06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3045 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

178. mál, veiting prestakalla

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég get ómögulega sleppt þessu tækifæri til að taka þátt í umr. um þetta mál rétt einu sinni.

Menn hafa látið þau orð falla hér að í þessu sambandi skiptu prestskosningar engu máli því að till. fjallaði alls ekki um þær. Þetta minnir mig á það að þegar Jón Hreggviðsson kom til Árna Magnússonar eða Arnas Arnæus til að ræða sin mál, þá sagði Arnas Arnæus við Jón Hreggviðsson: „Í þínu máli gildir einu um Jón Hreggviðsson.“ Þá sagði Jón Hreggviðsson: „Ha“ — og skildi ekki hvað hann var að fara. Og eins fer mér núna þegar ég heyri þennan málflutning, því að í lögum um veitingu prestakalla, nr. 82 frá 1915, er ekkert atriði um annað en prestskosningu og framkvæmd hennar, eins og allir menn hljóta að hafa séð sem lesið hafa lögin.

Menn tala um að það megi breyta þessu, og það getur vel verið að það megi breyta fyrirkomulaginu.

„Þegar prestakall losnar auglýsir biskup það með hæfilegum umsóknarfresti,“ segir í 1. gr. Það má vafalaust breyta þessu að það eigi ekki að auglýsa prestaköll.

2. gr.: „Kjörskrá skal vera þannig löguð að á henni séu 5 dálkar fyrir töluröð kjósenda.“ Það má vel vera að þessir dálkar megi vera fleiri eða færri.

3. gr.: „Nú telur einhver sér ranglega sleppt af kjörskrá eða einhver ranglega tekinn á hana, og skal hann þá kæra bréflega fyrir sóknarnefnd áður en vika sé liðin“ o. s. frv. Það getur vel verið að þetta eigi að vera hálfur mánuður eða jafnvel 3 dagar.

4. gr.: „Þegar sóknarnefnd hefur gengið til fullnaðar frá kjörskrá sendir hún prófasti skýrslu um tölu atkvæðisbærra manna í sókninni“ o.s.frv. Þessu má eflaust breyta.

5. gr.: „Þá er umsóknarfrestur er á enda sendir biskup landsstjórninni skýrslu um það, hverjir sótt hafi.“ Það er óþarfi, það má lesa það í blöðunum.

6. gr.: „Sóknarnefnd stýrir kosningu í sókn hverri.“ Það geta aðrir gert.

7. gr.: „Nú er komin kjörfundardagur, og skal þá kjörstjórn koma á fundarstað á tilsettum tíma.“ Það er ekkert nauðsynlegt, það má vel láta kjósendurna bíða.

8. gr.: „Kjörstjórn skal hafa gerðabók er sérstaklega sé til þess gerð og löggilt af biskupi, kjörskrá og atkvæðakassa með sömu gerð og atkvæðakassar við alþingiskosningar.“ Þeir geta vel verið öðruvísi, kassarnir.

9. gr.: „Oddviti kjörstjórnar skýrir kjósendum frá því í fundarbyrjun hverjir séu í kjöri.“ Þetta eiga menn náttúrlega að vita.

10. gr.: „Áður en atkvgr. hefst skal kjörstjórnin opna atkvæðakassann og sýna kjósendum og umsækjendum, eða umboðsmönnum þeirra, að kassinn sé tómur.“ Ja, ef menn vilja ekki trúa því, þá náttúrlega eiga þeir rétt á að skoða það sjálfsagt.

11. gr.: „Þeir, sem neyta vilja atkvæðisréttar síns, verða að sækja kjörfund sjálfir.“

12. gr.: „Í Reykjavík og öðrum stöðum og sóknum landsins, þar sem eru 1000 kjósendur eða fleiri, má kjósa á fleirum en einum stað.“ Þetta er alveg óþarfi.

13. gr.: „Þegar kosningarathöfn er lokið hvolfir kjörstjórn seðlunum úr atkvæðakassanum í umslög, sem til þess eru ætluð, og setur innsigli sín fyrir.“ Þessu má breyta.

14. gr.: „Kærufrestur yfir kosningu er 3 dagar.“ Af hverju 3 dagar? Af hverju ekki 4 dagar eða 5 dagar? (Gripið fram í.) Jú, ef það er þetta sem menn hafa í huga að breyta, þá er um að gera að samþ. till.

15. gr.: „Yfirkjörstjórn skipar biskup landsins og tveir menn aðrir er stjórnarráðið skipar til 5 ára í senn.“

16. gr.: „Reynist miklir gallar á undirbúningi eða framkvæmd kosningar, enda hafi yfir því verið kært, getur landsstjórnin að fengnum till. yfirkjörstjórnar ónýtt kosninguna og fyrirskipað nýja.“

17. gr.: „Hafi helmingur kjósenda í prestakallinu greitt atkv. á kjörfundi og fái einhver umsækjanda meiri hl. greiddra atkv., er hann kjörinn prestur og fær veitingarbréf ráðh. fyrir prestakallinu. Annars er stjórnin ekki bundin við atkvgr., og leitar hún þá till. biskups um það, hverjum umsækjenda kallið skuli veitt.“ Þetta má líka endurskoða sjálfsagt.

18. gr. fjallar um það ef aðeins er einn umsækjandi o.s.frv.

19. gr. fjallar um það að enginn, sem kosið hafi skriflega, sé skyldur til að skýra frá því fyrir rétti hvernig hann hafi neytt atkvæðisréttar síns.

20. gr.: „Hvorki kjörstjórnarformaður né nokkur annar, sem í kosningastofunni er staddur, má beinlínis eða óbeinlínis hvetja nokkurn kjósenda meðan á kosningu stendur til þess að kjósa einn umsækjanda öðrum fremur.“

21. gr.: „Landssjóður stendur straum af útbúningi kjörseðla og útvegun atkvæðakassa til hvers prófastsdæmis.“

Þetta eru lögin. Þetta eru lögin sem við erum að tala hér um, og ég skil ekki að menn geti haldið því fram að það sé í raun og veru um neitt annað að ræða við endurskoðun á þessum lögum heldur en að afnema þessar kosningar. Það hlýtur að vera það sem vakir fyrir flm. og það sem allshn.- menn eru að fallast á með því að leggja til að þessi till. verði samþ. Ég sagði við fyrri hluta umr. um þessa till. að ég hefði ekkert á móti því að þetta yrði skoðað, og nú er ég búinn að skoða þetta og ég er alveg sannfærður um, að það getur ekkert annað vakað fyrir flm. till. en að afnema prestskosningar, og þess vegna er ég á móti till.