07.04.1976
Efri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3085 í B-deild Alþingistíðinda. (2528)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa langt mál um þetta frv., en ég vildi þó koma hér með örfáar aths.

Mér hefur skilist það svo að það sé stefna og hafi lengi verið stefna stjórnvalda í þessu landi — og ég tel að það eigi að vera stefna stjórnvalda — að raforkuverð verði hið sama um land allt og jafnframt því verði stefnt að því að tryggja lægsta mögulegt verð á raforku fyrir landsmenn. Þetta er það meginmarkmið sem ég tel að eigi að vinna út frá. Þá vaknar spurningin á hvern hátt það verður best gert. Nú er hér komið fram frv. til l. um Orkubú Vestfjarða, þannig að Vestfirðir verði afmarkað svæði og þetta orkubú sjái um allar línur og framleiðslu raforku innan þess svæðis. Það má vel vera að þetta geti verið liður í þeirri stefnu að tryggja lægsta mögulegt raforkuverð í landinu og jöfnuð á þessu raforkuverði. En ég hlýt að taka undir með öðrum sem hafa komið hér inn á það: Hvert verður framhaldið? Hver er stefna hæstv. iðnrh. um framhald þessara mála? Á framhaldið að verða það að sérstakt orkubú verði á Suðurlandi eins og er í dag, þ.e.a.s. Landsvirkjun, það verði sérstakt orkubú á Norðurlandi og það verði sérstakt orkubú á Austurlandi? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, jafnhliða því að þetta mál er afgreitt, að menn geri sér einhverja hugmynd um það hvert verður framhaldið og hvaða áhrif samþykkt þessa frv. og skipan þessara mála á Vestfjörðum hefur á skipulagningu mála annars staðar og möguleika á hættu fyrirkomulagi þar. Ég held að það sé nauðsynlegt í raforkumálunum. Og mér finnst í raun og veru allir vera sammála um það að við lítum á þessi mál í heild, en ekki í afmörkuðum svæðum.

Ég vil fara þess á leit við iðnn., þegar hún tekur þetta mál til athugunar, að þetta verði íhugað vandlega. Mér finnst þetta mál vera stefnumarkandi, ekki aðeins fyrir Vestfirðina, heldur og fyrir aðra landshluta. Ég er því alveg sammála og ég tel nauðsynlegt að landshlutasamtökin eða fólkið í viðkomandi landshlutum hafi einhverja stjórn og ítök í þessum stofnunum. En það er líka hægt að hugsa sér að það sé til eitt fyrirtæki sem starfi í nokkrum deildum. Það er ekki endilega nauðsynlegt til þess að tryggja sjálfstæði eininga, hvorki í þessum rekstri né öðrum, að fyrirtækin starfi í mörgum einingum. Það er einnig hægt að hugsa sér að eitt fyrirtæki starfi í deildum og hafi ákveðna sjálfstjórn, en hafi síðan ákveðna yfirstjórn.

Ég vildi aðeins koma þessu á framfæri og ítreka þá spurningu til hæstv. iðnrh., hvað hann telji að eigi að verða framhald þessara mála og hvers konar skipulagning eigi að verða í hinum landshlutunum, ef það á að verða ofan á að sérstakt orkubú, sérstakt fyrirtæki starfi á Vestfjörðum.