07.04.1976
Efri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3083 í B-deild Alþingistíðinda. (2527)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég gat ekki verið viðstaddur fyrri hluta þessarar 1. umr. um frv. til l. um Orkubú Vestfjarða. Ég kom inn þegar hæstv. forseti okkar var að þakka hæstv. iðnrh, fyrir hans mikla hlut í þessu máli. Ég missti sem sagt af því þegar hæstv. iðnrh. þakkaði hæstv. forseta fyrir hans hlut.

Það verður eflaust örðugt fyrir einn eða annan að hafa mikið við þetta frv. að athuga, þegar það liggur fyrir að þm. Vestf. muni berjast fyrir því allir sem einn eða einn fyrir alla og allir fyrir einn, eins og síðasti hv. ræðumaður gerði svo skilmerkilega grein fyrir. En engu að síður langaði mig til þess að koma á framfæri örfáum aths. við þetta frv. nú við 1. umr, fyrst ég á þess kost.

Ég heyrði ekki ræðu hv. 5. þm. Norðurl, v. nema í endursögn, en eftir því sem þar kom fram, þá fæ ég ekki betur séð en ég sé í einu og öllu sammála því sem hann sagði. Ég hef þó þann fyrirvara að í ræðunni kunni að hafa verið eitthvað meira en hér var endursagt, og má vera að ég sé ekki sammála því. En það, sem ég legg áherslu á, er að við hljótum að verða að koma á fót að mínu mati heildarstjórn á raforkumálum þessa lands. Að öðrum kosti og ef sú braut verður farin sem hér er lögð til, verður Landsvirkjun sú, sem starfað hefur undanfarin nokkur ár, ekkert nema nafnið. Hún verður þá fyrirtæki sem sér Suðurlandi og Suðvesturlandi, Reykjavík og nágrenni fyrir rafmagni. Þetta er náttúrlega sjónarmið út af fyrir sig. En þetta er ekki stefna sem ég aðhyllist í þessum málum.

Ég er ekki heldur viss um að landsmenn allir séu á því að sunnlendingar eigi einir að njóta þess rafmagns sem þegar er búið að virkja í Þjórsá og Tungnaá. Ef menn eru það, þá náttúrlega fara þeir þá leið sem hér er verið að mæla fyrir, og þá verður virkjað í Kröflu fyrir Norðurland, þá verður virkjuð Bessastaðaárvirkjun fyrir Austurland og þá býr hver að sínu. Ég er ekki þessarar skoðunar í raforkumálum. Ég held að það eigi að samtengja þetta kerfi og hver styðji annan í þessum málum, en ekki að hver búi algerlega að sínu, eins og mér virðist vera stefnt að með þeirri braut sem hér er lagt inn á og hv. síðasti ræðumaður talaði um sem fordæmi annars staðar. Það skilst auðvitað mjög vel hvað þar er við átt. Það er sem sagt það að hver virki fyrir sig og eigi 60% af virkjuninni og svo hjálpi ríkið svolítið til með því að eiga 40%.

Ég álít að nú verði ekki miklu lengur á frest skotið að taka ákvörðun um hvort hin eina fullhannaða virkjun, sem fyrir liggur í landinu, verður framkvæmd eða ekki, og á ég þar við virkjunina við Hrauneyjafoss. Fyrir því er heimild Alþ. og þarf enga lagasetningu. Ég er sannfærður um að þegar ráðist verður í þá virkjun og þar með fullvirkjuð aðstaðan í Tungnaá og Þjórsá, þá verðar risin hér hagstæðasta virkjun sem við eigum völ á, og ég sem sagt legg áherslu á að þessa ákvörðun verði að taka fyrr en síðar. En ég sé ekki fram á að þessi fyrirætlun komist í framkvæmd ef á sama tíma verður ráðist í virkjanir í öllum landshlutum öðrum í senn. Ég sé ekki fram á það að fjárhagsástand okkar sé þannig að við getum ráðist í þær framkvæmdir. Ég sé ekki heldur fram á að það sé þörf fyrir þær eins og sakir standa. Þetta finnst mér vera úrlausnarefni sem þurfi að takast á við áður en lengra er haldið í því að skipta landinu í landshluta og landshlutavirkjanir.

Það var minnst á það af hv. síðasta ræðumanni að skipulag þessara mála væri með mismunandi hætti á hinum Norðurlöndunum. Það er vafalaust allt rétt sem hann sagði um það. En ég bendi á að þar er auðvitað ólíku saman að jafna. Íslenska þjóðin er ekki nema eins og íbúar eins meðalstórs bæjarfélags jafnvel á hinum Norðurlöndunum, og ég held að einingin sé síst of stór þó að hún sé ekki brytjuð í smáparta.

Ég mun ekki hafa þessi orð miklu fleiri við þessa 1. umr. Það gefst tækifæri til að ræða þetta mál síðar. En í tilefni af því sem var sagt í síðustu ræðu um að nú væri tækifæri til þess að koma þessu í lög á þessu þingi, þá vil ég upplýsa það að fylgi mitt við því í ríkisstj. að þetta frv. væri lagt fram nær ekki lengra en til framlagningar þess, og ég áskil mér fullan rétt til þess að greiða atkv. gegn frv. ef mér sýnist svo þegar þar að kemur.