08.04.1976
Efri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3137 í B-deild Alþingistíðinda. (2585)

236. mál, skotvopn

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim tveimur hv. ræðumönnum, sem hér hafa talað, fyrir vinsamlegar undirtektir undir þetta frv. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er allviðamikill lagabálkur, og auðvitað er ekki ætlast til þess að sá hraði sé hafður á afgreiðslu málsins að þm. gefist ekki tóm til að lesa hann gaumgæfilega og koma með brtt. við hann. Ég geri mér ljóst að það er mikið vandaverk að semja lög um þetta efni. Þar verður að mínum dómi að reyna að rata visst meðalhólf, eins og málum er komið. En ég hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga að gerðar séu breyt. á þessu frv. og allra helst ef þær ganga í þá átt sem hv. ræðumenn mæltu fyrir, sem sé að herða eftirlit og aðhald í þessum efnum. Og það kann að vera hægt. Það er að vísu gert ráð fyrir því, eins og ég gerði grein fyrir í framsöguerindi mínu, að ítarlegri reglur verði settar um þetta í reglugerð, og það kann að vera heppilegra að geta lagað slík ákvæði eftir reynslunni í reglugerð heldur en að setja fyrir fram og í upphafi um það lagaákvæði. Við setningu slíkrar löggjafar sem þessarar verður líka að gæta að því að ganga ekki of langt, þannig að hún verði ekki bara margir og fallegir bókstafir, en þannig sé að staðið að það sé erfitt að halda henni uppi í framkvæmd.

Það var vissulega athyglisvert sem hv. þm. bentu á, og ég geri ráð fyrir að hv. allshn. taki það til athugunar. Ég hef síst á móti því að hún athugi þau atriði, eins og t.d. um auglýsingar á þessu. Það kann að vera matsatriði hvort á að banna auglýsingar á þessum efnum eða ekki. Ég veit ekki hvort slíkt bann er mjög mikill hemill á sölu þeirra. En sumum getur aftur á móti fundist það til hægðarauka fyrir sig að vita hvar þessi vopn og efni eru fáanleg. En það eru bannaðar auglýsingar á vissum efnum hér og þess vegna væri það ekkert einsdæmi þó það væru bannaðar auglýsingar á þessum efnum. Því tel ég að gjarnan megi taka það til athugunar.

Sama er að segja um geymslu á skotvopnum og skyldum efnum, að ef hægt er að setja um hana ítarlegri ákvæði í lögum heldur en er í frv., þá hef ég að sjálfsögðu ekkert við það að athuga, en bendi þó á að það er einmitt gert ráð fyrir því að um það efni verði mælt nánar í reglugerð. Og þannig getur verið um sum efni, eins og t.d. varðandi geymslu skotvopna í heimahúsum. Það er sjálfsagt að þar sé beitt vissum varúðarreglum. En það verður, eins og ég sagði áðan, að gæta viss meðalhófs í þeim efnum. Þegar farið er með löggjöf að mæla fyrir um efni sem eru innan veggja heimilis, þá eru það oft og einatt ákvæði sem erfitt er að halda uppi í framkvæmd. En þetta finnst mér sjálfsagt að sé athugað.

Ég tek alveg undir orð hv. þm. Stefáns Jónssonar, 5. þm. Norðurl. e., að það er að mér finnst mjög óvarlega farið með skotvopn við veiðar og valdið hættu með því, ég vil segja bæði fyrir menn og dýr, enda hefur slíkt orðið að slysum. Og það sem hann sagði og er vafalaust rétt, að menn skjóti út um bifreiðaglugga og því um líkt, þá er það forkastanlegra en svo að það taki að eyða hér orðum að því. Þessi skotgleði gengur út í öfgar að mínum dómi og ég fæ ekki skilið hana. En þetta þykir mörgum mikið sport, að drepa allt sem drepið verður af fuglum. Það er skotið uppi um fjöll og firnindi, og hefur slíkt stundum orðið til þess að það hefur orðið að gera m.a allkostnaðarsama leit að þeim mönnum sem hafa lagt í slíka leiðangra. Vilji menn stunda slíkt er a.m.k. lágmarkskrafa að þeir hafi vit á því sem þeir eru að gera og fara með. En ákvæði um þetta efni eiga sennilega frekar heima í lögum um fuglafriðun og fuglavernd sem eru fyrir hendi. Ég get búist við því að það þyrfti að setja fyllri ákvæði um þau efni þar. En það er vafasamt að þau ákvæði eigi út af fyrir sig heima í þessum lögum.

En það eru ekki aðeins byssurnar, sem eru hættulegar, og skotvopnin í þessu sambandi, heldur einnig það efni sem er alveg nauðsynlegt og óhjákvæmilegt vegna framkvæmda og tækni, þ.e.a.s. sprengiefni. Því miður hefur komið fyrir að það hefur sannast að varsla á því efni hefur ekki verið sem skyldi og að jafnvel unglingar hafa komist 2 slíkar geymslur. Það hefur sem betur fer e.t.v. ekki orðið að þeim slysum sem slíkt hefði getað orðið, en þetta er auðvitað stórhættulegt og verður með öllum ráðum að reyna að búa sem allra tryggilegast um það. Engum dettur í hug að það sé hægt að banna innflutning eða banna notkun á þessum efnum sem eru óhjákvæmileg, en það verður að fara þannig að að þeim stafi sem minnst hætta og gera þær kröfur til þeirra aðila, sem hafa og þurfa að hafa þetta undir höndum, að þeir hafi nægilega vörslu á því.

Ég fyrir mitt leyti tek sem sagt undir það, að ef hv. þm. komast að því að athuguðu máli að það sé hægt að setja strangari ákvæði, þá skal síst af öllu standa á mér í því efni að samþ. það.

Það hefur verið lögð talsverð vinna í að undirbúa þetta frv. og það hefur verið reynt að taka ýmis sjónarmið til greina.

Viðvíkjandi þeirri hugmynd, sem hv. þm. Bragi Sigurjónsson varpaði hér fram, að það væri eðlilegt að það væri einkasala á þessum efnum, þá vil ég um það segja, að ég er ekki við því búinn að taka afstöðu til þeirrar till. óundirbúinn, og það atriði hefur ekki verið á dagskrá í sambandi við gerð þessa frv., heldur hefur verið miðað við það ástand sem er í þessum efnum. Það má sjálfsagt færa ýmis rök fyrir því að það mætti búa tryggilegar um verslun í þessu efni ef hún væri í höndum opinbers aðila. En eins og alkunnugt er, þá eru aftur á móti skiptar skoðanir um hvaða verslun eigi að vera í einkasölu eða hvað eigi að vera frjálst, og ég skal á þessu stigi ekki segja neitt um það hverjar undirtektir slík hugmynd kann að fá á Alþ. Mér er nær að halda að hún mundi þurfa öllu lengri meðgöngutíma en það tímabil sem eftir er af þingtímanum. En það er sjálfsagt að athuga það eins og önnur atriði í þessu sambandi.

Ég leyfi mér svo að ítreka þakkir mínar til hv. þm. Stefáns Jónssonar og hv. þm. Braga Sigurjónssonar fyrir vinsamlegar undirtektir undir frv. í megindráttum. Ég vona að það fái afgreiðslu á þessu þingi, það er sannfæring mín að það sé spor í rétta átt, þó að það leysi auðvitað engan veginn öll vandamál í þessu sambandi, og það er sannfæring mín að það sé tímabært að setja löggjöf um þetta efni nú.