08.04.1976
Efri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3148 í B-deild Alþingistíðinda. (2596)

23. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á umferðarlögum er stjórnarfrv., þó mjög limlest eftir meðferð í Nd. að mínum dómi, en samt hlýt ég að mæla fyrir því hér. Það má segja að þegar þetta frv. var lagt fyrir hv. Nd. hafi kjarni þess verið sá að hverfa að nýjum háttum um skráningu bifreiða, taka upp nýtt skipulag í því efni. hverfa frá því að það séu lögreglustjórar, sem fara með það, og hverfa frá því, að það þurfi að umskrá bifreið í hvert skipti sem hún skiptir um eiganda, svo sem nú er.

Jafnframt voru í þessu frv. fleiri ákvæði sem að vísu hafa sína þýðingu. Þau voru um að það skyldi tekin upp skráning á vissum vélknúnum farartækjum, sem skráning hefur ekki verið á, svokölluðum beltabifhjólum og snjósleðum.

Þriðja meginatriðið í frv. má segja að hafi verið að hækka vátryggingarfjárhæðir bifreiða í samræmi við breytta verðlagsþróun, skulum við segja, þ.e.a.s. að tvöfalda fjárhæðirnar, þannig að vátryggingarfjárhæð verði 12 millj. kr. fyrir bifreiðar, en 6 millj. fyrir önnur ökutæki, í stað þess, sem er í núgildandi lögum, það eru 6 millj. kr. fyrir bifreiðar, en 3 millj. kr. fyrir önnur ökutæki.

Þessu frv. breytti hv. Nd. á þá lund að hún felldi niður úr upphaflega frv. ákvæðin um skráningu bifreiða, um það nýja skipulag sem gert var ráð fyrir að tekið yrði upp á skráningu bifreiða, en eftir standa þá í þessu frv., sem hér er lagt fyrir þessa hv. d., hin tvö atriðin sem ég nefndi, um skráningu á vissum vélknúnum farartækjum og svo um hækkun vátryggingarfjárhæðar, auk minni háttar atriða sem eru í þessu frv.

Ég tel það að sjálfsögðu miður farið að það skyldi vera fellt í Nd. að taka upp þessa nýju skipan á skráningu bifreiða. Ég skal samt ekki fara mörgum orðum um það hér og mæla fyrir því sem þegar er búið að fella niður úr frv. En ég vil aðeins leyfa mér að vísa í grg. þar sem kemur fram hversu mikið kveður að umskráningum, að á árinu 1974 voru umskráningar 27 340. Það gefur auga leið að það er æðimikill kostnaður og vinna sem eru samfara þessu kerfi sem við höfum nú. Það var á sínum tíma gerð rækileg athugun á því hvað mundi sparast við þá hagræðingu ef tekin væri upp skráning í líkingu við það sem tíðkast annars staðar. Sú athugun mun hafa verið lögð fyrir fjvn. eða undirnefnd fjvn. á sínum tíma, 1971 eða 1972, að ég ætla, og þá var reiknað með því að sparnaðurinn mundi verða 31/2–4 millj. Þetta er nú hægt að margfalda, eins og menn geta gert sér í hugarlund, og samkvæmt viðtali, sem ég átti við forstjóra Bifreiðaeftirlitsins, telur hann að beinn sparnaður Bifreiðaeftirlitsins að því nýja kerfi yrði um 20 millj. ef það yrði tekið upp.

Nú geta menn litið svo á að 20 millj. séu ekki mikið fé nú á tímum. En samt sem áður er það fjárhæð sem sitt hvað má gera fyrir, og ég held að það hefði verið mjög virðingarvert af Alþ. að sýna vilja sinn til þess að koma við sparnaði þegar því er gefið færi á því.

Það var sitt hvað fært fram gegn því að taka upp þessa skipan, m.a. ruglingur í sambandi við þinglýsingu. En þess er að geta, að það var gert ráð fyrir því í aths. með frv. og hefur alltaf verið gert ráð fyrir því að ef þessi nýja skipan væri upp tekin, þá yrði að setja ný ákvæði um þinglýsingu, þó að það hafi ekki þótt ástæða til þess að vera að semja eða setja slík ákvæði fyrr en þessi ákvæði í umferðarlögunum hlytu samþykki.

Það var sagt sem svo, að það væri bara hægt að hækka skráningargjöldin og láta menn borga fyrir þetta og standa undir þeim kostnaði og þá lenti hann ekki á ríkissjóði. Skráningargjöldin hafa reyndar verið hækkuð, en samt sem áður hrökkva þau nú ekki til til þess að standa undir þessum kostnaði. Sjálfsagt mætti fara þessa leið. En mér finnst sú röksemdarfærsla minna nokkuð á rökin hjá karlinum sem sat á merinni með klyfjarnar á eigin baki og sagði: Hesturinn ber ekki það sem ég ber — því að auðvitað er þetta kostnaður, sem er þessu kerfi samfara hver svo sem greiðir það. Frá ríkisins sjónarmiði getur verið hagkvæmt að koma honum yfir á aðra, en eftir sem áður er það kostnaður sem einhver verður að greiða, fyrir utan þá vinnu og óhagræði sem af þessu stafar.

Eins og ég sagði, herra forseti, þá ber mér auðvitað fyrst og fremst að mæla fyrir því frv. sem ég legg hér fram og komið er frá hv. Nd. Ég tel, þó að það sé orðið annað og miklu lakara að mínum dómi heldur en það var í öndverðu, að þá sé rétt samt að afgreiða það og það sé nauðsynlegt að afgreiða það. Hins vegar mundi ég vera þessari hv. d. mjög þakklátur og þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, ef hún vildi taka upp þau ákvæði sem felld voru niður í Nd., og það mundi ekki vera í fyrsta skipti sem hv. Ed. bætir nokkuð úr mistökum sem átt hafa sér stað í Nd.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál, herra forseti. Það verður skiljanlegra ef menn hafa upphaflega frv. líka við höndina og þær athugasemdir sem því fylgja. Þar er hægt að fá skýringar á þessu sem ég leyfi mér að vísa til. Ég æski þess að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.