07.04.1976
Efri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3072 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

237. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um breyt. á lögum frá 1972, um tekjustofna sveitarfélaga.

Fyrsta breyt. er við 15, gr. laganna, að heimilað skuli að greiða úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga aukaframlög til sveitarfélaga sem verða fyrir fjárhagstjóni vegna laga nr. 94 30. des. 1975, um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Þegar það frv. var til umr. á Alþ. kom sá ótti fram af hálfu sumra sveitarfélaga að þessi tilflutningur gæti orðið einstökum sveitarfélögum fjárhagsbyrði. Í sambandi við það gaf ég þá út yfirlýsingu um að ef til slíks kæmi mundi verða greitt fyrir því að þau sveitarfélög fengju aukaframlag til að bæta upp það tjón. Er þetta frv. flutt í framhaldi af og samræmi við yfirlýsingu mína á Alþ. 19. des. s.l.

Þá eru gerðar till. um nokkrar fleiri breyt. á 15. gr. laganna í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga og eru þær breyt. nánar skýrðar í grg. frv.

Einnig er till. um breyt. á 16. gr. laganna. Það er í sambandi við svokallað fólksfækkunarframlag, en svo er ákveðið í þessum lögum að þegar fólki fækkar í sveitarfélagi, þá skuli greiða því sveitarfélagi aukaframlag úr Jöfnunarsjóði sem miðist við íbúafækkunina og meðalútsvar. Hefur komið í ljós að þetta ákvæði þarf nokkurrar endurskoðunar við. Reynslan hefur sýnt það, eins og gerð er grein fyrir í aths. á bls. 3 þar sem nefnd eru dæmi um það. Nú er fólksfækkunarframlagið miðað við landsmeðaltal útsvara á íbúa, en hér er lagt til að því verði breytt þannig að framlagið verði helmingur meðalútsvars á íbúa.

Þetta frv. er flutt sumpart að óskum og að öðru leyti í fullu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, og vænti ég þess, að það fái góðar undirtektir á Alþ., og legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og félmn.