05.11.1975
Efri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

40. mál, almannatryggingar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. fyrra flm., að þetta er gamalt mál sem mikið hefur verið rætt Endurskoðunarnefnd tryggingalaganna, sem um það fjallaði, gerði sér alveg ljósa þá nauðsyn sem er á því að fá einhver ákvæði um greiðslu í þessu skyni. Þó var það svo að þetta hefur ekki enn náð fram að ganga. En ég á von á því að Tryggingastofnun ríkisins hafi nú undanfarið kynnt sér nokkuð líklegan kostnað við framkvæmd þessa máls, og vona að eitthvað hafi áunnist í því að gera sér frekari grein fyrir hver sá kostnaður mundi verða.

Ég kom nú hér upp fyrst og fremst til þess að upplýsa það að nú í ár veit ég ekki betur en það hafi að hluta til verið komið á móti þessu, þó ekki á þann hátt að greitt væri fyrir ferðakostnaðinn, en á þann hátt að ferðum sérfræðinga út um landið mun hafa verið stórfjölgað og á þann hátt ættu færri að þurfa að leita til Reykjavíkur til sérfræðings. Landlæknir hefur mikinn hug á því að auka þessa þjónustu í ríkum mæli, og þegar ég átti tal við hann nýlega um þessi mál taldi hann að þetta kæmi að allmiklu haldi og að hann hefði mikinn hug á því að auka ferðalög sérfræðinga út um landið til stórra muna.

Eins og getið var um áðan, þá að vísu breytist þetta aftur þegar fjórðungssjúkrahúsin koma í gagnið og nýtískulegar heilsugæslustöðvar. Eftir því er alllangt að bíða. Ég hef trú á því að þrátt fyrir þá örðugleika, sem nú steðja að, muni sú n., sem fjallar um endurskoðun á tryggingalöggjöfinni, taka þetta mál til yfirvegunar á ný og finna einhverja víðunandi lausn á því.