05.11.1975
Neðri deild: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Páll Pétursson:

Virðulegi forseti. Frv. það, sem hér er til umr. fund eftir fund, er í sjálfu sér kannske ekki mjög stórt mál — og þó. Það getur orðið afdrifaríkt fyrir atvinnurekstur í landinu hvernig því reiðir af.

Einn hv. ræðumaður, sem hefur talað í þessum umr., líkti þessu frv. við Trójuhest, sem hv. flm., Gylfi Þ. Gíslason, hefði laumað hér inn í deildina. Mér finnst þessi samlíking ekki að öllu leyti hitta í mark. Þetta minnir mig miklu fremur á söguna af Agli heitnum Skallagrímssyni þegar hann gamall og lúinn lét sig dreyma um að fara til Þingvalla með gullið sitt, dreifa því þar út um vellina og þá mundi þingheimur allur fara að berjast. Þetta hefur nú gengið nokkuð eftir. Hér hafa menn tuskast dálítið til og kann að vera að þeir hugsi með nokkrum hætti svipað hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason og þessi framliðna söguhetja. Báðir eru þeir listamenn miklir, garpar og kjarkmenn, margreyndir í orrustum. Báðir hafa þeir lagt höfuð sín að veði. Egill orti sína Höfuðlausn og Gylfi á sjálfsagt eftir að skrifa sína.

En sú skipulagsbreyting á stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, sem er farið fram á með þessu frv., ég fæ ekki séð að hún sé nauðsynleg eða eigi rétt á sér. Það er alveg rétt að þessi stofnun nýtur pólitískrar leiðsagnar, pólitískrar stjórnar. Hún er í vissum tengslum við stjórnarvöld í landinu og í nánari tengslum en aðrar peningastofnanir í landinu. En ég tel að það sé rétt aðferð. Ég tel að ríkisstj. í lýðræðislandi þurfi nauðsynlega að hafa mjög ákveðin áhrif á þróun peningamála og lánastarfsemi í þjóðfélaginu á meðan hún er við völd. Fjármálavaldið á að vera lýðræðislega kjörnum fulltrúum þjóðarinnar undirgefið á hverjum tíma, því að annars getur þetta farið allt sitt í hverja áttina, vinstri höndin ekki vitað hvað sú hægri er að gera og ríkisstjórn, sem nyti meirihlutastuðnings í landinu, gæti orðið meira og minna óstarfhæf.

Ég get ekki annað en sagt frá því að þegar ég var að koma hér fyrst til starfa á Alþ., á sumarþinginu eftir síðustu kosningar, var undrun mín mjög mikil þegar Seðlabankinn hækkaði vextina og þáv. viðskrh., hv. 2. þm. Austf., Lúðvík Jósepsson, sór og sárt við lagði að hann réði ekkert við þetta, hann hefði ekki staðið fyrir þessu. Og við höfum séð dæmi þess að einstakir bankastjórar hafa meira að segja brotið á bak aftur fyrirmæli Seðlabankans og samráð við ríkisstj. um yfirdráttarlánveitingar til einstakra sveitarfélaga.

Ég held að það sé sem sagt algert grundvallaratriði að lýðræðislega kjörnir fulltrúar fólksins í landinu geti haft tækifæri til þess að hafa yfirstjórn á peningakerfinu, a. m. k. að talsverðu leyti. Nú mega menn ekki taka orð mín sem sérstakt vantraust á embættismenn. Embættismenn eru auðvitað góðir og nauðsynlegir, og sem betur fer eigum við fjölda marga mjög hæfa embættismenn sem hafa gott vit á þessum hlutum og geta tekið þátt í stefnumótun ásamt með stjórnmálamönnum um þessa hluti. En þeir eru með nokkrum hætti og vegna eðlis starfa sinna fjarlægari fólkinu í landinu. Pólitískir fulltrúar þurfa að standa fyrir máli sínu a. m. k. fjórða hvert ár og standa eða falla með verkum sínum. Sumir væna þá um hugleysi. Þeir kannske þora ekki að taka nauðsynlegar ákvarðanir, eins og embættismaður, sem er inniluktur í sínum æviráðningarkastala, kynni að hafa tækifæri til þess að taka. En stjórnmálamenn dæmast líka fyrir hugleysi, ekki kannske eingöngu í næstu kosningum. Það má segja að þær séu nokkurs konar héraðsdómur eða undirréttur. En þeir dæmast fyrst og fremst af sögunni, og það er sá hæstiréttur sem allir verða að hlíta.

Það hefur komið fram ákveðin og mjög snörp gagnrýni á vissa þætti í starfsháttum Framkvæmdastofnunarinnar, t. d. um áætlanir sem hv. síðasti ræðumaður gerði hér að umtalsefni. Ég held að áætlanir séu góðar og nytsamlegar, sérstaklega ef þær eru líka skynsamlegar. En þær eru engan veginn einhlítar. Þær eru viss þáttur, en þær eru ekki meginþátturinn. Meginþátturinn er náttúrlega framtak og dugnaður þeirra sem verkin framkvæma, ásamt með eðlilegum stuðningi hins opinbera, m. a. með áætlunargerð, með fjármagnsútvegun og fleiri þvílíkum þáttum.

Það hefur verið býsnast hér yfir því að Byggðasjóður lánaði út um hvippinn og hvappinn, ekki kannske endilega til Reykjavíkur eða Reykjaneskjördæmis. Mér finnst nú bara nafnið á þessari stofnun, Byggðasjóði, benda nokkuð í áttina hvað honum hafi verið ætlað að gera þegar hann var myndaður. Mig minnir að það hafi verið svokallaður Atvinnujöfnunarsjóður sem var fyrirrennari Byggðasjóðs. Atvinnujöfnunarsjóður var, ef ég man rétt, myndaður á svipuðum tíma og tekin var ákvörðun um álverið í Straumsvík, og ég man ekki betur en hann hafi átt að vera til mótvægis gegn byggðaröskun sem af því stafaði. Þess vegna finnst mér að þeir vilji ganga nokkuð langt sem vilja gleyma því núna að þetta hafi verið ætlunin í upphafi.

Það er býsnast yfir því að þessi sjóður hafi lánað stórfé meðan samdráttur væri einhversstaðar annars staðar í lánveitingum hlutfallslega. Ég vil minna á að efling sjóðsins var eitt af ákvæðum í sáttmála núv. stjórnar, og hann var einmitt eitt af þeim atriðum sem gerði mér unnt að styðja þetta stjórnarsamstarf. Lánveitingar þessa sjóðs eiga að fara að mínum dómi út um land.

Það er verið að býsnast hér yfir sulti á Reykjavík og að hún fái enga fyrirgreiðslu. Það er talað um þessa einu milljón sem eitt árið var veitt. En það eru ýmis önnur tækifæri, sem Reykjavík hefur, heldur en beinlínis að fá lán úr Byggðasjóði. Það eru fleiri sjóðir og býsna sterkir eða a. m. k. með mikla veltu sem þjóna íbúum þessa lands og þá kannske ekki síður íbúum Reykjavíkur heldur en annarra svæða. Það vill svo til að ég hélt til haga í fyrravetur skriflegu svari við fsp. sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson gerði um Atvinnuleysistryggingasjóð. Þetta var skrá um samanlagðar fjárhæðir lána sem veitt voru úr Atvinnuleysistryggingasjóði í hvert kjördæmi landsins á árunum 1972, 1973 og 1974 og til stofnana sem ná til landsins alls. Það kemur í ljós, að á þessu þriggja ára tímabili hefur Reykjavíkurkjördæmi fengið úr þessum sjóði 114 millj., Vesturlandskjördæmi 19.9 millj., Vestfjarðakjördæmi 30 millj., Norðurlandskjördæmi v. 24.7 millj., Norðurlandskjördæmi e. 72.55 millj., Austurlandskjördæmi 46 millj., Suðurlandskjördæmi 5.3 millj., Reykjaneskjördæmi 46 millj. Þarna dregur nú Reykjavík nokkuð og þó er þetta Atvinnuleysistryggingasjóður og ég vil benda á að út um landið var atvinnuástand talsvert miklu erfiðara en hér í Reykjavík.

Ein af rótum þess, hvað atvinnuástand hélst alltaf gott hér í Reykjavík á örðugleikaárum undanfarið, var einmitt starfsemi annars fjárfestingaraðila, Byggingarsjóðs ríkisins. Og það vill svo til að ég hélt líka til haga skriflegu svari félmrh. við fsp. er hv. þm. Pétur Sigurðsson bar fram um Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Þetta er nokkuð langt mál og ég mun ekki lesa það allt, en með leyfi hæstv. forseta langar mig til að nefna örfáar tölur.

Af E- og F-lánum fékk Reykjavík árið 1974 45.40%, Reykjanes fékk sama ár af þeim lánum 24.57%. Af útborguðum lánum til kaupa á eldri íbúðum voru sama ár 1974 46.68% í Reykjavík, en á Reykjanesi 29.7%. Útborguð lán til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis voru svokölluð C-lán. Af þeim fékk Reykjavík hvorki meira né minna 84.44%. Úr Byggingarsjóði verkamanna þá fékk Reykjavík 64.40%.

Svona er hægt að halda áfram að þylja lengi.

Það er hægt að fara sjóð úr sjóð og sýna fram á að Reykjavík hefur sinn skerf. Það er undantekning þetta með Byggðasjóðinn, en mér finnst þið ættuð að lofa okkur að hafa hann í friði því við höfum verulega þörf fyrir hann úti á landsbyggðinni. Bankakerfið hefur sína miðstöðvar hér. Stjórnsýslan er hér staðsett og af henni drýpur náttúrlega mikið hér í þetta umhverfi.

Ég vil svo láta máli mínu lokið. Ég óska hv. 9. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasyni, til hamingju með þær róstur sem hér hafa orðið hjá þingheimi. Ég get nú ekki eins og stöku aðrir hv. þm. talað í nafni þjóðarinnar, en ég vil í nafni a. m. k. allmargra íbúa í dreifbýlinu mótmæla þessari árás á Framkvæmdastofnunina, og ég vil láta það koma skýrt í ljós að ég er á móti þessu frv.