06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3044 í B-deild Alþingistíðinda. (2508)

178. mál, veiting prestakalla

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það fór eins og vænta mátti að nál. allshn. út af þessari till. hefur farið mjög fyrir brjóstið á sumum hv. alþm., eins og heyra hefur mátt af ræðum þeirra.

Hv. 5. þm. Vestf. sagði m.a. að Kirkjuþing ætti ekki að segja fyrir verkum í þessu máli, og má það að vísu til sanns vegar færa. En ég vil nú samt ráðleggja honum, fyrst hann er svona vel að sér eins og hann lýsti í lögum um veitingu prestakalla, að líta jafnframt yfir lögin um Kirkjuþing því að þar segir svo í 14. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Kirkjuþing hefur ráðgjafaratkvæði og tillögurétt um öll þau mál er kirkju, klerkastétt og söfnuði landsins varða og heyra undir verksvið löggjafarvaldsins eða sæta forsetaúrskurði.“ Þessi fullyrðing hans fær því engan veginn staðist og rýkur út í veður og vind eins og fleira sem af hans vörum fauk.

En þegar hann hélt ræðu sinni lengra áfram, þá kom það glögglega í ljós, eins og hv. 4. þm. Suðurl. benti á, að hann var alls ekki fjarri því að láta endurskoða þessi 60 ára gömlu lög. M.a. kvaðst hann tilbúinn til að taka til athugunar að prestur yrði kjörinn til tiltekins tíma. Fleira mætti benda á úr ræðu hans þó að það verði ekki gert að sinni.

Hv. 4. þm. Suðurl. talaði skynsamlega um málið og á svipaðan hátt hv. 5. þm. Reykn., þ.e.a.s. að þeir rugla ekki saman formi og efni. Þessi till., eins og ég benti á við 1. umr. málsins, fjallar fyrst og fremst um það að láta endurskoða þessi gömlu lög, en ekki á hvern hátt það verði gert. A.m.k. hefur það komið glögglega .fram af máli manna sem annars eru samþykkir því sem hv. allshn. leggur til í málinu. Já, hv. 3. þm. Austf. leit nú fram hjá þessu atriði og fór rakleitt að ræða um afnám prestskosninga og tók til orða eitthvað á þá leið að hér ætti ekki að ræna fólk þeim rétti að velja sér sálusorgara. Það kom nú engum á óvart þó að þessi hv. þm. vildi velja sér góðan og gegnan sálusorgara að eigin mati. En honum fór sem öðrum, honum fór sem hv. 5. þm. Vestf., að hann sagði að það kæmi til álita að endurskoða þessi lög, m.a. að til mála kæmi að klerkar þyrftu að ganga undir kosningu á 4 ára fresti eins og alþm. Það hefur sem sé komið fram af máli þessara tveggja hv. alþm., sem ég hef hlýtt á og andmæla þessari till, að þeir geta báðir fallist á að endurskoða lögin.

Það er kannske ekki ástæða til þess að fara miklu fleiri orðum um málið á þessu stigi. Það var gert nokkuð við fyrri umr. Þó er rétt að benda hv. alþm. á að áfellast ekki allshn. svo mjög fyrir álit hennar, heldur líta yfir grg. áður en þeir greiða atkv. um þetta mál. En þar er bent á að Kirkjuþing hafi a.m.k. fjórum sinnum mælt með breyt. á þessum lögum. (Grípið fram í: Slíkri breytingu.) Já, að vísu slíkri breytingu. Það má heyra að hv. þm. hefur lesið grg. (Gripið fram í.) En það má jafnframt heyra að þeir, sem vilja láta endurskoða þessi lög, eru ekki allir endilega á sama máli og fulltrúar á Kirkjuþingi. En aðalatriðið í þessu er það, að miðað við lögin um Kirkjuþing tel ég eins og fleiri alþm.Alþ. geti ekki skotið sér undan því að taka þetta mál til alvarlegrar athugunar og afgreiðslu og því sé ég ekki annað en það sé ráð að fallast á till. eða álit allshn.