07.04.1976
Neðri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3124 í B-deild Alþingistíðinda. (2564)

212. mál, upptaka ólöglegs sjávarafla

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það er aðeins ein lítil aths. sem ég vildi gera við 1. umr. þessa máls. Ég býst við að það sé rétt að það þurfi að setja skýrari lagaákvæði um möguleika á því að refsa þeim, sem brjóta landhelgislög eða reglugerðir tilheyrandi landhelgismálum, með því að gera upptækan afla og tel út af fyrir sig að rétt sé að gera slíkt. Hins vegar dreg ég mjög í efa að það sé rétt að fara inn á þá braut sem farið er í þessu frv. um meðferð málsins. Hér er lagt til að það verði sjútvrn. sem felli úrskurð um það hvort um ólöglegan sjávarafla er að ræða og að hvað miklu magni. Þetta getur komið fyrir í mörgum tilfellum, eins og 1. gr. frv. ber með sér, þar sem nokkur skilgreining fylgir á málinu, — í mjög mörgum tilfellum og hér getur verið um gífurlega mikil verðmæti að ræða og miklar deilur um hvað af t.d. aflanum geti fallið undir að vera ólöglega tekinn. Ég álít að það eigi að fara með þessi mál eins og hver önnur landhelgislög eða reglur varðandi þau lög, að hér eigi að fara dómstólaleiðina. Það á að kæra þá sem brjóta. Þeir hafa rétt til þess að verja sig. Þeir verða dæmdir í undirrétti og þeir verða að setja tryggingu fyrir því, sem þeir hafa verið dæmdir til að greiða, og sleppa ekki frá því. Það er sjálfsagt að halda þeirri reglu. Það er hægt að ráðstafa andvirði hins ólögmæta í ákveðnu skyni, eins og t.d. að það renni til fiskirannsókna og vísindalegra rannsókna, alveg eins og nú er um það að ræða að ráðstafa landhelgissektum í ákveðinn landhelgissjóð. Það er ekkert því til fyrirstöðu. En þessi háttur, að ákveða að það skuli vera sjútvrn. sem á að úrskurða í þessum efnum, taka þarna að sér dómstigið, það álít ég mjög hæpið, og satt að segja álit ég að ekkert rn. ætti að óska eftir slíku valdi eða sogast inn í slíkt. En þar að auki tel ég þetta óeðlilegt og brot á okkar meginreglum varðandi þessi atriði, og satt að segja sé ég ekki hvar við lendum ef við förum að gera þetta í fleiri tilfellum. Þó að þarna sé að vísu að finna ákvæði um að menn geti skotið þessu máli til sakadóms, þá er það allt annað og hleypur yfir dómstigið.

Ég vildi sem sagt, án þess að dregið sé á nokkurn hátt úr því sem hæstv. sjútvrh. er að leita eftir varðandi þetta mál, þ.e. að koma við refsingu fyrir brot á settum reglum varðandi þessi mál, án þess að það sé á nokkurn hátt dregið úr því að þetta sé framkvæmanlegt, þá held ég að það þurfi að taka til rækilegrar athugunar af þeirri n., sem málið fær til meðferðar, hvort það er rétt að víkja frá þessari almennu reglu á þennan hátt í svona veigamiklu og flóknu máli. Ég er a.m.k. á þessu stigi mjög andvígur þessari leið og tel hana ekki rétta.