08.04.1976
Efri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3142 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

238. mál, ferðamál

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil á sama hátt og aðrir þeir hv. þm., sem hér hafa tekið til máls um þetta frv. til 1. um skipulag ferðamála, þakka hæstv. ráðh. fyrir að koma þessu frv. áleiðis og taka undir allt það góða sem til hans hefur verið talað af því tilefni.

Ég vil leyfa mér að hefja mál mitt með því að lýsa því yfir að Ferðamálaráð, sem ég hef setið í frá upphafi sem varaformaður, hefur sérstaklega beðið mig að lýsa hér ánægju ráðsins með framkomu þessa frv., og skila því hér með til hæstv. ráðh., sem ég gerði í upphafi persónulega.

Af tilefni ræðu hv. 7. landsk. þm., Helga Seljans, og yfirferðar hans yfir frv. sjálft, þá vil ég aðeins segja það, að Ferðamálaráð hefur verið afskaplega einfalt í sniðum og störfum og þetta frv. er ekki að því leytinu til einföldun á Ferðamálaráði. Þar hafa setið 8 manns plús 2 skipaðir af ráðh., en þeir verða nú 9 plús þessir 2, og ég held að það sé til mikilla bóta að fá þá aðila, sem hér koma nú nýir inn samkv. frv., á fundi Ferðamálaráðs.

Hv. 7. landsk. þm. gerði sérstaklega 7. og 8. lið 7. gr. að umræðuefni, en það er um samstarf við Náttúruverndarráð og aðra hlutaðeigandi aðila o.s.frv. og 8. liðurinn um frumkvæði um fegrun umhverfis og snyrtilega umgengni á dvalarstöðum ferðafólks. Ég vil upplýsa það að Ferðamálaráð hefur, án þess að vera skyldað til með lögum, haft þetta sjónarmið í huga frá upphafi. En ég vil líka taka undir þau orð sem hann lét hér falla til Eysteins Jónssonar. Hann hefur verið frumkvöðull að slíkum málum og talað til okkar varnaðarorð í Ferðamálaráði, hefur komið þar á fundi og átt sinn þátt í að beina hugum okkar inn á þessar brautir.

Ég vil geta þess vegna þeirra orða sem hv. síðasti ræðumaður gerði að umtalsefni í 8. gr., að Ferðamálaráð hefur veitt fé af þeim upphæðum, sem komið hafa frá Keflavíkurflugvelli eða annars staðar frá í Ferðamálasjóð eða til umráða í Ferðamálaráði, bæði til Edduhótelanna og eins til annarra hótela rekinna á vegum einstaklinga.

Má þar nefna það átak sem hvað stærst er í okkar starfi sem ferðamálaráðsmanna, en það er uppbygging á hótelinu í Höfn í Hornafirði sem ég held að hv. þm. geti tekið undir með mér að var mikið og þarft framtak.

Þá vil ég einnig upplýsa hv. síðasta ræðumann, af því að hann gerði Ferðamálasjóðinn að sérstöku umræðuefni, að sá skilningur, sem hann vonar að verði í framtíðinni, hefur alltaf ríkt. Ferðamálasjóður hefur styrkt aðila sem standa að ferðalögum um landið og má taka dæmi um eldhúsbil sem Ferðamálaráð styrkti einn aðila, sem sér eingöngu um ferðir innanlands, til að kaupa. Og eins er um hreinlætisaðstöðu fyrir þá aðila sem hafa tekið sér það verkefni fyrir hendur að hugsa um erlenda ferðamenn og sýna þeim landið.

Þá vil ég einnig geta þess að lánveitingar úr Ferðamálasjóði hafa alltaf verið opinber gögn og skýrsla Ferðamálaráðs hefur alltaf birt lista yfir alla þá sem fengið hafa lán úr Ferðamálasjóði, þannig að þar er ekki um neinn feluleik að ræða.

Margt af því, sem hér hefur verið talað um, er þegar í gangi og hefur lengi verið. Í sambandi við VL kafla, 35. gr., þá talaði hv. síðasti ræðumaður, 7. landsk. þm., um þá grein sem segir að ráðh. sé heimilt að ákveða að fenginni umsögn stjórnar Ferðamálaráðs Íslands að greiddur skuli aðgangseyrir að fjölmennum ferðamannastöðum sem eru eign ríkisins, enda sé það fé, sem þannig safnast, að frádregnum innheimtukostnaði eingöngu notað til fegrunar og snyrtingar viðkomandi staða og til að bæta aðstöðu til móttöku ferðamanna sem þangað koma. Ég vil benda á að yfirleitt hafa aðilar sótt um leyfi til Ferðamálaráðs þegar um útiskemmtanir hefur verið að ræða, t.d. í Þórsmörk eða áður fyrr á Laugarvatni, og ef við tökum sem dæmi Laugarvatn, þá hefur aðgangseyririnn þar runnið til þess að stórbæta aðstöðu þeirra sem nota tjaldstæði staðarins, og ég held að það sé til fyrirmyndar eins og það hefur verið byggt upp. Svona má lengi telja.

Ferðamálaráð hefur starfað að miklu leyti í anda þess frv. sem hér er um að ræða. Ferðamálaráð hefur líka margoft bent á það, að það er og hefur verið nauðsynlegt að koma betri skipan á ferðamál þjóðarinnar. Ég vil aðeins benda á það að Þjóðhagsstofnun áætlar að nú starfi við ferðamál um 4% af þjóðinni í þjónustugreinum sem snerta ferðamál og það er talsvert stór hópur og fer sívaxandi. Ég held að það sé óþarfi að spyrna við fótum til þess að fyrirbyggja óþarfan átroðning ferðamanna. Ég held að það sé réttara að fara að eins og stefnt er að með þessu frv., þ.e. að koma á betra skipulagi. Og ég held að það sé yfirleitt gert í öllum löndum.

Ég vil leyfa mér að vísa hér til bls. 17 á fskj. um beinar og óbeinar gjaldeyristekjur vegna erlendra ferðamanna árið 1969 og allt til 1974, og þá kemur í ljós að þrátt fyrir samdrátt á árunum 1972–1973 eru heildartekjur af ferðamönnum til Íslands, þ.e.a.s. af erlendum gjaldeyristekjum, 7.2% miðað við heildarútflutningsverðmæti þjóðarinnar, svo að þetta er orðið talsvert stór atvinnuvegur.

Formaður Ferðamálaráðs upplýsti okkur rétt fyrir þennan fund að Ísland væri eina norræna landið sem hefði ekki fullkomna löggjöf um ferðamál. Nú er það náttúrlega matsatriði hvað er fullkomin löggjöf, ég skal viðurkenna það, en alla vega vonum við að við getum sett löggjöf sem hægt er að fullkomna með tímanum, en að við komum hér á löggjöf sem geri bæði Ferðamálaráði og öllum þeim aðilum, sem að ferðamálum starfa, störfin auðveldari og betur skipulögð. Ég vil bæta því við, að eins og menn sjá á bls. 17, þá eru heildartekjurnar af erlendum ferðamönnum, sem koma til landsins, nokkuð á þriðja milljarð, eru 2.4 milljarðar, og hafa aukist eitthvað lítillega síðan þessi skýrsla er gefin út, en hún er frá árinu 1974.

Ég vil einnig að það komi fram að við þær breytingar, sem eru lagðar til í þessu frv., eykst ekki kostnaðurinn við framkvæmd ferðamála. Kostnaðurinn við framkvæmd samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, verður nokkuð líkur því sem hann er þegar dreginn er saman kostnaður við Ferðamálaráð, sem er óverulegur, enda hefur Ferðamálaráð starfað sem ólaunað ráð frá upphafi, og kostnaður við Ferðaskrifstofu ríkisins, sem sagt kostnaðurinn eykst ekki. Verður það að teljast nokkuð gott.

Ég vil líka leyfa mér að benda á að lánveitingar úr Ferðamálasjóði á þessu tímabili, sem um er getið á bls. 17, er óverulegur hér í Reykjavík. Þær eru tæpar 20 millj. af 154 millj. rúmum sem veittar hafa verið að láni úr Ferðamálasjóði. Sýnir það að Ferðamálasjóður hefur lagt mesta áherslu á að byggja upp móttöku ferðamanna og aðstöðu úti á landi. Ég held að það sé álit allra ferðamálaráðsmanna að þar sé meiri þörf og mesta þörfin sé áhersía á uppbyggingu á móttöku ferðamanna úti á landi. Það er sæmilega vel séð fyrir því hér í Reykjavík.

Þá vil ég fagna því sem fram kemur í 25. gr. í V. kafla, um Ferðamálasjóð, en þar er getið um í 1. lið: „Árlegt framlag úr ríkissjóði eigi lægra en 40 millj. kr.“ Ég tel að þetta sé mikið til bóta því að Ferðamálasjóður hefur verið févana miðað við það mikla verk sem óunnið er í ferðamálum víðs vegar um landið.

Ég vil endurtaka þakklæti mitt og okkar ferðamálaráðsmanna til hæstv. ráðh. fyrir hans áhuga á að koma þessu frv. í gegnum n. og deildir Alþ. á þessu þingi og vona að þm. almennt hjálpi til þannig að þetta frv. hljóti lokaafgreiðslu á þessu þingi, en dagi ekki uppi.