06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3049 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

178. mál, veiting prestakalla

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég er fyllilega sammála hæstv. utanrrh. í skilningi hans á störfum allshn. Samkvæmt þeirri grg., sem fylgir till., samkvæmt eðli laganna o;g samkvæmt þeim umr., sem fylgismenn og flm. málsins hafa haft í frammi, þá liggur það alveg ljóst fyrir að þessi endurskoðun stefnir að engu öðru en því að taka kosningarréttinn af söfnuðunum. Að því er nægilega skýrt vikið, að mér finnst, til þess að það sé ómögulegt að misskilja það.

Það hefur komið hér fram hjá Gunnlaugi Finnssyni að hann leggur ofurlítið annan skilning en ég í þennan félagsskap, kirkjuna. Ég lít svo á að söfnuðurinn sé grundvallarfélagseiningin, en ekki Kirkjuþingið. Mér líst svo á að söfnuðirnir séu grundvallarfélagseiningar, söfnuðirnir sameinast í prestaköll, prestaköllin í prófastsdæmi o.s.frv., o.s.frv. (Gripið fram í: Ekki stjórnar Kirkjuþingið söfnuðum.) Nei, nei. En ég er að meina það að val mannanna hlýtur að koma að neðan, og valdið á vali prestsins á að koma að neðan. Með breytingu í þessa átt er það rökrétt að valdið á vali prestanna færist á færri manna hendur. Gunnlaugur Finnsson er reyndur félagsmálamaður og samvinnufrömuður. Ég veit ekki hvort það verður tekið óstinnt upp að fara að líkja þessu við uppbyggingu samvinnuhreyfingarinnar. En þetta er með nokkuð svipuðum hætti. Það er hin virka þátttaka hins almenna félagsmanns sem máli skiptir. (Gripið fram í.) Já, en stjórnirnar ráða ekki deildarstjórana. Stjórnirnar ráða kaupfélagsstjóra, rétt er það, en stjórnirnar ráða ekki deildarstjórana. Þar ræður deildin sjálf.

Hvort það sé ósæmilegt fyrir Alþ. að vera að fetta fingur út í vilja Kirkjuþings, — ég get ekki fallist á þá skoðun að það sé nokkuð ósæmilegt við það. Auðvitað ber okkur að hlusta eftir vilja Kirkjuþings og skoða hann vinsamlega í hvert skipti og í hverju máli, en að víð séum skyldugir til að fara í einu og öllu eftir vilja Kirkjuþings um kirkjuleg málefni, það er ég ekki tilbúinn að viðurkenna. Ég hygg að það mundi standa í ýmsum á hv. Alþ. að láta Búnaðarþing t.d. einrátt um málefni landbúnaðarins. að ályktanir Búnaðarþings yrði teknar gjörsamlega sjálfkrafa sem ályktanir Alþ. Það mundi standa í mér að taka ályktanir Verslunarráðs um málefni verslunarinnar gjörsamlega sjálfkrafa sem sjálfsagðar ályktanir Alþ. Það er vafalaust margt í kirkjunnar málefnum sem ástæða væri til að endurskoða og ástæða fyrir Kirkjuþing að belta sér fyrir og óska breytinga á. Kirkjan er fornbýl stofnun og býr að gömlum lögum. Og það er henni raunar heiður. Sumir hlutir verða úreltir og tíðarandinn breytist talsvert mikið á löngum tíma, en 60 ár er ekki langur tími í sögu kirkjunnar, ég er ekki fáanlegur til þess að viðurkenna það. Segjum að Kirkjuþing kæmi sér t.d. saman um það á næsta hausti að Alþ. taki til athugunar eitthvað af hinum fyrri málum, eitthvað af hinum eldri lagaákvæðum um kirkjumál, t.d. eins og konungsbréf um legorð presta frá 1646, ellegar þá dönsku lög Kristjáns V frá 1683, þar sem segir: „Hver sá prestur, er gengur að eiga konu er annar maður hefur legið, eða hefur samrekkt konu sinni áður en þau voru gefin saman, skal að undangenginni löglegri málsókn hafa fyrirgert embætti.“ Það er ómögulegt fyrir prestana að búa við þetta. Ef að Kirkjuþing færi fram á við okkur alþm. að gera nú úrbætur þarna samkvæmt tíðarandanum, — ég er ekki að hvetja til neinnar lausungar eða spillingar, þið megið ekki misskilja það. en tíðarandinn er bara orðinn nokkur annar en þegar þessi lög voru rituð á bók, — þá teldi ég ekki vansalaust ef Alþ. yrði við þeirri bón.