06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3052 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

178. mál, veiting prestakalla

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég lýsi víðhorfum mínum hér við fyrri umr. þessarar till. og mín viðhorf eru óbreytt. Ég vil aðeins láta í ljós undrun mína yfir því sem mér finnst einna líkast fullkominni meinloku í höfði margra þeirra hv. þm. sem hér berjast hnúum og hnefum gegn því að þessi þáltill. á þskj. 367 um endurskoðun á lögum um veitingu prestakalla verði afgreidd frá Alþ. eins og venjuleg þingmál. Ég satt að segja skil ekki þetta. Mér finnst felast í þessu einhver undarlegur ótti og dæmalaus íhaldssemi. Já, fyrr má nú vera íhaldssemin að vilja ekki ljá máls á því að lofa nefnd manna að endurskoða 60 ára gömul lög. Um leið felst í þessari afstöðu að mínu mati allt að því gerræðisleg tilhneiging viss hluta hv. alþm. til þess að verða ekki við óskum fjölmargra borgara í landinu um að Alþ. taki afstöðu til ákveðins máls, og ég sé ekki að þetta sé okkur alþm. sæmandi. Það liggur í hlutarins eðli að það er ekki þessi n., sem till. gerir ráð fyrir, sem á að ákveða eitt eða neitt um það hvort prestskosningar verði afnumdar eða ekki. Að sjálfsögðu á málið eftir að koma fyrir Alþ. aftur, og það eru alþm. sem þá taka afstöðu um það, hvaða skipan við viljum hafa á þessu máli. Það er engu líkara en þessi hópur hv. þm. ímyndi sér að þeir verði heilaþvegnir milli þinga, að þeir missi réttinn til þess að taka afstöðu til nýs máls sem væntanlega kæmi fram að athugun þessarar nefndar lokinni.

Ég vil því ítreka fyrri afstöðu mína og það sem ég hef sagt hér: Mér finnst það fyrir neðan virðingu Alþ. að skella skollaeyrum við ítrekuðum óskum Kirkjuþings sem ég vil ekki telja ómerkari stofnun en hverja aðra í okkar þjóðfélagi, nema síður væri. Þess vegna er það tvímælalaust skylda okkar að leyfa þessari þáltill. að koma til framkvæmda, og síðan kemur svo að okkar mati seinna meir að ákveða hvort og hvernig við viljum breyta núverandi skipan á þessum málum, þ.e.a.s. hvort víð viljum afnema prestskosningar eða hvort við viljum það ekki. Eins og hér hefur komið fram, þá geta margvíslegar breytingar komið fram sem þyrftu ekki tvímælalaust að afnema þær með öllu. En endurskoðun á þessum lögum getur alla vega ekki skaðað og endanlega verður það Alþ. sem ræður hver árangur verður af þessari endurskoðun.