07.04.1976
Efri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3091 í B-deild Alþingistíðinda. (2538)

195. mál, skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langt mál um þetta frv. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. og mælir eindregið með samþykkt þess. Hér er um það að ræða að Ísland leggi sitt af mörkum til þess að það verði samræmd stefna innan Norðurlandanna að þessi verðlaun verði ekki skattlögð. Ef þau eru skattlögð á mismunandi hátt verður það til þess að verðlaunin hafa mismunandi gildi í hinum einstöku löndum. Norðurlandaráð hefur margítrekað tilmæli til ríkisstjórna Norðurlandanna að gera þetta. Með samþykkt þessa frv. leggur Ísland fram sinn skerf og verður við þessum tilmælum Norðurlandaráðs, þótt það sé nú kannske aðalástæðan til þess, að svo vel er brugðist við, að tveir ágætir listamenn okkar fengu verðlaunin í ár.