði fyrst og fremst í huga eina ákveðna breytingu, þ.e. afnám almennra prestskosninga.

Hv. 1. þm. Norðurl. e., sem einnig er flm. þessarar þáltill., sagði aftur á móti í ræðu sem hann flutti þá, að hann hefði ekki endilega slíkt í huga. Hann teldi hins vegar ekki óeðlilegt að verða við þeim óskum sem fram hefðu komið um að endurskoða þessi mál og þess vegna væri hann meðflm. að till.

Ég vildi aðeins láta það koma fram að afstaða mín er svipuð og hv. 1. þm. Norðurl. e. þegar ég skrifa undir þetta nál. Þess vegna kvaddi ég mér hér hljóðs, að ég vildi mótmæla því að með því að skrifa undir þetta nál. væri ég að lýsa því yfir að ég væri samþykkur þessari breytingu sem hvergi er minnst á í þáltill., en hér hefur orðið svo mjög tíðrætt um. En ég tel að það sé ekkert óeðlilegt að þessi meira en 60 ára gömlu lög séu skoðuð eitthvað og það sé þá einnig skoðað hvort ekki megi breyta þeim eitthvað á þann veg að allir geti verið ánægðari með það fyrirkomulag, sem nú er, jafnvel þó að það sé ekki afnumið. Meira að segja kom það fram í ræðu hv. 5. þm. Vestf., sem talaði hér næst á undan og er mjög andvígur þessari till., að hann teldi að það væri ekkert óeðlilegt að gera einhverja breyt. t.d. þá að kosning gilti aðeins tímabundið skeið. Ef hann hallast að því, hvernig á að gera það öðruvísi heldur en að breyta eitthvað lögunum. Ég held að það sé þess vegna ekki hægt að slá því föstu eða ég vil a.m.k. ekki að það sé gert, að meðmæli mín með samþykkt þessarar till. verði túlkuð sem eindregið fylgi við afnám prestskosninga.