07.04.1976
Efri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3077 í B-deild Alþingistíðinda. (2524)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Í umr. í Sþ. áðan um svonefnt Kröflumál vék ég nokkrum orðum að frv., sem hér er til umr., um Orkubú Vestfjarða. Mér þykir hví óhjákvæmilegt að bæta þar nokkrum orðum við úr því það er hér á dagskrá.

Það hefur lengi verið álit margra að skipulag raforkumála hér á landi væri í molum og að nauðsynlegt væri að endurskipuleggja raforkuöflun og raforkudreifingu innanlands. Hefur verið bent á það að of margir aðilar önnuðust virkjunarrannsóknir. Það hafa verið aðilar eins og Landsvirkjun, Laxárvirkjun, Orkustofnun sem hafa verið að gera sjálfstæðar rannsóknir á virkjunum mikilla vatnsfalla hér á landi, og jafnvel hefur komið fyrir að þessir aðilar væru að rannsaka sömu vatnsföllin hver fyrir sig án nauðsynlegs samstarfs. Er alveg ljóst að hér á landi er þörf á skýrari og gleggri verkaskiptingu milli aðila sem unnið hafa að raforkumálum, en einnig hefur komið fram mikil óánægja með það í mörgum landshlutum að heimamenn skuli ekki fjalla meira um ákvarðanir sem teknar eru í þessum málum og framkvæmd þeirra, en raun ber vitni.

Fyrir nokkrum árum fjallaði n. manna, sem svipuð var til að gera till. um þetta efni, um þetta mál í ítarlegu nál., og á grundvelli þess nál. var flutt þáltill. hér í þinginu að frumkvæði fyrrv. orkumrh., Magnúsar Kjartanssonar. Þessi þáltill. var nokkurs konar málamiðlun milli ýmiss konar sjónarmiða sem fram hafa komið í þessu efni, þar sem annars vegar var gert ráð fyrir allsterkri heildarstjórn raforkumála, en á hinn bóginn fallist á að rétt væri að stofna til sérstakra landshlutasamtaka. Það skal tekið fram að í till. var ekki gerð skýr grein fyrir verkaskiptingu þessara tveggja aðila. þ.e.a.s. heildarstjórnarinnar annars vegar og landshlutasamtakanna hins vegar, en þarna var um að ræða stefnumótun sem átti eftir að útfæra nánar í reynd.

Síðan þetta var, því að það fór svo að Alþ. afgr. ekki þessa þáltill., hafa starfað n. í þremur landshlutum til undirbúnings að tillögugerð um skipan þessara mála í viðkomandi landshlutum. Árangurinn af þessum nefndarstörfum birtist hér í frv. til laga um Orkubú Vestfjarða að því er snertir eina nefndina.

Ég get strax lýst yfir ánægju minni með þá hugmynd að rafveitur á Vestfjörðum og orkuöflunarfyrirtæki þar séu sameinuð í eitt fyrirtæki. Ég held að það sé einmitt mesti kostur þessa máls að þarna er um sameiningu marga smárra aðila að ræða sem þurfa að vinna saman. Hitt get ég strax sagt, að ég tel öllu hæpnara að slá því föstu í þessu frv. að hér verði um að ræða algjörlega sjálfstæðan virkjunaraðila sem annist virkjunarrannsóknir og sjái um alla orkuframleiðslu á viðkomandi svæði. Ég tel að innan tiltölulega fárra ára verði búið að samtengja allt landið í eitt orkuveitusvæði og þá verði útilokað að virkja í einhverjum ákveðnum landshlutum eingöngu með hliðsjón af þörfum viðkomandi landssvæðis, heldur verði stöðugt að hafa þarfir landsins í heild: huga og reikna dæmið aftur og aftur á hverju ári eftir því sem orkunotkun vex með hliðsjón af því sem kemur út hvað snertir þróun orkumála í öllum landshlutum. Ég tel, að slík vinnubrögð séu alger forsenda fyrir því að vitlegar ákvarðanir verði teknar um stórvirkjanir hér á landi á næstu árum. Ég er nefnilega ekki þeirra skoðunar að það sé aðalatriði málsins fyrir fólkið úti um landsbyggðina að fulltrúar í viðkomandi sveitarstjórnum geti haft áhrif á það hvar þeir virkja hverju sinni. Ég tel að aðalatriði málsins sé að fólkið fái raforku á lágu verði, og ég er ansi hræddur um það, ef það mál er hugsað til enda, að menn skipti landinu í fjögur eða fleiri orkuveitusvæði og starfandi séu sjálfstæð orkuöflunarfyrirtæki á hverju svæði, að þá geti afleiðingin ekki orðið önnur en sú að um verði að ræða mjög mikinn mismun á orkuverði eftir landssvæðum. Sú þróun væri svo sannarlega ekki fólkinu úti um hinar dreifðu byggðir landsins í hag.

Ég sé að í þessu frv. er vikið að þessu vandamáli í grg. örfáum orðum. Það er ljóst að þeir, sem sömdu frv., hafa gert sér grein fyrir þessu vandamáli eða rætt það ítarlega. Þó get ég ekki sagt að nm. hafi leyst þann vanda eða séð fyrir endann á honum, því að þeir virðast gera ráð fyrir að þessi vandi minn leysast með verðjöfnun. Það má vel vera að þennan vanda megi að einhverju leyti leysa með verðjöfnun. En það er ekki skemmtileg lausn að þurfa að skattleggja í stórum stíl ákveðin, sjálfstæð orkufyrirtæki á landinu til þess að rétta fjárhag annarra orkufyrirtækja. Það verður aldrei mikill friður um þess háttar skattheimtu, og ég er hræddur um að það verði mjög erfitt að ná fram fullri jöfnun á raforkuverði eftir þessari leið.

Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, að orð mín mega ekki skiljast svo að ég sé með þeim að lýsa yfir andstöðu við þetta frv. Ég tel ekki útilokað að stofnun fyrirtækis, sem bæri nafnið Orkubú Vestfjarða, gæti fallið inn í heildarskipulag raforkumála á öllu landinu. En spurningin er fyrst og fremst sú, hvernig við getum komið upp slíkum orkufyrirtækjum í ýmsum landshlutum án þess að það hafi í för með sér aukna ringulreið og aukið skipulagsleysi í orkumálum. Við þurfum fyrst og fremst að fá aukið skipulag og betri heildarstjórn á raforkumálum í landinu, en ekki öfugt. Ég tel að það sé fullkomlega raunhæft að skipuleggja raforkumálin þannig að um verði að ræða eina heildarstjórn, jafnframt því sem um sé að ræða eðlilegt samstarf við nokkur orkufyrirtæki í einstökum landshlutum.

Ég vil bæta því við, að með þessu frv. höfum við aðeins séð einn þáttinn af mörgum sem verið hafa í undirbúningi hvað snertir endurskipulagningu raforkumála hér á landi, því að sams konar n. hafa verið starfandi hæði á Norðurlandi og Austurlandi. Ég hefði talið eðlilegast að alþm. gætu skoðað þessi mál í nokkru samhengi þannig að um yrði að ræða ákveðið samræmi í uppbyggingu nýs kerfis á þessu sviði. Ég tel þess vegna að hæpið sé að afgreiða þetta mál eitt sér, heldur sé nauðsynlegt að vita í hvaða átt þróunin stefnir bæði á Norðurlandi og Austurlandi, en alþm. hafa enn ekki séð nál. frá þeim nefndum.