07.04.1976
Efri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3109 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Fulltrúar Alþb. í iðnn. beggja d. hafa gert skil því máli, sem hér er á dagskrá, og skýrt svo rækilega afstöðu Alþb. að ég mun aðeins drepa hér á nokkur sérstök atriði.

Meðal landsmanna hafa frá öndverðu ríkt mjög andstæðar skoðanir á þeirri stefnu að gera á sínum tíma samning við erlendan auðhring um starfrækslu álbræðslu hér á landi. Þessi grundvallarágreiningur er að sjálfsögðu fyrir hendi enn. En meðal þeirra, sem hlynntir eru þessari stefnu, að erlendir auðhringir hreiðri um sig í íslensku atvinnulífi, er þó að verða sífellt meira ríkjandi sú skoðun að hrapallega hafi verið að samningsgerðinni um álverið staðið og illa á fjárhagslegum atriðum haldið af hálfu íslenskra stjórnvalda þar sem orkusalan til auðhringsins var með þeim hætti að rafmagnið var selt undir kostnaðarverði. Með því frv., sem hér liggur fyrir, á m.a. að reyna að klóra yfir þetta og fá nokkra endurskoðun til hækkunar á því hlálega lága rafmagnsverði sem um var samið.

Eitt af því, sem felst í þeim viðaukasamningi sem hér er verið að gera um heimild til stækkunar álversins, eru ný ákvæði um rafmagnsverð, á þann veg að það hækkar, en samtímis eru skattgreiðslur fyrirtækisins verulega lækkaðar frá því sem við upphaflega gerð samningsins var talið að þær mundu verða, en þá var við það miðað að framleiðslugjaldið jafnaðist á við og kæmi í stað almennra skatta. Reyndin hefur orðið sú að þeim, sem stóðu að upphaflegu samningunum um álverið, brást ekki aðeins bogalistin við samningana um rafmagnsverð, heldur hefur farið svo, ef tekið er tillit til skattinneignar álversins, að skattgreiðslurnar virðast ætla að verða æðidýrar. Óljóst virðist þó hvað þessi skattinneign fyrirtækisins og hugsanleg skattinneign í lok samningstímans merkir í raun. Á bls. 33 í grg. með því frv., sem hér er til umr., segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í málsgr. 29.09 eru síðan sérákvæði um skattinneign ÍSALs samkv. gildandi samningi, þ.e. útistandandi eftirstöðvum pr. 30 sept. 1975. Er fjárhæð inneignarinnar umsamin á grundvelli afkomu ÍSALs á árinn 1975, sem er neikvæð, og með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fengist hafa við endurskoðun reikninga ÍSALs árin 1973 og 1974, sem ríkisstj. hefur látið fara fram. Þessi inneign á að endurgreiðast af framleiðslugjaldi umfram lágmark samkv. grunntaxta.“

Og á bls. 39 í grg. segir — með leyfi hæstv. forseta — í d-lið:

„Framleiðslugjaldið hefur verið háð þeirri takmörkun, sem fyrr segir, að ÍSAL getur eignast rétt til endurgreiðslu á því ef greiðslur gjaldsins á einhverju ári fara fram úr 50% af nettóhagnaði félagsins eftir það ár. Myndar umframfjárhæðin þá skattinneign á móti síðari skattgreiðslum, og ber að greiða hana niður með jöfnuði við þær jafnskjótt og aðstæður leyfa.“

Og í e-lið:

„Um þessa notkun skattinneignarinnar gildir þó sú veigamikla takmörkun, að ekki má nota til jöfnunar á henni þann hluta framleiðslugjaldsins sem svarar til upphaflegs taxta (12 dollarar og 50 cent og síðan 20 dollarar), heldur aðeins það andvirði þess sem stafar af hækkunum taxtans eftir 15. starfsár eða taxtahækkunum vegna breytinga á heimamarkaðsverði.

Um það hefur verið deilt, hver réttur ÍSALs kunni að vera vegna skattinneignar sem nýtist ekki til skuldajafnaðar á samningstímanum. Telur Alusuisse að sú inneign mundi þá eiga að endurgreiðast, en lögfræðingar viðræðunefndar telja að hún muni eiga að falla niður.“

Allt er þetta því í meira lagi óljóst.

Samkv. upplýsingum frsm. meiri hl. iðnn. Nd. nemur mismunur á greiddu framleiðslugjaldi undanfarandi ár og núverandi skattinneign álversins 251.6 millj. kr. þegar skattgreiðslurnar eru allar færðar til gengis dollarans 1. okt. s.l. Skattinneign álversins er miðað við gengi dollars 1. okt. s.l. 704 millj. kr., þannig að verði talið að íslenska ríkið og Hafnarfjarðarbær eigi að greiða þessa skattinneign með frádrætti frá framleiðslugjaldi á næstu árum, þá hafa nettóskattgreiðslur frá upphafi aðeins numið um 250 millj. kr. og ætti sú upphæð þá ein að koma í staðinn fyrir alla venjulega skatta á atvinnufyrirtækið allan þann tíma sem fyrirtækið hefur starfað.

Ég var andvígur samningunum um álverði þegar þeir voru gerðir, og ég er andvigur þessu frv. sem hér er til umr. En ég tel að þeim, sem ætla að standa að samþykkt þess og þar með að heimild til stækkunar álversins, beri skylda til að tryggja áður óyggjandi niðurstöðu varðandi skattinneign fyrirtækisins, sem veldur því að fyrirtækið sleppur að verulegu leyti við eðlilegar skattgreiðslur, og eigi því að setja það að skilyrði fyrir afgreiðslu frv. að núverandi skattinneign hreinlega falli niður, ekki síst með tilliti til þess hve hlálega lágt rafmagnsverðið hefur verið þegar orkuverð hefur verið að stórhækka erlendis. Það hefur komið í ljós, sem þeir spáðu sem voru andvígir upphaflegu samningunum, að auðhringurinn, sem sjálfur ræður verði hráefnisins til álversins og öllum ferli framleiðslunnar, hefur átt hægt með að hagræða útkomu í rekstri þess hluta framleiðslunnar sem hér skiptir máli, á þann veg að framleiðslugjaldið næmi miklu lægri upphæð en þær skattgreiðslur hefðu orðið, sem framleiðslugjaldið á að koma í staðinn fyrir. Hér er um æðimikla hagsmuni ríkissjóðs og Hafnarfjarðarbæjar að tefla, og ég held að það væri í meira lagi óhyggilegt að tryggja ekki fjárhagslega hagkvæma lausn á því máli, sem skattinneign fyrirtækisins er, áður en stjórnvöld koma til móts við auðhringinn með heimild til stækkunar fyrirtækisins. Það gildir hið sama nú og þegar upphaflegur samningur var gerður, að það er nógu slæmt að Alþ. skuli gera samning um slík réttindi erlends auðhrings til starfa hér á landi þótt ekki sé þar á ofan svo illa á beinum fjárhagslegum atriðum haldið sem raun varð á og nær allir viðurkenna nú. Ef talið er að framleiðslugjaldið, sem á hefur verið lagt, gæti skilað sér án frádráttar vegna skattinneignar, þ.e. ef skattgjaldið væri í þeim námunda að jafnast á við almenna skatta, svo sem upp haflega var ætlast til, þá felst í þessu frv. að verið er að lækka framleiðslugjaldið og flytja greiðslur frá fyrirtækinu að verulegu leyti milli aðila með þeim hætti að auka hlut Landsvirkjunar á kostnað ríkissjóðs og þar með Byggðasjóðs og Hafnarf jarðarbæjar.

Í upphaflegum ákvæðum um skattgreiðslu álversins fólst að því var gert að greiða sérstakt framleiðslugjald í stað venjulegra skatta og framleiðslugjaldið átti að jafnast á við þá skatta. Út frá því var gengið að þeir aðilar, sem ella hefðu fengið þessa venjulegu skatta sem önnur fyrirtæki greiða samkv. landslögum, fengju jafngildi þeirra sem sinn hluta af framleiðslugjaldinu. Í grg. með því frv., sem hér liggur fyrir, eru hinir almennu, beinu skattar, sem framleiðslugjaldið átti að koma í staðinn fyrir, taldir upp. Á bls. 38 í grg. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Reglur álsamninganna um skatta ÍSALs er aðallega að finna í 25.–30. gr. aðalsamningsins milli ríkisstj. og Alusuisse, en samkv. þeim greiðir ÍSAL sérstakt framleiðsíugjald í stað venjulegra skatta hér á landi, þ.e. aðallega hina almennu, beinu skatta, sem nú eru tekjuskattur, eignarskattur, aðstöðugjald, iðnlánasjóðsgjald og fasteignaskattur.“

Vegna þess, sem snýr að Hafnarfjarðarbæ í þessu máli vek ég athygli á tveim sköttum sem hér eru beinlínis nefndir og gert var í upphafi ráð fyrir að ættu að felast í framleiðslugjaldinu, þ.e.a.s. aðstöðugjaldi og fasteignaskatti, en þeir renna samkvæmt lögum til þess sveitarfélags þar sem fyrirtækið starfar. Með þessu frv. er verið að leggja til að minnka þátt framleiðslugjaldsins í greiðslum álversins og flytja þann hlut heildargreiðslnanna yfir á rafmagnsverðið. Óbreyttur hundraðshluti framleiðslugjaldsins til Hafnarfjarðarbæjar af lækkuðu framleiðslugjaldi þýðir að bæjarfélagið, sem fékk ekki að leggja eðlilega skatta á þetta fyrirtæki sem önnur í sveitarfélaginn, en átti að fá þá að verulegu leyti a.m.k. borna uppi með hluta sínum af upphaflegu framleiðslugjaldi, er nú svipt verulegum hluta þessara greiðslna, annars vegar fyrir tímabilið til þessa, ef stjórnvöld viðurkenna skattinneign álversins, hins vegar er bæjarfélagið svipt þessum greiðslum að verulegu leyti á komandi árum með því frv. sem hér er til umr., þar sem verið er að slá því endanlega föstu að skattgreiðslur af álverinu til Hafnarfjarðarbæjar skuli ekki nálgast það að nema jafngildi þeirra skatta, sem bæjarfélagið leggur á önnur fyrirtæki, og ekki nálgast það að jafnast á við þá skattgreiðslu sem upphaflegum samningi var ætlað að tryggja bæjarsjóði. Sá hluti, sem bæjarfélagið er svipt með þeim hætti, fer að verulegu leyti til Landsvirkjunar sem hefur frá upphafi notið þeirrar sérstöðu að mega selja rafmagnið beint til þessa fyrirtækis sem er á orkusvæði Rafveitu Hafnarfjarðar.

Ýmsir hafa talið óeðlilegt að sveitarfélag njóti venjulegrar skattálagningar á fyrirtæki sem eru að stærð og veltu langt umfram það sem gerist um önnur fyrirtæki í sveitarfélaginu eða í landinu almennt. En því fer fjarri að þar sé um þetta dæmi eitt að ræða. A.m.k. eru greiddir venjulegir fasteignaskattar af raforkuverum til mjög smárra hreppsfélaga, og ég hygg að greiðslur slíkra fyrirtækja til þeirra hreppssjóða séu æðihátt hlutfall af heildartekjum hreppsins af fasteignasköttum í sveitarfélaginu. Gæti hv. 6. þm. Suðurl. að líkindum frætt hv. þm. nánar um það.

Með þeirri ákvörðun í upphafi, að sérstakt framleiðslugjald skyldi koma í stað venjulegra skatta, og beinu skattana hef ég þegar tilgreint úr grg., var gert ráð fyrir að Hafnarfjarðarbær á sama hátt og ríkið tæki þessa skatta eða jafngildi þeirra með þessum sérstaka hætti. Ef miðað er við sama hlutfall Hafnarfjarðarbæjar af lækkuðu framleiðslugjaldi, þá stenst ekki lengur sú forsenda að eðlileg skattinnheimta til bæjarins fáist með hluta hans af framleiðslugjaldinu. Og ég tel rétt að koma hér á framfæri þeirri kröfu Hafnarfjarðarbæjar að hlutur bæjarins af framleiðslugjaldinu verði samsvarandi fasteignaskatti, lóðargjaldi og aðstöðugjaldi sem öðrum fyrirtækjum í Hafnarfirði er gert að greiða.

Í ræðu frsm. meiri hl. iðnn. Nd. kom fram að um skiptingu á framleiðslugjaldi, þ.e.a.s. lækkuðu framleiðslugjaldi, yrði gerður sérstakur samningur milli ríkisins og Hafnarfjarðarbæjar og flutt sérstakt frv. um það efni. Um það mál hefur ekkert frekar komið fram við meðferð þessa frv. Ég vil í tilefni af því fara þess á leit við formann iðnn. þessarar d., fyrst hæstv. iðnrh. er ekki viðstaddur, að hann taki að sér að fá hæstv. iðnrh. til þess að greina hv. þd. við 3. umr. frá því, hver er í þessu efni stefna ríkisstj. og þess þingmeirihluta sem nú ætlar að standa að breytingu á framleiðslugjaldi álversins, hver sé stefnan varðandi rétt Hafnarfjarðarbæjar til skattlagningar á þetta fyrirtæki sem þar er starfrækt. Hæstv. ríkisstj. og þeir hv. þm., sem hyggjast samþykkja það frv., sem hér er til umr., munu telja að með samþykkt þess sé verið að tryggja auknar heildargreiðslur frá álverinu miðað við þá samninga sem til þessa hafa gilt. Það er því rétt að fram komi hvort um leið eigi það að gerast með samþykkt þessa frv., að hlutur Hafnarfjarðarbæjar verði minnkaður frá því sem verið hefur miðað við óbreytta samninga, eða hvort hundraðshluti Hafnarfjarðarbæjar af framleiðslugjaldi verði með heildarlækkun þess hækkaður svo að skattgreiðslur álversins til Hafnarfjarðarbæjar verði a.m.k. ekki minni en verið hefur. Ég fer fram á að hæstv. iðnrh. svari þessu við 3. umr.

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa gert rækilega grein fyrir sínu sjónarmiði í þessu máli í grg. sem þeir hafa sent þingmönnum Reykjaneskjördæmis. Ég tel rétt að þessi grg. og bréf bæjarstjórans í Hafnarfirði komi fram í þessum umr. Ég tel ekki rétt að afgreiðslu þessa frv. ljúki hér á hv. Alþ. án þess að þessi sjónarmið og rökstuðningur bæjaryfirvalda og svör við þeim komi fram. Bréf bæjarstjórans í Hafnarfirði er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Sendi yður hjálagða grg., sem samin hefur verið á vegum Hafnarfjarðarbæjar, um fyrirhugaðar breytingar á skattlagningu ÍSALs, sbr. frv. um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium um álbræðslu við Straumsvík. Vakin er athygli yðar á samkomulagi sem gert var á milli Hafnarfjarðarbæjar og ríkisstjórnar Íslands 1966 um ýmsa þætti varðandi fyrirhugaða álbræðslu í Straumsvík. Forsenda þess samkomulags var mörkuð hlutdeild bæjarins í hinum beinu sköttum fyrirtækisins, eins og þeir voru taldir eðlilegir samanborið við önnur atvinnufyrirtæki í landinu. Frv. gerir ráð fyrir staðfestingu samnings um verulegar breytingar á skattgreiðslum ÍSALs svo og staðfestingu á breytingum á hafnar- og lóðarsamningum (viðauki B) sem Hafnarfjarðarbær er aðili að, án þess að gengið hafi verið frá samkomulagi við bæjaryfirvöld þar um. Teljum við því óeðlilegt að frv. verði afgreitt óbreytt sem lög frá Alþingi fyrr en gengið hefur verið frá nýjum samningum við Hafnarfjarðarbæ að því er tekur til þessara þátta.

Virðingarfyllst,

Kristinn Ó. Guðmundsson.“

Þessu bréfi fylgir svo hljóðandi grg.:

„Greinargerð um fyrirhugaðar breytingar á skattlagningu ÍSALs.

Skattlagning ÍSALs er ákveðin samkvæmt sérstökum lögum, og er fyrirtækinu gert að greiða svonefnt framleiðslugjald í stað venjulegra skatta. Fyrir Alþingi liggur nú frv. um breytingu á reiknigrundvelli framleiðsíugjaldsins, raforkuverði til ÍSALs o.fl. Í hinum fyrirhuguðu breytingum felst m.a. verulegur tilflutningur á tekjum af fyrirtækinu úr framleiðslugjaldi yfir í greiðslur fyrir raforku. Vafalítið munu framleiðslugjaldsgreiðslur eftir hinum nýju reglum verða einungis lágmarksgreiðslur, 20 dollarar á tonn, a.m.k. næsta áratug og jafnvel út samningstímabilið. En greiðslur eftir gildandi reglum mundu aukast með hækkandi álverði og batnandi hag fyrirtækisins. Virðist mega meta þessa skerðingu á væntanlegum framleiðslugjaldsgreiðslum á samningstímanum sem 35–55%. Þá er sérstaklega vert að vekja athygli á því að framleiðslugjald samkvæmt hinum nýju reglum er einkar ónæmt fyrir erlendri verðbólgu eða nánar tiltekið gildisrýrnun bandaríkjadollars, en gildandi reglur veita verulega tryggingu gegn henni. Það hefur einkum verið talið til ágalla núverandi skilmála um raforkuverð að þeir veittu ekkert viðnám gegn verðrýrnun dollars. Breytingin hefur hins vegar í för með sér að áhættan og tapið af minnkandi raungildi dollarans flyst yfir á skattgreiðslurnar.

Við gildistöku núverandi ákvæða um skattlagningu ÍSALs var svo um samið að Hafnarfjarðarbær fengi ákveðinn hundraðshluta af framleiðslugjaldi ÍSALs og kæmi það í stað venjulegrar álagningar sveitarfélagsins á starfsemi þess. Af framansögðu er ljóst að með fyrirhugaðri breytingu á reiknigrundvelli framleiðslugjaldsgreiðslna eru allar forsendur brostnar fyrir þessu samkomulagi við Hafnarfjarðarbæ, svo stórlega sem álagningargrundvöllurinn mun skerðast við breytinguna. Með hliðsjón af nauðsyn þess fyrir bæjarfélagið, að tekjustofnar þess fylgi almennum verðlagsbreytingum og réttur bæjarins til eðlilegra tekna af atvinnurekstri í bænum verði ekki fyrir borð borinn, er það eðlileg og sjálfsögð krafa bæjarins að hann njóti þeirra tekna af fyrirtækinu sem aðstöðugjöld og fasteignagjöld mundu veita. Því telur bæjarstjórn einsýnt að gengið verði frá nýju samkomulagi við Hafnarfjarðarbæ vegna skattlagningar ÍSALs, þess efnis að ríkissjóður standi bæjarsjóði skil á fasteignagjöldum og aðstöðugjöldum af rekstri fyrirtækisins, enda annist ríkissjóður hér eftir sem hingað til innheimtu framleiðslugjaldsins. Þetta samkomulag verður að gera áður en frv. verður afgreitt sem lög frá Alþingi.“

Í eftirfarandi grg. er mál þetta reifað nánar. Er fyrst gerð stuttlega grein fyrir gildandi reglum, síðan eru fyrirhugaðar breytingar raktar og gerður samanburður á greiðslum samkvæmt gildandi ákvæðum og fyrirhuguðum reglum. Loks er vikið sérstaklega að hlut Hafnarfjarðar í þessum efnum:

„Núgildandi reglur:

Samkvæmt gildandi reglum er lagt framleiðslugjald á hverja smálest áls sem afskipað er frá bræðslunni eða í birgðum umfram 23 500 tonn. Framleiðslugjaldið er ákveðið sem grunngjald, 20 dollarar á tonnið, miðað við að skráð verð á áli sé 27 cent á enskt pund, að viðbættum 7 dollurum fyrir hvert cent sem verðið fer upp úr 27 centum og sama frádrætti á cent fyrir verð undir 22 centum. Að undanförnu hefur verðið verið 39 cent og tilsvarandi framleiðslugjald því 104 dollarar á tonn. Gjaldskylda er þó takmörkuð að hámarki við 50% af nettóhagnaði fyrirtækisins samkvæmt reikningum. Á hinn bóginn eru ákvæði um lágmarksskatt, 235 þús. dollara á ári, sem er gjaldskyldur án tillits til afkomu, og gildir hann því ef hagnaður er minni en 470 þús. dollarar. Framleiðslugjald er greitt við afskipun, en ákvæðið um gjaldskyldu samkvæmt reikningum kemur ekki til skoðunar fyrr en í árslok. Framleiðslugjaldsgreiðslur umfram gjaldskyldu mynda skattinneign. Hana má síðan nota síðar til þess að mæta þeim hluta framleiðslugjaldsins sem er umfram grunngjaldið, 20 dollarar á tonn. Verður því ævinlega að inna af hendi greiðslu af grunngjaldinu, 20 dollara á tonn að lágmarki, þrátt fyrir skattinneign. Greiðslur af tonni áls nema þannig hverju sinni frá 20 dollurum á tonn upp í álagt framleiðslugjald nú, 104 dollara, allt eftir því hvort skattinneignin er fyrir hendi eða ekki.

Breytingar á reglum:

Hinar nýju skattlagningarreglur samkvæmt fyrirliggjandi frv. eru í megindráttum upp byggðar með sama hætti og gildandi reglur. Í frv. er gert ráð fyrir að lágmarksskattur verði 20 dollarar á tonn og er það grunngjald eins og áður og bar við bætist hækkun með álverði. Enn fremur eru ákvæði um hámarksskatt. Viðmiðunartölum er hins vegar breytt og nokkur atriði endurskilgreind:

1) Áður miðaðist grunngjaldið 20 dollarar á tonn við álverðið 27 cent, en samkvæmt frv. á grunngjaldið að miðast við 40 cent. Eftir gildandi reglum er framleiðslugjaldið 111 dollarar við 40 centa verð, en á að lækka í 20 dollara.

2) Stighækkun með álverði, sem nú er 7 dollarar á hvert cent verðhækkunar, verður samkvæmt frv. 0.45 dollarar fyrir verðbilið 40–50 cent og fer síðan minnkandi með hækkandi álverði niður í 30 cent, 0.30 dollara, á cent fyrir verð hærra en 70 cent.

3) Ákvæðinu um, að gjaldskylda takmarkist að hámarki við 50% hagnaðar, er breytt í 55%, en jafnframt leyft að draga fyrst frá varasjóðstillag allt að 20% af hagnaði. Sé sú heimild nýtt er hámarksgjaldskyldan því í reynd lækkuð úr 50% í 44% hagnaðar. Tiltekið er að þetta ákvæði gildi einungis þegar framleiðslugjald er hærra en 20 dollarar á tonn.

4) Lágmarksskattur, þegar framleiðslugjald er hærra en 20 dollarar, er ákveðinn 35% af hagnaði eftir varasjóðstillag eða 28% af hagnaði fyrir varasjóðstillag.

5) Í stað þess, að greitt sé framleiðslugjald á hverjum tíma í samræmi við ríkjandi álverð og hugsanlega myndist skattinneign af þeim sökum, er samkvæmt frv. einungis grunngjaldið, 20 dollarar, gjaldskylt við útskipun, en viðbót vegna hærra álverðs, takmörkuð af ákvæðum tengdum hagnaði, er gjaldskyld eftir árslok. Myndast því engin ný skattinneign samkvæmt ákvæðum frv.

6) Viðurkennd er skattinneign, 4.4 millj. dollara, 1. okt. s.l. og má nýta hana til að mæta gjaldi umfram grunngjald svo lengi sem hún endist. Vöxtum af skattinneign er breytt úr 5% í breytilega vexti, nú 5.6%. Verði skattinneign í lok samningstímans gerir frv. ráð fyrir að hún sé endurgreidd til ÍSALs. Ekkert ákvæði er um þetta í gildandi samningi.

Samanburður á gildandi ákvæðum og nýjum ákvæðum samkvæmt frv.:

Frv. fjallar annars vegar um verð á raforku og hins vegar um skattlagningarreglur. Í álitsgerð með frv. eru færð rök að því að samanlagðar greiðslur fyrir raforku og skatt muni hækka og sé því hagur að breytingunni. Hækkun raforkuverðs er allnokkur. Á hinn bóginn er sú hækkun í verulegum mæli á kostnað framleiðslu? gjaldsgreiðslna sem munu lækka. Að þessu leyti er því um að ræða tilflutning á tekjum af álverinu frá ríkissjóði, Byggðasjóði, Iðnlánasjóði og Hafnarfjarðarkaupstað til Landsvirkjunar. Hversu mikil lækkunin verður fer eftir aðstæðum á álmarkaði eða nánar tiltekið þróun álverðs og hagnaði verksmiðjunnar. Svo framarlega sem árleg verðhækkun áls er innan við 5% á ári og hagnaður minni en 5% af sölu verða greiðslur samkvæmt nýju reglunum aldrei hærri en lágmarksgjaldið, 20 dollarar á tonn, nema hugsanlega á þremur síðustu árum samningstímans 26–19 ár héðan í frá. Samkvæmt gildandi reglum væru greiðslur hins vegar mun hærri.“

Þá kemur hér í grg. næst að útskýringum og línuritum sem fylgja grg. Þeim kafla sleppi ég af auðsæjum ástæðum, en síðan segir í grg.:

„Þótt erfitt sé að meta líklega verðþróun og hagnað bendir flest til að árleg meðalverðhækkun verði yfir 2.5% og jafnaðarhagnaður á þetta löngu tímabili frekar yfir en undir 5% á ári. Miðað við slíkar forsendur fela þá breytingar samkvæmt frv. í sér að framleiðslugjaldsgreiðslurnar lækka sem næst um helming. Af sjónarhóll þeirra, sem hafa hagsmuna að gæta varðandi upphæð framleiðslugjaldsins, er þó engu að síður alvarlegt hve ónæmar hinar nýju reglur eru fyrir erlendri verðbólgu. Þannig er ljóst að þótt verðhækkanir áls næmu allt að 6% á ári næstu 10 árin og meðalhagnaður um 5%, mundi einungis lágmarksgjaldið, 20 dollarar, koma til greiðslu á þessu tímabili samkvæmt nýju reglunum og skattinneign verður þá ámóta há og við upphaf samningstímans. Þessi skortur á næmleika fyrir verðhækkunum áls er þeim mun alvarlegri sem verðhækkun áls fylgir að líkindum að mestu almennum erlendum verðhækkunum eða verðbólgu í viðskiptaheimi okkar og þar með verðhækkunum á þeim aðföngum sem keypt eru til landsins. Framleiðslugjaldið mun því rýrna að raunverulegu verðgild í hlutfalli við verðbólguna í viðskiptalöndum okkar. Í dæminu um 6% verðhækkun áls eða heimsverðbólgu stæði framleiðslugjaldsgreiðslan þannig kyrr í 20 dollurum í lok 10 ára tímabilsins þótt raungildi hefði rýrnað um 44% eða niður í 11.20 dollara á núverandi verðlagi.

Hlutur Hafnarfjarðar:

Hlutur Hafnarfjarðar í framleiðslugjaldi ÍSALs er 25% til 1. 10. 1978, en á þá að lækka í 20% samkvæmt gildandi samningi. Þegar þessi hlutföll voru ákveðin var höfð hliðsjón af þeirri aðstöðu, sem Hafnarfjörður var að láta af hendi og þeim tekjum, sem þágildandi álagningarreglur hefðu veitt bænum. Hinar fyrirhuguðu breytingar munu greinilega stórskaða hlut Hafnarfjarðar, e.t.v. um helming af framleiðslugjaldsgreiðslu til hans. Möguleikinn á verulegum tekjum vegna góðra aðstæðna á álmarkaði er nánast að engu gerður og hinar nýju reglur festa framleiðslugjaldsgreiðslur í lágmarki jafnvel við mun örari verðþróun áls og ámóta hagnað af áliðnaði og verið hefur undanfarinn áratug eða svo. Breytingarnar gera það enn fremur að verkum að framleiðslugjaldsgreiðslurnar munu rýrna mjög að raungildi með árunum og mundu t.d. nær helmingast að raungildi á einum áratug miðað við 6% árlega verðbólgu.

Þar sem rekja má þessar breytingar til óska ríkisstj. til þess að flytja tekjur úr framleiðslugjaldi yfir í greiðslur fyrir raforku er ljóst að forsendur fyrir samkomulaginu við Hafnarfjarðarkaupstað um hlut hans í framleiðslugjaldinu eru gjörsamlega brostnar. Nægir í því sambandi að vitna til skerðingar, sem í breytingunni felst, og þess öryggisleysis gagnvart verðbólgu í viðskiptalöndum okkar, sem breytingin felur í sér. Sveitarfélög eins og Hafnarfjörður verða að miða tekjustofna sína við almenna verðþróun, Svo er um fasteignagjöld og aðstöðugjöld. Með hliðsjón af þessu er það eðlilega krafa Hafnarfjarðar að við fyrirhugaða breytingu á skattlagningarreglum ÍSALs verði hlutur hans héðan í frá miðaður við fasteignagjöld og aðstöðugjöld af starfseminni. Hafnarfjarðarkaupstað skiptir ekki máli hvernig ríkissjóður hagar innheimtu á heildartekjum af ÍSAL eða hvernig Alþ. og ríkisstj. vilja skipta greiðslum af fyrirtækinu á rafmagns- og framleiðsíugjald. Hins vegar er það sjálfsögð og eðlileg krafa Hafnarfjarðar að ríkissjóður standi Hafnarfjarðarkaupstað skil á þeim gjöldum sem hann á rétt á að leggja á starfsemina samkvæmt almennum lögum.“

Hér lýkur þeirri grg. sem fylgdi bréfi bæjarstjórans í Hafnarfirði.

Ég hafði fyrr í ræðu minni óskað eftir því að hæstv. iðnrh. greindi hv. þd. frá því hvernig hæstv. ríkisstj. og þingmeirihluti hyggst bregðast við ósk og kröfu Hafnarfjarðarbæjar um að við afgreiðslu þessa frv. og við samninga við Hafnarfjarðarbæ verði hlutur bæjarfélagsins ekki skertur frá því sem gert var ráð fyrir að hann yrði við gerð upphaflegs samnings. Ég vil að lokum aðeins ítreka þessa ósk og vænti þess að séð verði til þess að hæstv. ráðh. veiti skýr svör við 3. umr. um þetta mál.