07.04.1976
Neðri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3129 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

23. mál, umferðarlög

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Allshn. Nd. hefur borist í dag bréf frá dómsog kirkjumrn., dags. 7. apríl. Rn. fer þess á leit við allshn. að hún hlutist til um að tvær breytingar verði gerðar á frv. eins og það nú liggur fyrir.

Í fyrsta lagi, að 2. málsl. 2. málsgr. 8. gr. frv. verði felldur niður, en það er setningin sem hljóðar svo. „Auk skráningarmerkis skal hver tengi- eða festivagn auðkenndur að aftan skráningartölu dráttartækisins.“

Í bréfi rn. segir að unnið sé að því að skrá skráningarskylda tengi- og festivagna, þ.e. vagna sem eru 500 kg að eigin þyngd eða meira, sbr. 11. gr. umferðarlaga, og verða sett sérstök skráningarmerki á vagnana. Er því eigi talin þörf á að áskilja tvö skráningarnúmer á skráningarskyldum tengi- og festivögnum.

Hin breytingin er við 13. gr. frv., að fyrri málsgr. hljóði sem hér segir:

„Ákvæði 4. gr. um skráningu beltabifhjóla koma til framkvæmda 1. júní 1976. Nægilegt er þó að beltabifhjól, sem tekin hafa verið í notkun fram til 1. júní 1976, séu tilkynnt til skráningar fyrir 1. okt. 1976.“

Allshn. hefur skoðað þetta bréf og hefur fyrir sitt leyti ekkert við það að athuga að þessar breytingar verði gerðar á frv. Ég leyfi mér því að leggja fram skriflega brtt. þar að lútandi.