08.04.1976
Neðri deild: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3168 í B-deild Alþingistíðinda. (2623)

162. mál, sveitarstjórnarlög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég á sæti í félmn. og hef tekið þátt í afgreiðslu þessa máls og hef skrifað undir álit n. með fyrirvara, eins og fram kom í máli hv. frsm. Ég vildi aðeins gera grein fyrir því hvers vegna ég skrifaði undir með fyrirvara.

Ég tel eðlilegt og sanngjarnt að oddvitar fái greidda þóknun fyrir störf sín sem slíkir. Hingað til hefur sú regla verið gildandi samkv. lögum að þóknun oddvita hefur verið ákveðið hlutfall af innheimtu viðkomandi sveitarfélaga. Hugmyndin að baki þeirri aðferð er sjálfsagt sú, að þar sé um að ræða nokkra hvatningu fyrir oddvita að standa vel að innheimtunni. Þetta er verjanleg aðferð, en hvergi nægilega góð. Hins vegar er lagt til að lögunum verði breytt þannig að meginhluti launa eða þóknunar oddvita sé ákveðið hlutfall af rekstrartekjum sveitarsjóðs og fyrirtækja sveitarfélaga. M.a. er þá talinn hluti sveitarsjóðs úr Jöfnunarsjóði sem viðkomandi sveitarfélög fá í sinn hlut án tiltölulega mikillar fyrirhafnar.

Það er óheppileg aðferð að mínu áliti að miða þóknunina við rekstrartekjur, eins og hér er gert ráð fyrir. Rekstrartekjur sveitarfélaga geta verið mjög mismunandi. Tekjur sveitarfélaga þurfa ekki að vera í neinu samræmi við íbúafjölda. Það getur verið um að ræða mjög fámennt sveitarfélag sem hefur miklar tekjur vegna þess að í hreppnum er staðsett stórt og mikið fyrirtæki sem greiðir veruleg gjöld til viðkomandi sveitarfélags og tekjur sveitarfélagsins þar af leiðandi í engu samræmi við íbúafjölda viðkomandi hrepps eða sveitarfélags. Þar að auki getur skapast ákaflega mikið ósamræmi milli tveggja jafnfjölmennra sveitarfélaga án þess að störf oddvita séu í neinu samræmi við væntanlega þóknun af þeim ástæðum sem ég gat um áðan, að tekjur sveitarfélaga þurfa alls ekki að vera í neinu samræmi við það hversu margir búa innan umdæmisins. Þá er líka vert að geta þess, að sveiflur geta orðið mjög miklar á milli ára. Tekjur sveitarfélags geta farið mjög hátt eitt árið og lágt næsta ár. Þetta hefur mikil áhrif á þóknun oddvita, bæði til hækkunar og lækkunar, og ég tel ekki skynsamlega aðferð að miða þóknun þeirra við slíkar tilviljanir sem oft geta valdið mismunandi háum tekjum sveitarfélaga. Þannig geta rekstrartekjur sveitarfélaga farið mjög úr hófi fram, og ég tel það ekki vera skynsamlega reglu að miða laun starfsmanna hjá sveitarfélögum eða yfirleitt hjá aðilum við tekjur. Eðlilegast er að sveitarfélögin ákveði sjálf þóknun oddvita sinna og að sú þóknun sé í samræmi við störf þeirra og umfang oddvitastarfsins.

Þetta eru meginástæðurnar fyrir því að ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara.