08.04.1976
Efri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3163 í B-deild Alþingistíðinda. (2606)

145. mál, afréttamálefni

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl. er samið af svokallaðri landnýtingarnefnd, sem hér starfaði fyrir þrem árum og er þetta frv. flutt til þess að gera kafla þeirra laga um ítölu gleggri og auðveldari í framkvæmd heldur en talið var að hann væri í lögunum.

Landbn. hefur rætt þetta frv. á fundum sínum og leitað umsagnar ýmissa aðila, þ. á m. Búnaðarfélags Íslands, Landgræðslu ríkisins og Sambands ísl. sveitarfélaga, og fengið frá öllum þessum aðilum jákvæðar umsagnir um frv.

Við athugun í n. sýndist okkur augljóst að nægilega skýrt kæmi það ekki fram að lögin tækju einnig til þéttbýlisstaða eða kaupstaða í landinu, og það er kannske skiljanlegt vegna þess að frv.er samið fyrir það löngu að síðan hafa fjölmargir kaupstaðir verið stofnaðir í landinu. Þó að upphaf afréttamálalaganna sé á þá lund að þar sé tekinn af allur vafi um að kaupstaður tilheyri því fjallskilaumdæmi sem sú jörð var í sem kaupstaðurinn hefur risið á, þá þurfti eigi að síður að gera það algjörlega ótvírætt að lögin gætu náð til þéttbýlisstaðanna einnig. Ég þarf ekki að færa að því rök, ég veit að hv. dm. eru það kunnugir þeim málum viða um land, að það er hverjum manni auðséð að þar er einnig þörf að fylgjast með, að ekki sé um ofnotkun lands að ræða. En eins og ég sagði áðan, þá var frv. samið með það fyrir augum að það væri um mjög lítinn vanda að ræða að því er kaupstaðina varðar, og því er hvarvetna í frv. talað um hreppsnefndir og hreppsfélög, en samheiti sveitarfélaga á Íslandi er sveitarfélag. Því höfum við gert það að till. okkar að hvarvetna í þessu frv. verði breytt úr hreppsnefndum í sveitarstjórnir og úr hreppum í sveitarfélög. Með því móti virðist það vera ótvírætt að lögin taki einnig til þessara staða sem ég gat um áðan.

Í 23. gr., 2. málsl., er komist svo að orði á einum stað: „Um rétt einstaklinga innan viðkomandi kaupstaða eða kauptúns fer eins og um venjulegt sveitarfélag sé að ræða.“ Þetta þótti n. ekki vera eðlilegt orðafar og leggur því til að þessu verði breytt eins og segir í 6. brtt. n„ að fyrir „venjulegt sveitarfélag sé að ræða“ komi: önnur sveitarfélög og einstaklinga innan þeirra sé að ræða.

Í 24. gr. leggur n. til að við 1. málsgr. bætist svo hljóðandi: „enda sé það land, ef um heimaland er að ræða, girt fjárheldri girðingu.“ Þetta er ábending frá Sambandi ísl. sveitarfélaga sem n. féllst á. Það er gert ráð fyrir því að eigandi jarðeignar, sem vilji lána nytjar af landi sínu, en sveitarstjórn synji um, þá geti hann krafið sveitarstjórnina um beitarleigu eftir mati ítölunefndar. En landbn. litur svo á að þetta eigi ekki að vera fært nema það land, sem um er að ræða, sé afgirt fjárheldri girðingu svo að einstaklingurinn setji ekki fé í landið nágrönnum sínum til meins.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta frv., en n. leggur til einróma að frv. verði samþ. með þeim breyt. sem ég hef lýst hér.