08.04.1976
Efri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3150 í B-deild Alþingistíðinda. (2598)

99. mál, skráning og mat fasteigna

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um skráningu og mat fasteigna. N. hefur fjallað um þetta frv. á allmörgum fundum og þ. á m. sameiginlegum fundum með fjh.- og viðskn. Nd. Umsagnir bárust frá allmörgum aðilum, sem ég mun gera grein fyrir síðar í máli mínu, og einnig komu til fundar við n. Þorsteinn Ólafsson deildarstjóri: fjmrn., Gaukur Jörundsson prófessor og Guttormur Sigurbjörnsson forstjóri Fasteignamats ríkisins. N. malir með því að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem koma fram á þskj. 505 og ég mun gera nánari grein fyrir, en hins vegar áskilja nm. sér rétt til að flytja eða fylgja öðrum brtt.

Aðalmat fasteigna frá 1970 er gert samkv. lögum nr. 28 frá 1963, um fasteignamat og fasteignaskráningu. Það er ljóst og hefur lengi verið ljóst að lagagrundvöllur matsins frá 1970 er ekki nægilega góður og mikill til þess að vera nægilega traustur grunnur fyrir framtíðarþróun fasteignamats.

Frv. var samið um fasteignamat árið 1970 af Ármanni Snævarr prófessor. Hann skilaði frv. af sér 1971 og hafði náið samráð við Samband ísl. sveitarfélaga, en hins vegar varð ekki af því að þetta frv. kæmi til meðhöndlunar Alþingis. Hins vegar var lagt fram frv. um fasteignamat og fasteignaskráningu á þingi 1973, en það frv. náði ekki fram áð ganga. Ed afgreiddi frv., en það stöðvaðist í Nd. vegna þingrofs. Nú er svo komið að ef ekki fæst ákvörðun um framtíð fasteignamats í landinu, þá er hætt við því að sá mikli kostnaður og sú mikla vinna sem hefur verið lögð í fasteignamatið, þ.e.a.s. fasteignamatið frá 1970, öll sú vinna og kostnaður sé unnið fyrir gýg. Það er því mjög brýnt að fá traustari grundvöll undir fasteignamat og má því leggja mikla áherslu á að þetta frv. nái fram að ganga hér á Alþingi.

Ég ætla mér ekki að gera grein fyrir málinu almennt, það fylgir frv. ítarleg grg. og ráðh. gerði grein fyrir málinu allítarlega í framsögu. N. leggur fram allmargar brtt.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að nafn þessarar stofnunar verði Fasteignaskrá í stað hins eldra nafns: Fasteignamat ríkisins. N. varð sammála um að það væri ekki ástæða til þess að breyta þessu nafni. Þó að það megi til sanns vegar færa að orðið „fasteignaskrá“ lýsi ef til vill betur tilgangi þessarar stofnunar, þá taldi n. ekki ástæðu til að breyta nafninu Fasteignamat ríkisins, þar sem það nafn er orðið fast í sessi og einnig mundi fylgja því allmikill kostnaður að breyta þessu nafni, svo sem prentun á nýjum eyðublöðum o. s. frv.

Í öðru lagi gerir n. það að till. sinni að 2. gr. breytist þannig að í stað orðsins „landamarka“ komi orðið: landamerkja. Það er vegna ábendingar hv. þm. Steinþórs Gestssonar. Hann gerði ítarlega grein fyrir því máli á sínum tíma við framsögu þessa máls og vísa ég til orða hans þar, þar sem hann rifjaði það upp að orðið „landamerki“ sé gamalt orð sem hafi verið í lögum lengi og sé ástæða til að halda því orði. En hér er átt við landamerki, sem eru vanalega kölluð lóðamörk ef um þéttbýli er að ræða, og þarfnast ekki frekari skýringa.

Þá er gerð brtt. við 2. málsgr. 2. gr., en hún hljóðar svo í frv.: „Ef um sérgreindan eignarrétt eða sérstaka notkun einstakra hluta mannvirkja er að ræða, skal samkvæmt lögum þessum farið með slíka eignarhluta sem fasteignir, sbr. 3. gr., lið 3.22.“

Hér er um það að ræða að aðskilja sérstakar einingar, t.d. í fjölbýlishúsum, og það sé litið á hverja einingu sem sérstaka fasteign. En brtt. er flutt vegna þess, að til þess að svo megi vera þarf skipting og eignarhlutföll að liggja fyrir í þinglýstum heimildum. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að það sé ekki um að ræða sérstaka fasteign nema það liggi fyrir í þinglýstum heimildum hvernig skiptingin er og hvernig eignarhlutföllin eru. T.d. ef í einu húsi er annars vegar íbúð á efri hæð og verslun á neðri hæð og eigandi sæi ástæðu til að skipta þessari eign í tvær fasteignir, þá yrði það að gerast á þann hátt að hann yrði að þinglýsa slíku skjali þar sem þessi ósk kæmi fram.

Þá er gerð brtt. við 3. gr., en 3. gr. fjallar einkum um þær upplýsingar sem á að afla varðandi fasteignina. Þessi upptalning í 3. gr. er allítarleg, og við athugun kom í ljós að upptalningin er nokkuð gölluð og einnig voru margvíslegar óskir um að þar yrðu tekin upp fleiri atriði. En þó voru margir sem bentu á að það væri erfitt og óeðlilegt að lögfesta slíka upptalningu. Þess vegna er lögð til breyting eins og segir ? brtt. n. við 3. gr.: „Setja skal í reglugerð ákvæði um söfnun og skráningu upplýsingaatriða svo og um helstu skrár gefnar út á grundvelli þeirra.“ Það er því gert ráð fyrir að þessi upptalning verði ákveðin með reglugerð.

Þá kemur fram brtt. frá n. við 4. gr. Er það gert vegna ábendinga frá Þróunarstofnun Reykjavíkurborgar, en umsögn barst frá þeirri stofnun. Sú stofnun sagði eftirfarandi um 4. gr.:

„Það vantar alveg ákvæði um að skráningu skuli breytt þegar mannvirki er breytt. Erfitt er að gera sér grein fyrir hvers vegna byggingarstigið tilbúið undir tréverk er valið fram yfir önnur“ — en 4. gr. hafði gert ráð fyrir því. „Í Reykjavík er t.d. mun auðveldara að fá upplýsingar um fokheld mannvirki og svo mun víðar. Eðlilegast er að hugsa sér að skráning fari fram í hvert skipti sem húsið er skoðað, sama á hvaða byggingarstigi það er. Með aðstoð þessara upplýsinga mætti síðan mynda tölfræðilegar reglur um hvenær vænlegast væri að skoða húsið næst. Á það skal bent, að ef matsverð húss er ekki í samræmi við byggingarstig þess eða ef matshæft hús er ekki metið strax tapast töluverðar upphæðir í fasteignagjöldum.“

Í samræmi við þetta höfum við gert það að till. okkar að 4. gr. hljóði svo: „Upplýsingar samkvæmt 3. gr. skulu skráðar og skráningu þeirra breytt þegar landsstærðir breytast, notkun lands breytist, svo sem víð gerð lóðarsamninga“ — og við bætist: „eða úthlutun lóðar, en ella á byggingartíma mannvirkis“ — í stað orðanna: „þegar mannvirkið er fullgert fyrir gerð innréttinga, þegar hús er fullgert“ — og síðan kemur áfram: „þegar mannvirki er tekið í notkun og loks þegar mannvirki er breytt eða eytt.“

Þessi breyting er í samræmi við þá ábendingu sem kom frá Þróunarstofnun Reykjavíkur.

Þá er einnig gerð till. um breytingu á 2. málsgr. 4. gr., en hún hljóðaði þannig áður samkvæmt frv.: „Upplýsingar skulu einnig skráðar við eignaskipti eða breytingu á umráðum eignar, sbr. 12. gr.“ Við þetta bætist: „Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar. Þ. á m. hve oft fasteignir skuli skoðaðar af Fasteignamati ríkisins.“

Það komu fram allmargar ábendingar þess efnis, m.a. frá bæði Þróunarstofnun Reykjavíkurborgar og borgarstjórn Reykjavíkur eða borgarráði, að það væri æskilegt og í reynd töldu þeir nauðsynlegt að það væri ákvæði þess efnis í lögunum hve oft fasteignir skuli skoðaðar. En það var ekki talið kleift að ákveða það nú í eitt skipti fyrir öll. Þessi mál þurfa að þróast. Hins vegar var n. sammála um að það þurfi að skoða fasteignir með vissu millibili, en niðurstaðan varð að slíkt skyldi ákveðið í reglugerð.

Þá er gerð lítils háttar breyting á 5. gr. í samræmi við ábendingu frá Þjóðhagsstofnun, en Þjóðhagsstofnun var einn þeirra aðila sem sendu umsögn. Segir svo í umsögn Þjóðhagsstofnunar varðandi þessa grein:

„Áríðandi er að koma á skráningu hverrar íbúðar og láta íbúa vita hver merkingin er. Í Danmörku er gert ráð fyrir að starfsmenn fasteignamats lími miða á hurðir til að byrja með, en eigendum verði síðan skylt að útbúa varanlegar merkingar. Á öllum húsum eru nú járnskilti með matrikelnúmeri þess. Hagstofustjóri er meðmæltur því að eins sé farið að hér. Á þann hátt væri hægt að skylda menn til að skrifa íbúðarnr. á skattskýrslur og tilkynningar um flutninga og útkoman væri ókeypis manntal og íbúaskrá á hverju ári og sjálfkrafa endurnýjun fasteignaskrár árlega. Á þann hátt kæmu fram upplýsingar um ólöglegar íbúðir og nánari athugun þeirra væri auðveldur eftirleikur. Ef til vill mætti þá koma í veg fyrir ýmiss konar óhöpp.“

Það þótti rétt að taka tillit til þessarar ábendingar, og þess vegna er bætt við í 2. mgr. fyrir aftan, „staðgreinistölukerfis“ orðinu „matrikel“ innan sviga til þess að leggja áherslu á við hvað er átt. Einnig er bætt við í þessa grein að heimilt sé að skylda fasteignaeigendur til að sjá um auðkenningu fasteigna samkvæmt greinitalnakerfi Fasteignamats ríkisins. Nm. höfðu ekki fullvissu fyrir því að slíkt yrði nauðsynlegt, en það var talið rétt að slík heimild væri fyrir hendi ef þetta kerfi gæti ekki verkað nema til kæmi að eignirnar yrðu merktar. Hins vegar verður það að koma í ljós. Það er sjálfsagt ekki æskilegt að fara út í stórt fyrirtæki til þess að koma því á, en það verður að meta eftir því sem þessi mál þróast, og því þótti rétt að hafa þessa heimild ef rétt þætti að framkvæma það síðar meir.

Þá er í fimmta lagi gerð brtt. við 6. gr., en 2. málsgr. 6. gr. hljóðar svo:

„Ráðh. hefur heimild til að fela öðrum aðila framkvæmd laganna ef slík breyting þykir hagkvæm.“

Í grg, kemur fram að hér er fyrst og fremst átt við Hagstofu Íslands. En það komu fram allmargar ábendingar, sérstaklega frá Reykjavíkurborg, að það gæti reynst hagkvæmt að fela einstökum sveitarfélögum eða stofnunum á vegum sveitarfélaga að annast ýmis ákvæði þessara laga. N. þótti rétt að taka tillit til þessara ábendinga og bæta því við í þessari grein. Er lagt til að 2. málsgr. 6. gr. orðist svo:

„Ráðh. hefur heimild til að fela óðrum opinberum aðilum, þ.m.t. einstökum sveitarfélögum eða samstarfsstofnunum þeirra, skráningu fasteigna samkv. lögum þessum, ef slík breyting þykir hagkvæm.“

Það bendir margt til þess að slíkt gæti verið hagkvæmt og því er nauðsynlegt að slík heimild sé í lögunum og hún sé ótvíræð.

Í sjötta lagi breytist 7. gr. aðeins á þann hátt, eins og margar aðrar gr., að í stað „Fasteignaskrár“ kemur: Fasteignamat ríkisins.

Í 8. gr. er gert ráð fyrir því að við Fasteignamat ríkisins starfi ráðgefandi n. þeirra aðila sem nýta eða nýtt geta þessa skrá í rekstri sínum. Er lagt þar til að í þessari n. eigi sæti 2 fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga, fulltrúi Sambands ísl. tryggingarfélaga, fulltrúi Húsa- og landeigendasambands Íslands og fulltrúi samstarfsnefndar banka og sparisjóða. N. gerir það að brtt. sinni að í þessari n. eigi sæti þrír fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga í stað tveggja, þar af einn þeirra tilnefndur af Reykjavíkurborg. Það er ljóst að meginhluti fasteigna er hér á höfuðborgarsvæðinu, og það liggur alveg ljóst fyrir að það er nauðsynlegt að Reykjavíkurborg sé með í þessu starfi. Því þótti nauðsynlegt að taka sérstaklega fram að einn fulltrúi skyldi vera frá Reykjavíkurborg, þótt allar líkur væru til að Samband ísl. sveitarfélaga mundi tilnefna fulltrúa þaðan. Síðan er lagt til að bæta við í þessa n. fulltrúa frá Brunabótafélagi Íslands, en Brunabótafélag Íslands mun annast um 95% af tryggingum fasteigna utan Reykjavíkur.

Þá er gert ráð fyrir því að í stað samstarfsnefndar banka og sparisjóða komi Samband ísl. viðskiptabanka.

Frv. var sent til umsagnar samstarfsnefnd banka og sparisjóða, en samstarfsnefndin eða samvinnunefndin tók fram að verkefni hennar væri mjög þröngt, aðeins á sviði aðgerða í tékkamálum. Þess vegna þótti rétt að í stað samstarfsnefndar kæmi Samband Ísl. viðskiptabanka sem er eðlilegri aðili í þessu sambandi. Þá er gert ráð fyrir því að inn komi fulltrúi frá Landmælingum Íslands, frá Hagstofu Íslands, frá Þjóðhagsstofnun og Skipulagsstjórn ríkisins.

Ég sé nú að Samband ísl. tryggingarfélaga hefur fallið niður í brtt. Það virðist hafa fallið niður í vélritun, og vænti ég þess að n. reynist unnt að koma þeirri leiðréttingu að, því að það er gert ráð fyrir því í frv. að Samband ísi. tryggingafélaga eigi einn fulltrúa í þessari n., og það var ekki hugmynd fjh.- og viðskn. að þessi fulltrúi félli út. Því er hér um mistök að ræða sem ég vænti að verði hægt að leiðrétta.

En ástæðurnar til þess, að hér er bætt við fulltrúum, eru sérstaklega þær, að það er mjög nauðsynlegt að sem flestir aðilar komi til með að hagnýta sér þetta nýja fasteignamat. Hagnýtt gildi fasteignamats er mjög mikið þótt það sé erfitt að sjá út fyrir allt það svið. Þeir aðilar, sem gætu haft not af skránni, eru m.a. ríkissjóður við álagningu skatta og gjalda sem taka mið af fasteignamati, sveitarstjórnir við álagningu fasteignaskatta og annarra gjalda sem taka mið af fasteignamati, tryggingafélög, bankar, lánastofnanir og aðrir hliðstæðir aðilar, einstaklingar og fyrirtæki í fasteignaumsýslu, þinglýsingardómarar við töku þinglýsingar- og stimpilgjalda, Þjóðhagsstofnun við gerð þ]óðhagsreikninga, Framkvæmdastofnun við áætlanagerð, Hagstofa Íslands við ýmsa upplýsingasöfnun við hagskýrslugerð, skipulagsyfirvöld til afnota fyrir skipulag bæja og kauptúna, Landmælingar Íslands vegna landmælinga, ríkissjóður vegna skrásetningar ríkiseigna og áætlanagerðar um þróun ýmissa gjaldstofna o.fl., Almannavarnir, samtök landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar, og sjálfsagt mætti bæta hér við. En þessi upptalning ætti að nægja til þess að sýna fram á hversu mikilvægt þetta mat getur verið.

Á það skal hins vegar lögð áhersla, að með réttu og nákvæmu fasteignamati á hverjum tíma má fella niður hliðstæða starfsemi hjá fjölda aðila til verulegs sparnaðar, svo sem brunabótamat með breytingu á lögum um brunatryggingar, ýmis möt vegna lántöku, eignarnáms, vátrygginga og veðsetninga. Því er nauðsynlegt að þeir aðilar, sem gætu og koma til með að geta notað þetta mat í framtíðinni, hafi möguleika á að hafa áhrif á þessa starfsemi og þannig sé með lögunum reynt að tryggja það enn betur að þessir aðilar komi til með að nota þetta mat og verði smám saman hætt að nota sjálfstæð möt hinna einstöku aðila. Jafnframt má benda á að í fasteignamatinu hefur verið safnað saman ýmsum gögnum sem koma sérstaklega að haldi þegar gera þarf vissar tegundir af greiningum (eða analýsum). Vitneskja er t.d. fyrir hendi um hvert hús hvers konar kynding er í húsinu, og má hugsa sér hvers virði slík vitneskja er ef alvarlega er hugleitt að innleiða rafmagnshitun húsa samhliða hitaveitu sem mjög er rætt um nú í þeirri orkukreppu sem yfir okkur hefur dunið. Sama máli gegnir um ýmsar aðrar upplýsingar, svo sem fjarlægðir sveitabýla frá þjóðvegi og fleira af slíku tagi. Vélvædd geymsla upplýsinga þessara í fasteignaskrá tryggir jafnframt auðvelda notkun þeirra þegar á þarf að halda. Af þessu ætti að sjást að fasteignamatið og skráin hefur of þýðingarmiklu hlutverki að gegna í okkar þjóðfélagi til að hægt sé að vanrækja þetta hlutverk.

Ég tel að ég hafi með þessu bent á að það var mikilvægt að bæta hér við ýmsum aðilum sem gætu hagnýtt sér þessa starfsemi.

Í áttunda lagi er gerð brtt. við 9. gr., en breyt. eru litlar. Í 2. málsgr. bætist við setningin: „Eigendum fasteigna er skylt að veita þær upplýsingar um fasteignir sem um er beðið.“ Það þótti nauðsynlegt að hafa slíkt ákvæði í lögum, að eigendum væri skylt að veita upplýsingar um fasteignir, og þess vegna var það tekið inn. Í 5. málsgr. verður sú breyting að í stað orðsins „mannvirkjagerðar“ kemur orðið: fasteigna. Og í 6. málsgr. bætist, en hún hljóðar svo í frv.: „Fasteignaskrá sendir hverju sveitarfélagi árlega skrá með nægum upplýsingum um fasteignir til að gengið verði úr skugga um að aðilar skv. 2. málsgr. hafi fullnægt upplýsingaskyldu sinni.“ Það þótti nauðsynlegt að setja um þetta nánari ákvæði í reglugerð og þess vegna er lagt til að málsgr. orðist svo:

„Fasteignamat ríkisins sendir hverju sveitarfélagi árlega skv. nánari ákvæðum í reglugerð skrá með nægum upplýsingum um fasteignir til að gengið verði úr skugga um að aðilar skv. 2. málsgr. hafi fullnægt upplýsingaskyldu sinni.“

Það er mjög líklegt og í reynd víst að það verða fleiri aðilar, sem koma til með að senda inn breytingar, en byggingarfulltrúar og sveitarstjórnir, og þess vegna er nauðsynlegt að Fasteignamat ríkisins sendi sveitarfélögum upplýsingar um slíkar breytingar, sem sveitarfélög hafa ekki vitneskju um. En það er ljóst að þá þarf að setja um það nánari ákvæði og því var bætt við að það skyldi gert í reglugerð.

Í 10. gr. breytist aðeins nafn stofnunarinnar, og sama er um 11. gr.

Við 12. gr. er mjög lítils háttar brtt., sem er vegna annarra breytinga, og einnig á eftir orðunum: „Fasteignaskrá kveður á um form og efni slíkra tilkynninga og er eigendum skylt að veita allar þær upplýsingar sem um er beðið“ — falli niður orðin: „þ. á m. um söluverð eða leigu.“ Þessi brtt. er flutt skv. ábendingu Þjóðhagsstofnunar.

Í 13. gr. breytist aðeins nafn stofnunarinnar, en 14. gr. breytist allnokkuð og þar er um þýðingarmikla grein að ræða. 14. gr. hljóðar svo í frv.:

„Fasteignaskrá selur þeim, sem þess óska, upplýsingar úr skránni og úrvinnslu á þeim. Verðlagning þessarar þjónustu skal miðast við endurheimtu kostnaðar Fasteignaskrár, að því marki sem fjárlög á hverjum tíma gera ráð fyrir.“ N. gerir að till. sinni að þessi grein hljóði svo: „Fasteignamat ríkisins veitir þeim, er þess óska, upplýsingar úr skránni og er jafnframt heimilt að veita þjónustu um úrvinnslu á þeim“ — þ.e. upplýsingunum.

Meginatriðið er að þessi skrá, sem verður í höndum Fasteignamats ríkisins, á að vera opinber skrá og opin öllum. Hins vegar er ekki ástæða til þess að hverjum sem er sé veitt úrvinnsla á þeim upplýsingum sem þar eru þótt skráin sé opin. Það á hver sem er að geta komið og fengið að skoða þessa skrá, en hins vegar verður það að vera mat stofnunarinnar hvort veita eigi aðila, sem um biður, úrvinnslu á þeim upplýsingum sem eru í skránni.

Þá er gerð till. um að 2. málsgr. 14. gr. orðist svo:

„Verðlagning þessarar þjónustu skal miðast við endurheimtu kostnaðar Fasteignamats ríkisins, að því marki sem fjárlög á hverjum tíma gera ráð fyrir.“ Og síðan: „Við verðlagningu þjónustu til sveitarfélaga skal tekið sérstakt tillit til upplýsingasöfnunar þeirra, sbr. 3. gr.

Það er alveg ljóst að sveitarfélög koma til með að leggja til meginhluta af þeim upplýsingum sem byggt verður á, og þess vegna þykir það rétt og í reynd sjálfsagt að verðlagning til þeirra taki mið af þessari staðreynd. Því þótti rétt að það væri ótvírætt í lögum að sveitarfélögin ættu að njóta annarra kjara en aðrar stofnanir sem ekki leggja til upplýsingar í skrána.

Þá er gert ráð fyrir því að á eftir 15. gr. komi ný gr. sem fjallar um hvaða eignir eru undanþegnar fasteignamati. Það hefur verið svo að hér hefur verið um reglugerðarákvæði að ræða, en það þótti rétt að taka þessi ákvæði inn í lögin. Er þessi lagagr. samhljóða reglugerðinni með lítils háttar hreytingum, en þá er um það að ræða hvaða eignir eru undanþegnar fasteignamati, aðallega ýmsar eignir sem ríkissjóður á og á vegum opinberra aðila.

Gert er ráð fyrir að nokkur breyt. verði á 16. gr. sem verður 17. gr. Það er einkum það atriði, að gert er ráð fyrir því í frv. að hlunnindi, sem eru óháð búsetu, þ.e. önnur en dúntekja, eggjatekja, fuglatekja, hvers konar veiði til eigin nota og reki skuli í þessu sambandi sérmetin sem hluti gangverðs sem næst tiföldum árlegum nettótekjum af þeim. Þarna eru sem sagt sérstök ákvæði um mat í slíkum tilfellum. Það þótti ekki rétt að hafa svo nákvæmt orðalag um þessa hluti í lögunum, en ekki um aðra, og því leggur n. til að þessi setning falli niður og hljóðar greinin í brtt. í samræmi við það.

10. brtt. er við 18. gr., sem verður 19. gr., en 3. málsgr. þessarar greinar hljóðar svo:

„Beri brýna nauðsyn til af framkvæmdaástæðum er Fasteignaskrá heimilt, að fengnu samþykki ráðh. og meðan þörf krefur, að ráða trúnaðarmenn í einstökum kjördæmum sem annist mat og/eða skoðun fasteigna. Ef til kemur skal í reglugerð setja nánari ákvæði um ráðningu og starfssvið trúnaðarmanna.“

Nm. þótti óþarflega margir fyrirvarar vera í þessu orðalagi, enda er það skoðun þeirra aðila, sem hafa starfað að matinu, að það verði nauðsynlegt að hafa slíka trúnaðarmenn, og þess vegna er lagt til að 3. málsgr. orðist svo:

„Fasteignamati ríkisins er heimilt að fengnu samþykki ráðh. að ráða trúnaðarmenn í einsstökum kjördæmum, er annist mat og/eða skoðun fasteigna. Ef til kemur skal í reglugerð setja nánari ákvæði um ráðningu og starfssvið trúnaðarmanna.“

Það verður skv. þessu mati stofnunarinnar og með samþykki ráðh. að ráða slíka trúnaðarmenn. Ekki þótti ástæða til að draga meira úr þessu með öðru orðalagi, enda hafa allflestir trú á, sem til þessara mála þekkja best, að það muni reynast nauðsynlegt að ráða slíka trúnaðarmenn, og verður það væntanlega gert við framkvæmd þessara laga.

Herra forseti Þetta er nú orðið alllangt mál, en ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar brtt. nema ákvæði til bráðabirgða. Það er gerð lítils háttar breyting á ákvæðum til bráðabirgða sérstaklega að ákvæði til bráðabirgða nr. V. falli niður, það er óþarft, en hins vegar komi inn nýtt ákvæði til bráðabirgða sem verði nr. V. og orðist svo:

„Áður en nýtt fasteignamat tekur gildi hinn 1. des. 1976, sbr. 3. málsgr. 26. gr., skal fara fram endurskoðun á ákvæðum gildandi laga sem fasteignamat hefur áhrif á, þannig að samþykkt þessara laga valdi ekki breytingum á gjöldum af fasteignum.“

Það er ljóst að þessi lög eru ekki tekjuöflunarlög. Hér er aðeins verið að breyta fasteignamati. Það er nauðsynlegt í framhaldi af lagasetningu þessari að breyta ýmsum öðrum lögum, svo sem um tekjuskatt og eignarskatt og um tekjustofna sveitarfélaga, því að það er ljóst að með tilkomu þessara laga mun fasteignamat stórhækka. Því vildi n. leggja á það áherslu að það yrði að fara fram endurskoðun á ákvæðum þeirra laga sem nýtt fasteignamat hefur áhrif á, og verður verkefni Alþingis að ákveða þá hve há gjöld skuli lögð á fasteignir. En aftur á móti skal skýrt tekið fram að þessi lög eiga ekki að leiða af sér aukna skattlagningu.

Ég vil að lokum leggja til að þetta frv. verði samþ. og fái skjóta afgreiðslu. Það verði lögð á það áhersla af þeim aðilum, sem vinna að þessum málum, að það sé nauðsynlegt að fá lög um þessi efni sem fyrst. Það hefur dregist í mörg ár af mörgum ástæðum. Því vil ég eindregið leggja til — og nm. eru sammála um það — að frv. verði samþ. með þeim brtt. sem n. hefur lagt fram.