08.04.1976
Efri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3148 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

108. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. er þmfrv. Það er um það að í staðinn fyrir, að í umferðarlögum nú er skylt í vissum tilfellum að beita varðhaldi, er í þessu frv. gert ráð fyrir því að það sé sett í vald dómara hvort hann dæmir í sektir, varðhald eða fangelsi allt að tveimur árum. Eins og ég sagði er það svo, að í mörgum tilfellum er skylt að dæma í varðhald. Hins vegar hefur það tíðkast ákaflega lengi að varðhaldi hefur verið breytt í sekt, og það eru á hverju ári mjög margar slíkar breytingar sem kallaðar eru nú náðanir, en eru í þessu fólgnar, að varðhaldsdómi er breytt í sektardóm. Þessir hættir, sem þannig hafa komist á, eru út af fyrir sig ekkert skemmtilegir og það er í rauninni að mínum dómi heppilegra, að dómari hafi það á valdi sínu og geti þá strax dæmt sekt, heldur en að vera að dæma í varðhald sem svo verður síðar breytt í sekt.

Ég er, eins og ég sagði, þessu frv. samþykkur. Þetta hefur auðvitað engin áhrif á ökuleyfissviptinguna, ekki fremur en þessi svokallaða náðun hefur haft það, að þó að varðhaldi hafi verið breytt í sekt, þá helst ökuleyfissviptingin eftir sem áður.

Þetta frv. var samþ. í Nd., og ég hygg að allshn., sem fékk það þar til meðferðar, hafi mælt með því samhljóða. Ég geri það að till. minni að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.