08.04.1976
Neðri deild: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3166 í B-deild Alþingistíðinda. (2622)

162. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Virðulegi forseti. Félmn. fjallaði um þetta frv. og leggur til að bað verði samþ. með breytingu, svo sem gert er ráð fyrir á þskj. 487, í nál., að fyrri mgr.

1. gr. hljóði svo: „Í hreppum, þar sem ekki er starfandi sveitarstjóri eða annar starfsmaður við stjórn sveitarfélagsins, skulu oddvitar eiga rétt á launum úr sveitarsjóði vegna starfa sinna samkv. 39. gr.

N. hélt tvo fundi um þetta mál og fékk Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga til viðræðna á síðari fundinn. Var málið þar rætt frá ýmsum hliðum og fleiri dæmi athuguð en fram kemur í grg. með frv. til að kanna hvort um sveiflukenndar breytingar kynni að vera að ræða á milli sveitarfélaga, og reyndist um eðlilega samsvörun að ræða. Fram kom að ef sveitarfélag, sem rétt á til þess lögum samkv. stærðar sinnar vegna og ekki hefur ráðið sveitarstjóra, hyggst gera það, þá mundi kostnaður við starfið ekki verða undir 2 millj. kr. N. þótti þó rétt að gera ráð fyrir þeim möguleika að tiltölulega stórt sveitarfélag miðað við íslenskar aðstæður taki þá ákvörðun að ráða ekki sveitarstjóra að formi til. Tekjur sveitarfélagsins kynnu þó að vera það miklar að tekjur oddvita samkv. lögum yrðu e.t.v. mun meiri en launum sveitarstjóra næmi. Slíkt sveitarfélag gæti ekki annað öllum umsvifum eða veitt eðlilega þjónustu nema því aðeins að ráða starfsmann við stjórnunarstörf. Í minni sveitarfélögum kynnu sveitarstjórnir að vilja ráða mann í hluta úr starfi til að annast ákveðna þætti, t.d. bókhald. Af þessum sökum þótti n. rétt að taka af öll tvímæli um að ákvæðin um það, sem ég vil kalla lágmarkslaun oddvita, gildi ekki þegar maður er sérstaklega ráðinn til stjórnunarstarfa hjá sveitarfélaginu. Þess vegna er komin inn sú brtt. sem ég las hér upp, þegar ég mælti fyrir þessu máli við 1. umr. gat ég þess, að dæmi væru tekin úr einstökum sveitarfélögum, og ég skýrði þá hvernig á því stendur að nokkurs misræmis kann að gæta í tekjum þessara viðmiðunarsveitarfélaga sem skýrt er frá í töflu í grg. með frv. Hér var um að ræða sveitarfélög tekin af handahófi, sem ekki er hægt að taka sem eitthvert vegið meðaltal af sveitarfélögum af viðkomandi stærð. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu svo og hinu, að í landinu eru 112 sveitarfélög sem eru með minna en 200 íbúa, þ.e.a.s. fullur helmingur sveitarfélaga í landinu hefur lægri íbúatölu en 200, og það eru 39 sveitarfélög í landinu sem eru með minna en 100 íbúa. í dæminu, sem tekið er í grg., er aðeins eitt sveitarfélag sem er með innan við 200 íbúa. Þetta sveitarfélag, sem er Hafnahreppur í Gullbringusýslu, er með tiltölulega háar álögur og háar tekjur miðað við stærð sveitarfélagsins. En tekjurnar mótast náttúrlega af þrennu: stærð sveitarfélagsins eða íbúafjöldanum, þeirri prósentu sem notuð er við álagningu opinberra gjalda og þeim tekjum sem íbúar sveitarfélagsins hafa. Ég vildi minnast á það vegna þess að það mætti ætla að oddvitalaunin væru tiltölulega hærri að meðaltali um landið heldur en rétt er; miðað við þessa töflu.

N. gerði ýmsar athuganir á þessu og reiknaði út nokkur sveitarfélög til þess að sjá hvort um raunverulegt ósamræmi væri að ræða og hverjar væru raunverulegar tekjur oddvita í hinum minni sveitarfélögum.

Ég vil aðeins geta þess að ég tók með mér athugun á einu sveitarfélagi með 149 íbúa. Álagningin í þessu sveitarfélagi er nokkuð eðlileg miðað við sveitarfélög af þessari stærð, 7.5% útsvarsálagning, en í þessum sveitarfélögum er mjög algeng 7–8% álagning og nokkuð viða 6%. Samkv. núgildandi reglum hefði oddviti í þessu sveitarfélagi fengið 142 þús. kr. í oddvitalaun yfir árið, þ.e.a.s. innan við 12 þús. kr. á mánuði fyrir alla sína umsýslan, stjórnunarstörf, ábyrgð, innheimtu, gerð reikninga, — innan við 12 þús. kr. á mánuði. Ef nýja kerfið hefði verið lögleitt á s.l. ári og notaðar sömu forsendur til viðmiðunar, þá hefði viðkomandi oddviti fengið í laun 217 þús. kr. Hér er að vísu um nálægt 52.8% hækkun að ræða, en eigi að síður væri hann með nokkuð innan við 20 þús. kr. á mánuði.

Í öðru sveitarfélagi, sem ég athugaði, tók ég dæmi um 115 íbúa þar sem álagningarprósentan er 6%. Samkv. ríkjandi ákvæðum átti hann að hafa í laun á s.l. ári 116 þús. kr. Það er innan við 10 þús. kr. á mánuði eða um það bil. En samkv. nýja kerfinu hefði hann átt að fá 178 þús. kr. á árinu, og þarna hefði verið um 51% hækkun að ræða.

Mér þykir ástæða til að benda á þetta sérstaklega, að í 112 sveitarfélögum af 223 er um þessar upphæðir að ræða. Og enda þótt það kunni að heyrast raddir að nú á tímum ætti Alþ. ekki að samþykkja 50% hækkun á launum ákveðins hóps manna sem hafa á undanförnum árum innt af hendi þegnskaparstarf án launa eða a.m.k. fyrir lítil laun, þá er hér um að ræða svo gamlar reglur að það má segja að það hafi verið eðlilegt — ég vil segja á undanförnum áratugum, að þessi leiðrétting hefði komið smátt og smátt og þess vegna prósentuhækkunin ekki orðið svona mikil? einu stökki. Hins vegar verð ég að vekja athygli á því að hækkun, sem miðuð er við hlutfall af hindraði. er hér mjög óraunhæf, vegna þess að þegar við lítum til þess hver þessi hækkun er í krónutölu, þ.e.a.s. 5 –10 þús. kr. hækkun á mánuði í meiri hluta sveitarfélaganna í landinu, þá er ekki ástæða til þess að líta þessa hækkun eins alvarlegum augum. En að sjálfsögðu er hún meiri í stærri sveitarfélögum, sveitarfélögum af þeirri stærð að þar kann að vera matsatriði hvort oddviti sé látinn gegna þessum störfum eða sveitarstjórinn.

Ég hygg að ég þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð að sinni. Um þetta var samstaða í n. Ellert B. Schram skrifaði undir nál. með fyrirvara, og hann mun eflaust gera grein fyrir þeim fyrirvara sem hann hafði á um undirskrift. En miðað við þær móttökur, sem frv. hefur fengið, vænti ég þess að það gangi greiðlega í gegn.