05.11.1975
Neðri deild: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég tek með mikilli ánægju og þakklæti við hamingjuóskum hv. síðasta ræðumanns í tilefni af því hversu mikla athygli flutningur þessa frv. hefur vakið og tel ummæli hans um það vera síst orðum aukin. (Gripið fram í: Það er ekki allt búið enn). Það er víst sem betur fer og á vonandi margt eftir að koma í ljós enn, m. a. í því sem ég segi hér á eftir.

Sannleikurinn er sá, að þær umr. sem hér hafa farið fram, staðið marga þingfundi, hafa verið mjög athyglisverðar. Sannleikurinn er sá að þetta frv. okkar Alþfl.-manna hefur orðið aðalmál þingsins á þeim 4 vikum sem þingið hefur starfað nú í haust. Mér kemur þetta ekki á óvart og tel að engu leyti óeðlilegt að þetta frv. þótt ekki sé orðmargt, hafi orðið aðalmál þingsins nú á þessu hausti vegna þess að það snertir tvo mjög mikilvæga þætti í íslensku þjóðlífi og íslenskum stjórnmálum yfir höfuð að tala.

Aðalefni frv. og þar með aðalefni umr. er hvernig haga eigi stjórn á einni valdamestu og mikilvægustu stofnun íslenska efnahagskerfisins. Ég hef fyrir mitt leyti og við þm. Alþfl. höfum aldrei dregið í efa að hér á að vera til hliðstæð stofnun og Framkvæmdastofnunin, að hún hefur mjög mikilvægu og mjög vandasömu hlutverki að gegna. En við teljum að hún hafi í upphafi, þegar lög um hana voru sett, lent á villigötum hvað stjórnsýslu snertir, hvað stöðu hennar í stjórnkerfinu snertir. Við teljum hana hafa lent undir rangri stjórn efnislega séð. Við teljum að teknir hafi verið upp stjórnarhættir í þessari mikilvægu stofnun sem hafi boðið heim hættu og leitt til vandræða, eins og ég mun koma síðar að.

Ástæðan til þess, að stjórnarhættir þessarar stofnunar hafa verið jafnumdeildir og raun ber vitni allar götur frá því að lög um hana voru sett, er annars vegar það að um leið og því er lýst yfir af hálfu þáv. ríkisstj. að í kjölfar stofnunar Framkvæmdastofnunar ríkisins eigi að sigla aukinn áætlunarbúskapur, aukin stjórn á efnahagsmálum, bætt stjórn á efnahagsmálum, þá er nú hverju mannsbarni á Íslandi ljóst að það hefur aldrei verið önnur eins ringulreið í íslenskum efnahagsmálum og einmitt á þeim árum síðan Framkvæmdastofnunin tók til starfa.

Það er einmitt fyrir um það bil 3–4 árum sem bókstaflega allt fer að fara úr böndunum í stjórn íslenskra efnahagsmála, og sú þróun hefur haldið áfram fram til þessarar stundar að við nú stöndum hér, þrátt fyrir Framkvæmdastofnunina. Hér hlýtur að vera eitthvað meira en lítið við bogið. Hér hlýtur eitthvað meira en lítið að hafa farið úrskeiðis, þegar komið er á fót stofnun til þess að auka skilyrði til bættrar hagstjórnar, þá skuli einmitt hefjast tímabil aumustu hagstjórnar, minnstu hagstjórnar í Íslandssögunni, Þetta hefur verið sett í samband við þau mistök sem voru gerð varðandi skipulag stofnunarinnar þegar í upphafi, og að því mun ég víkja nánar síðar.

Hin ástæðan til þess, hversu mikla athygli þetta mál hefur vakið nú á þessu þingi, er sú, að í sambandi við það hefur komið í ljós alvarlegt átumein í íslensku stjórnmálalífi. Umr. um málið hafa orðið til þess að stinga á stórkýli í þróun íslenskra stjórnmála og í ástandi íslenskra stjórnmála í dag. Það, sem hér hefur gerst, er að stærsti flokkur landsins, sá flokkur sem fer með forustu í þessari ríkisstj., hefur í reynd, eftir að hann komst til valda, hegðað sér þveröfugt við það sem hann sagðist vilja gera á meðan hann var í stjórnarandstöðu. Hann gagnrýndi ekki síður kommissarakerfið heldur en við þm. Alþfl. sem þá vorum einnig í stjórnarandstöðu. Hann gagnrýndi það jafnvel enn þá harðari orðum en við, því að það er til ummæla hans sem má rekja spádóma um spillingu sem ég mun einnig koma síðar að. En hvað gerist? Sjálfstfl., stærsti flokkur landsins, forustufl. núv. ríkisstj. er ekki fyrr kominn í valdaaðstöðu en hann lætur undir höfuð leggjast að breyta þessu kerfi sem hann taldi bjóða upp á spillingu, heldur sest til æðstu valda í þessu kerfi, þ. e. með því að láta hjá líða að leggja niður kommissarakerfið, heldur skipa sjálfur sinn eigin kommissar og taka að sér forustu í stjórn stofnunarinnar, þannig að raunverulega á Sjálfstfl. tvo kommissara í stjórn stofnunarinnar, þó að stjórnarformönnum hafi hingað til ekki verið veitt slíkt tignarheiti, heldur sé það núna bara bundið við tvo fulltrúa núv. stjórnarflokka.

Þetta tvennt, að saman skuli fara mesta upplausnarástand í íslenskum efnahagsmálum annars vegar og fyrirhuguð efling áætlanastofnunar hins vegar, — annars vegar þetta og svo hins vegar hitt, að stærsti flokkur landsins hegðar sér í reynd öðruvísi en hann taldi áður rétt að hegða sér, þetta tvennt hefur auðvitað valdið því að þetta mál hefur vakið geysimikla athygli meðal þjóðarinnar og verið bent á nauðsyn þess að hér sé tekið til höndunum og starfsemi stofnunarinnar og stjórnarháttum hennar verði breytt til hins betra.

Það hefur einnig gert þessar umr. sérstaklega athyglisverðar að komið hefur í ljós, sem ekki oft gerist og raunar mjög sjaldan gerist í umr. hér á Alþ., að valdamestu ráðherrar ríkisstj. eru ekki sammála og reyna ekki að draga dul á það í ræðum sínum að þeir eru ekki sammála. M. ö. o.: tveir valdamestu ráðherrar ríkisstj., formenn þeirra flokka sem að henni standa, talar annar í austur og hinn í vestur. Sjálfur forsrh. lýsir því yfir, og þeirri yfirlýsingu hef ég þegar fagnað og skal gjarnan endurtaka ánægju mína yfir henni, — hann gefur fyrirheit um að þessum lögum muni breytt og þá í þá átt, sem hann sjálfur og hans samflokksmenn höfðu lýst yfir að þeir teldu rétt í umr. um málið á haustþinginu 1971. En hæstv. dómsmrh. talar í allt öðrum tón. Hann segir raunverulega allt annað. Hann sagði — ég held ég hafi náð því nokkurn veginn orðrétt: „Enginn veit til hvers endurskoðun laganna mun leiða.“ M. ö. o.: formaður hins stjórnarflokksins vill ekkert fyrirheit gefa um að þau rangindi, að sú hætta, sem felst í kommissarakerfinu, verði afnumin.

Slíkt og annað eins og þetta gerist tiltölulega mjög sjaldan hér á hinu háa Alþ. Og dómsmrh. talaði skýrar, eins og hans var von og vísa, og lét þm. ekki vera í neinum vafa um að hans skoðun væri sú að það ætti ekki að breyta lögunum. Hann tók ekki alveg eins skýrt til orða og hv. samflokksmaður hans sem var að ljúka máli sínu hér síðast, Páll Pétursson, sem sagðist vera á móti frv. Hann lét við það sitja að segja að enginn vissi til hvers sú endurskoðun mundi leiða. En hann sagði annað í framhaldi af þessu, sem mér þótti athyglisvert og enginn annar ræðumaður hefur vakið athygli á, en ég vil vekja alveg sérstaka athygli á, hann sagði að ætlunin með setningu laganna hefði verið að auka áætlunarbúskap. Ég hef sagt og hv. þm. Jón Skaftason hefur staðfest að það hafi ekki tekist, það hafi þvert á móti mistekist. En látum það vera á þessu stigi málsins. En hæstv. dómsmrh. bætti við að pólitískir aðilar væru nauðsynlegir við alla áætlunargerð og þá auðvitað um leið við ákvörðunartöku í framhaldi af áætlunargerðinni. M. ö. o. að pólitískir aðilar væru nauðsynlegir í sambandi við samningu framkvæmdaáætlana og þá auðvitað líka við lánveitingar í sambandi við framkvæmd slíkra áætlana. Hér er m. ö. o. alveg umbúðalaust, eins og við var að búast af jafnskýrum manni og hæstv. dómsmrh., boðuð sú stefna að ekki aðeins samning áætlana, heldur framkvæmd þeirra og lánveitingar í því sambandi, skuli vera í höndum pólitískra aðila.

Hér er um að ræða stefnu og hugmyndaheim sem ég er gersamlega andvígur og vil nota þetta tækifæri til að lýsa alveg sérstakri andstöðu minni gegn. Það eitt er rétt hjá hæstv. dómsmrh., að auðvitað hlýtur stefnan í áætlunargerðinni að vera pólitísk ákvörðun. Mér vitanlega hefur enginn, hvorki hagfræðingur, embættis- né stjórnmálamaður, dregið í efa eða andmælt því að stefnumótunin í sambandi við áætlunargerðina hljóti að vera pólitísk ákvörðun sem eigi að taka um stærstu ákvarðanirnar af ríkisstj. í heild, aðrar stórar ákvarðanir af einstökum ráðuneytum á ábyrgð sinna ráðherra, en aðrar ákvarðanir af hendi þingkjörinna stjórna mikilvægra stofnana, eins og t.d. Framkvæmdastofnunar ríkisins, enn aðrar ákvarðanir af Seðlabankanum sem hefur þingkjörið bankaráð, enn aðrar ákvarðanir af bankaráðum ríkisbankanna o. s. frv. En ég undirstrika að hér á ég við stefnumótunina eina — heildarstefnumótunina eina. Framkvæmd áætlana á ekki og enn síður veiting á lánum í þessu sambandi að vera í höndum stjórnmálamanna.

Það býður heim stórkostlegri pólitískri hættu. Það var sá mergur málsins sem lögð var mest áhersla á einmitt af hálfu sjálfstæðismanna haustið 1971, að mínu viti algerlega réttilega. Á þeirri skoðun er ég enn, tel allt annað vera rangt. Þegar búið er að marka stefnuna, þegar búið er að semja áætlunina og þegar farið að framkvæma hana, sem að verulegu leyti hlýtur að jafnaði að vera tæknilegt, á sviði verkfræði- og tæknimenntaðra manna, þá á ekki að leggja pólitískt mat á það hverjir skuli fá fé, hvaða einstaklingar eða félög eða sveitarfélög skuli fá fé til þess að framkvæma þá stefnu sem í áætluninni felst.

Þetta, sem ég segi núna, er í samræmi við þá stefnu sem varð ofan á í bankamálum fyrir um það bil 10 árum og ég tek með mikilli ánægju á mig meginábyrgð á að hafa haft forustu um, hafa stungið upp á og var tekið upp, að það færi ekki saman að bankastjórar ríkisbankanna — bankastjórabáknið yfir höfuð að tala — sætu á Alþ. Það var ég sem átti hugmyndina að því í þáv. ríkisstj, að þessi starfsregla skyldi tekin upp. Það sætti þá mikilli andstöðu, bæði innan stjórnarflokkanna og meðal stjórnarandstöðunnar, en engu að síður varð þessi stefna ofan á. Síðan hefur henni verið fylgt, og ég heyri ekki betur og veit ekki betur en nú telji allir slíkt vera sjálfsagt.

Það samrýmist ekki að vera bankastjóri í Seðlabankanum, Landsbankanum, Útvegsbankanum eða Búnaðarbankanum annars vegar og að vera alþm. hins vegar.

Þessi stefna er auðvitað í algerri andstöðu við þá stefnuyfirlýsingu sem hæstv. dómsmrh. og formaður Framsfl. gefur þegar hann segir að það vanti einmitt pólitíska stjórn á áætlunarbúskapinn. Bankarnir lúta auðvitað vissum heildarreglum, fylgja vissri heildarstefnu í útlánum, — stefnu sem mörkuð er auðvitað af ríkisstj. og Seðlabanka í sameiningu. Pólitísk stjórn á lánveitingum er óheppileg, vegna þess að pólitík í þessum skilningi er hagsmunir og það eru einmitt ekki hagsmunir einstaklinga eða félaga og jafnvel ekki sveitarfélaga sem mega ráða því til hvers fjármagnið er notað og hvernig það dreifist um landið. Þegar á að framfylgja ákveðinni heildarstefnu sem pólitíska valdið hefur mótað, þá á að fylgja hlutlaust mat á hagkvæmni. Það er hlutlaust mat á hagkvæmni sem á að ráða því hvernig fjármununum er varið í samræmi við heildaráætlunina eða hinar einstöku áætlanir. Með þessu á ég ekki endilega við að í bókstaflega öllum tilfellum eigi hagnaðarsjónarmið að ráða, en velja þá framkvæmd eða þann stað til framkvæmda þar sem hagnaður, þar sem ávöxtun fjárins yrði sem mest. Önnur sjónarmið geta auðvitað komið til greina, atvinnusjónarmið t. d. Þar geta heilbrigð byggðastefnusjónarmið auðvitað komið til greina. En grundvöllurinn á samt að vera hlutlaust mat á hagkvæmni, en ekki pólitískir hagsmunir.

Þetta er grundvallaratriði, sem ég tel nauðsynlegt að vekja athygli á þegar í stað. En ég vit síðar í tilefni af ummælum hv. þm. Tómasar Árnasonar koma að því að hæstv. dómsmrh. taldi reynsluna af Framkvæmdastofnuninni hafa verið góða, en eins og hv. þm. Jón Skaftason hefur vakið athygli á, þá er dómur starfsmanna stofnunarinnar sjálfrar sá að reynslan sé ekki góð og að einmitt pólitískir hagsmunir hafi fengið að ráða of miklu um hvernig áætlunum hefur verið framfylgt og hvernig fé Framkvæmdastofnunarinnar hefur verið varið. Þar hafa pólitískir hagsmunir ráðið meiru en hlutlaust mat á hagkvæmni í víðustu merkingu þess orðs.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson, formaður stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar, nánast hældist um yfir því að það væri þingkjörin stjórn sem veitti öll lán stofnunarinnar, hún greiddi atkv. um hverja einustu lánveitingu. Ég minni á þetta í framhaldi af orðum hæstv. dómsmrh. Þeir eru sammála um þetta, virðast vera algjörlega á sömu linu, hæstv. dómsmrh. og hv. 1. þm. Suðurl., að það eigi að vera og geti verið með heilbrigðum hætti í verkahring þm. að veita lán, að greiða atkv. um lánveitingar. Slíkt gengur þvert á skoðun mína í efnahagsmálum og þjóðmálum, á lífsskoðun mína yfir höfuð að tala. Þm. eiga þvert á móti ekki að koma nálægt því að gera upp á milli hagsmuna einstaklinga, félaga, jafnvel sveitarfélaga, að því er ráðstöfun fjár snertir, eins og viðurkennt er með því sjónarmiði að bankastjórar skuli ekki eiga sæti á Alþingi.

Þá langar mig til þess að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Tómasar Árnasonar, sem er annar af tveimur framkvæmdastjórum Framkvæmdastofnunarinnar. Ræða hans var mjög efnisleg og ég held að hann hafi tínt til öll þau atriði, sem yfirleitt mátti tína til varnar Framkvæmdastofnuninni, og gerði það samviskusamlega og myndarlega eins og hans var von og vísa. Ekki tókst honum samt sem áður að gera Framkvæmdastofnunina að þeirri stofnun í huga mínum, sem ég vildi að hún væri. Það tókst honum ekki, enda raunar ekki við að búast þrátt fyrir góða hæfileika til málafylgju. Hann nefndi nokkrum sinnum spillingarbæli í ræðu sinni með þeim hætti að það mátti skiljast þannig að hann væri að andmæla því að stofnunin væri spillingarbæli, en ég hefði haldið því fram. Þeir, sem hlustuðu á ræðu mína og lesa hana yfir í þskj. sjá að ég nefndi aldrei orðið spillingarbæli í ræðu minni um Framkvæmdastofnunina. Slíkt er orðbragð sem ég yfirleitt nota ekki og gerði það ekki heldur þarna. Það, sem hann mun hins vegar hafa átt við, er að ég vék að þeim höfuðrökum sjálfstæðismanna á sínum tíma gegn því að slíkri stofnun yrði komið á fót, gegn kommissarakerfinu, að það byði upp á hættu á spillingu. Hann bað mig — og tvítók það sérstaklega — um að svara hvort ég teldi stofnunina vera spillingarbæli núna. Ég vil ekki nota slík orð eins og þetta. Ég vil ekki heldur ræða einstök lán sem stofnunin hefur veitt, þó að raunar hafi með lofsverðum hætti verið birtar um það opinberar skýrslur. En ég vil ekki láta hjá líða að ganga í kjölfar hv. þm. Jóns Skaftasonar og minna á það hvað áætlanadeild stofnunarinnar sjálfrar hefur sagt um starfsemi hennar. Hún snertir einmitt þetta. Ef ég má — með leyfi hæstv. forseta — lesa aftur örlítinn hluta af því sem hv. þm. Jón Skaftason las í sinni mjög athyglisverðu ræðu á sínum tíma, þá skulum við sjá hvort ástæða er til þess að draga af því einhverjar ályktanir, en ummælin eru svona:

„Er mjög tilviljunum háð hvaða framkvæmdir komi til skipulegs mats eftir árangri eða arðsemi.“ Þetta er það fyrsta. Hér er bent á að það skorti á sem ég var að segja að ætti að ráða í hlutlausri og skynsamlegri hagstjórn stofnunar eins og Framkvæmdastofnunarinnar. Það heldur áfram: „Á það takmarkaða mat, sem lagt er á framkvæmdir, skortir alla samræmingu og samanburð, ekki aðeins milli framkvæmdagreina, heldur einnig innan sömu greina sem þó lúta sameiginlegri yfirstjórn rn. eða annarrar hliðstæðrar stofnunar.“ Og svo segir: „Við þessi skilyrði stefnumótunar og ákvörðunartöku er í reynd mjög treyst á atfylgi og þrýsting atvinnugreina, landshluta“ — taki menn nú vel eftir — það er „mjög treyst á atfylgi og þrýsting atvinnugreina, landshluta og annarra hagsmunaaðila til að fá málum sínum framgengt, einkum fyrir atbeina þm. og annarra áhrifaaðila. Með því móti er að sjálfsögðu engin trygging fyrir að hagstæðustu framkvæmdirnar gangi fyrir.“

Hér segir í sjálfri skýrslu Framkvæmdastofnunarinnar, orðað af embættismönnum hennar, að það, sem ráði úrslitum, sé hvað eftir annað atfylgi og þrýstingur, einkum fyrir atbeina þm. og annarra áhrifaaðila. Ef þessi dómur er réttur, ef það eru slík sjónarmið sem hafa ráðið þótt ekki væri nema einni lánveitingu hjá stofnuninni, hvað þá að þetta hafi verið ráðandi stefna, þá er hér um spillingu að ræða, það hika ég ekki við að segja — þá er hér um spillingu að ræða, og þá á dómurinn ekki við spádóma sjálfstæðismanna frá 1971, heldur er það dómur embættismanna stofnunarinnar eftir að hún hefur starfað í fjögur ár. Slíkt á ekki að eiga sér stað.

Ég held ég láti þess líka getið í þessu sambandi sem einn af þm. stjórnarflokkanna sagði við mig í fyrradag varðandi kommissarakerfið og launagreiðslur í Framkvæmdastofnuninni, ég hef ekki haft aðstöðu til að kanna hvort þetta er rétt, en tel upplýsingarnar hins vegar vera þess eðlis að þær eigi erindi hingað inn á Alþ., þannig að úr því fáist skorið, hvort rétt er eða ekki rétt, annaðhvort af hæstv. forsrh. eða af framkvæmdastjórum stofnunarinnar sjálfum. Það var staðhæft við mig og ég vil að það sé staðfest sem rétt eða sem rangt, — ég tek því auðvitað ef það reynist rangt, — að framkvæmdastjórarnir hafi bankastjóralaun, sömu laun og bankastjórar, en um þá gildi ekki sú regla sem gildir almennt um þm. sem gegna störfum í þágu hins opinbera, en sú regla er að þm. fái ekki greitt fyrir annað starf en þingmannsstarfið nema hluta af launum og hafa þá að sjálfsögðu ekki fulla starfsskyldu í því starfi heldur. (Gripið fram í: Hvaða hv. þm. skrökvaði þessu að ræðumanni?) Ég þarf ekki að svara því. Ég spurði, ég flyt spurninguna áfram. En svo sem kunnugt er gilda þær reglur að þm., sem gegna öðru starfi en þingmannsstarfi, fá allt frá 10–60% af launum fyrir starf sitt. Þetta er nauðsynlegt að sé upplýst og fáist alveg á hreint hvort á sér stað eða á sér ekki stað. (Gripið fram í: Á sér ekki stað.) Það var gott. Þá er rétt að það komi í þingtíðindum að það eigi sér ekki stað.

þm., sem sagði mér, sagði þetta áreiðanlega í góðri trú. Ég met hann það mikils að ég efa ekki að hann hafi sagt það algjörlega í góðri trú, og hann sagði það raunar fleirum en mér. Ég sagði: Ég veit ekki um málið og ég óska einmitt eftir því að það sé þá staðfest hér hvað rótt er í þessu og hvað ekki er rétt í þessu, hvaða launareglur gilda og hafa gilt frá byrjun — kannske hefur þessu verið breytt nýlega, hvernig launareglurnar hafa verið frá því að stofnunin tók til starfa. Ég er að sjálfsögðu eins og allir aðrir reiðubúinn til þess að hafa það sem sannara reynist í þessum efnum. En ég tel ekki rétt að svona ummæli gangi á milli manna í þingsölunum í báðum d. án þess að hv. þm., framkvæmdastjórarnir, sem báðir eiga sæti í Nd., eigi kost á því að leiðrétta þetta. Ég mundi verða manna fegnastur vegna persónulegs kunningsskapar við báða að ummælin væru ekki rétt, en nú skulum við bíða og sjá hvað setur. Nákvæmar verða upplýsingarnar að vera. Það má ekki minna vera.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að ræðu Jóns Skaftasonar sem ég taldi vera mjög athyglisverða. Það var í raun og veru hann sem kom því inn í umr., Tíminn setur þessa fyrirsögn á ræðu hans, með leyfi hæstv. forseta: „Framkvæmdastofnunin hefur hvorki stuðlað að efnahagslegu jafnvægi né áætlunarbúskap. (Gripið fram í). Það hlaut að vera. Þetta er í raun og veru kjarni þess sem við flm. frv. höfum sagt um málið. Þetta hefur verið kjarninn í minni framsöguræðu með málinu, að þetta væri svona, og Jón Skaftason hefur í myndalegri ræðu sinni tekið undir þessi sjónarmið, og það er auðvitað mjög mikilsvert. Ég vil einnig undirstrika það, að hann sagði að á það skorti að stofnunin nyti trausts og að skipulagshyggjan hefði verið eyðilögð með kommissarakerfinu sem stjórnist af hreppapólitík í stað þjóðarhagsmuna. Þetta er enn þá harðari dómur en ég kvað upp í frumræðu minni um málið, en ég tel þetta ekki vera ofmælt hjá hv. þm. Jóni Skaftasyni.

Ég benti á það í upphafi máls míns að það, sem væri sérstaklega athyglisvert við þessar umr., væri það að tveir aðalráðh. ríkisstj., formenn þeirra flokka sem að henni standa, hafi augljóslega ekki verið sammála. En það á líka við um einstaka þm. stjórnarflokkanna beggja. Þess er mér bæði ljúft og skylt að geta að tveir af þm. Sjálfstfl. úr yngri kynslóðinni, þeir Ellert B. Schram og Guðmundur H. Garðarsson, hafa báðir lýst fullkominni andúð við kommissarakerfið. Hins vegar hefur Ingólfur Jónsson hv. þm., eins og er kannske ekki undarlegt sem form. stjórnarinnar, lýst stuðningi sínum við þetta fyrirkomulag, þrátt fyrir allt sem hann áður hefur sagt um málið, og taldi að langbest væri — sagði það nokkurn veginn orðrétt, að sem mestur friður sé um þessa stofnun, og allt hans mál gekk út á það að ekki væri ástæða til neinna breytinga. Áhrifamiklir þm. Framsfl. hafa einnig reynst ósammála í þessu máli. Einn þeirra hefur gagnrýnt stofnunina mjög myndarlega, hv. þm. Jón Skaftason, en þrír hafa risið upp henni til varnar, Tómas Árnason, sem af eðlilegum ástæðum gerir það sem einn af stjórnendum hennar, og Ingvar Gíslason og Páll Pétursson. Ég vek athygli á því að þm. Framsóknar eru ekki heldur sammála um málið og þetta gerir það auðvitað enn athyglisverða.

Það er eitt atriði í ræðu hv. þm. Ingvars Gíslasonar sem mig langar til að vekja athygli á. Hann sagði að í stefnu okkar, sem erum andvígir kommissarakerfinu, fælist að það væri verið að upphefja embættisvaldið á kostnað stjórnmálavaldsins. Hér er um algeran misskilning að ræða, Okkur, sem fylgjum þeirri skoðun sem ég meðal annarra hef gerst talsmaður fyrir, hefur aldrei dottið annað í hug en að það ætti að vera svo, eins og ég sagði áðan, að æðsta ákvörðunarvald um stefnumótun í efnahagsmálum, um stefnumótun í áætlunargerð ætti að vera í höndum stjórnmálamanna, hins vegar ættu síðan embættismenn að framkvæma ákvarðanir stjórnmálamannanna. Það verður að greina á milli ákvörðunartöku annars vegar og framkvæmda hins vegar. Af þessum sökum hafa í öllum lýðræðisþjóðfélögum alltaf verið til tvenns konar aðilar: stjórnmálamenn annars vegar, sem taka ákvarðanir, og embættismenn hins vegar, sem framkvæma ákvarðanir stjórnmálamanna á hlutlausan og hagkvæman hátt. Það hefur enginn ætlast til þess og getur enginn ætlast til þess að stjórnmálamenn geri hvort tveggja: að taka ákvarðanir og framkvæma þær. Það er þeim ofætlun. Og það hefur aldrei verið í verkahring embættismanna að taka ákvarðanir, heldur að framkvæma ákvarðanir valdhafa eða ákvarðanir stjórnmálamanna.

Við viljum hafa nákvæmlega sama hátt á varðandi Framkvæmdastofnunina og alviðurkenndur er í stjórnarkerfinu að öðru leyti, t. d. við stjórn bankanna, að heildarstefnan í lánamálum sé ákvörðuð af ríkisstj. og Seðlabanka og yfirstjórum ríkisbankanna, en síðan séu það hlutlausir embættismenn og sérfræðingar sem framkvæmi þessar ákvarðanir í einstökum atriðum. Hér byggðust því ummæli hv. þm. Ingvars Gíslasonar á algjörum misskilningi á grundvallaratriðum í stjórnsýslu.

Eitt atriði vil ég, áður en ég lýk máli mínu, nefna í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar. Hann sagði — og virtist taka það sem dæmi um ofsavald embættismanna — að það hafi komið fyrir fyrir nokkrum árum að Seðlabankinn hafi ákveðið vaxtahækkun, en viðskrh. sjálfur, Lúðvík Jósepsson, hv. þm., hafi svarið af sér alla ábyrgð, hafi svarið og sárt við lagt að hann hafi ekkert um hana vitað, hann væri á móti henni og réði ekkert við hana. Það er rétt að einhver slík ummæli féllu af hálfu hæstv. þáv. viðskrh. hér á hinu háa Alþ., en mig minnir að ég hafi blandað mér lítillega inn í þær umr. og sagt að þetta gæti ekki verið rétt, þetta gæti með engu móti verið rétt. Ég átti sjálfur þátt í því að semja seðlabankalögin á sínum tíma sem veita Seðlabankanum það vald sem hann hefur. Ég flutti lögin um Seðlabankann á sínum tíma, sem samþ. voru shlj. hér á hinu háa Alþ., svo að mér ætti að vera vel kunnugt um hvað í þeim stendur og hvernig valdaskiptingin er á milli seðlabankastjórnar annars vegar og ríkisstj. hins vegar. Ég fullyrði, eins og mig minnir að ég hafi gert þegar í þeim umr:, — ég endurtek hér að gefnu tilefni, — að það er óhugsandi að Seðlabanki, sem starfar eftir gildandi lögum, og raunar ekki heldur seðlabankar í nágrannalöndunum sem þó búa ekki við eins ný og fullkomin lög og íslenski seðlabankinn gerir, að þeir mundu hækka vextina með þeim hætti sem gert var án samþykkis yfirboðara síns, þ. e. a. s. án samþykkis viðskrh, sem væntanlega mundi þá auðvitað hafa samband við ríkisstj. alla. Það er útilokað að Seðlabankinn taki ákvörðun án samráðs við ríkisstj. um jafnmikilvægt mál og almenn vaxtahækkun í landinu er, og ég fullyrði að það hefur ekki gerst. Ef seðlabankastjórn gengur algerlega í berhögg við þá stefnu, sem ríkisstj. fylgir í efnahagsmálum, veitir seðlabankalöggjöfin ráðh. leyfi til að víkja bankastjórunum frá störfum. Það er tryggingin sem ríkisstj. hefur fyrir því að það er hún sem ráði stefnunni, meginstefnunni, en stjórn Seðlabankans ekki. Hins vegar tekur stjórn Seðlabankans ákvörðun um einstök framkvæmdaratriði, vaxtahlutföll og því um líkt innan þessara marka, en ákvörðun um breytingu á lánastefnunni tekur Seðlabankinn eða stjórn hans ekki á eigin ábyrgð. Þar fylgir hún auðvitað þeirri reglu sem er grundvöllur í lögunum, að það sé ríkisstj. sem sé stefnumarkandi og Seðlabankinn eigi að framkvæma meginstefnu hennar.

Ég skal svo ljúka máli mínu með því að draga saman í örfáar setningar það sem ég tel vera aðalatriði þessa máls og aðalatriði þeirra umr. sem hér hafa farið fram og meginsjónarmið mitt og þeirra mörgu skoðanabræðra sem reynst hafa hér á Alþ. í þessu mjög svo mikilvæga máli.

Það fyrsta er að Framkvæmdastofnunin var rangt skipulögð frá byrjun. Kommissarakerfið var hættulegt, kommissarakerfið var í eðli sínu rangt, eins og bent var á af hálfu Alþfl, og Sjálfstfl. Þetta er grundvallaratriðið í málinu.

Í öðru lagi tel ég að reynslan af kommissarakerfinu hafi verið slæm og það átt sinn þátt í því að lítið samband var á milli Framkvæmdastofnunarinnar annars vegar og einstakra rn. og ríkisstj. í heild hins vegar. Skýrasta dæmið um það er að aukning togaraflotans, þ. e. a. s. skuttogarakaupin, skuli hafa átt sér stað án þess að Framkvæmdastofnunin hafi komið þar nokkurs staðar nærri. Það er engin áætlun til um endurnýjun togaraflotans af hálfu Framkvæmdastofnunarinnar, Henni var aldrei falið verkið. Hún hafði aldrei frumkvæði í sér til þess að gera þetta verk. Og nú er komið í ljós að hér hafa stjórnvöldum orðið á mjög örlagarík mistök sem eiga eftir að verða þjóðinni dýr á næstu árum og áratugum. Varðandi reynsluna vil ég einnig vitna í þau ummæli áætlanadeildarinnar, sem hv. þm. Jón Skaftason las ítarlega upp úr í ræðu sinni áður og ég vék aðeins að hér á undan. Og í þriðja lagi vil ég nefna, að það hafi engin samræming verið í útlánastefnu bankakerfisins og útlánastefnu Framkvæmdastofnunarinnar, eins og komið hefur fram í opinberum skýrslum, sem t. d. Morgunblaðið birti að minni beiðni í morgun, skýrslum hagfræðideildar Seðlabankans, þar sem kemur í ljós að á fyrstu 9 mánuðum þessa árs hefur bankakerfið dregið saman útlán sin, en Framkvæmdastofnunin hins vegar aukið mjög verulega útlán sín, sérstaklega úr Byggðasjóði, þar sem atkvgr. fer fram í stjórn stofnunarinnar um hvert einstakt lán, að því er Ingólfur Jónsson, hv. þm, form. hennar, segir.

Það þriðja, sem ég tel að þessar umr. hafi með nauðsynlegum hætti leitt í ljós, er að Sjálfstfl., stærsti flokkur landsins, hefur orðið ber að algjörri stefnubreytingu í grundvallarmáli og hefur hegðað sér öðruvísi í valdaaðstöðu valdanna vegna heldur en hann taldi áður rétt að gera, meðan hann var valdalaus, meðan hann var í stjórnarandstöðu. Þegar slíkt gerist, þá er ekki að undra þó að umr. um mál veki mikla athygli.

Það fjórða, sem ég vil nefna, er að þessar umr. hafa tvímælalaust leitt í ljós að það er óeining innan sjálfrar ríkisstj, um hvaða grundvallarstefnu skuli fylgja í því máli sem hér er um að ræða. Sjálfir formenn stjórnarflokkanna tveggja, stærstu flokka landsins, tala þannig að augljóst er að þeir eru ekki sammála um grundvallarstefnuna í málinu. Það hefur líka komið í ljós að stuðningsmenn núv. ríkisstj, hér á hinu háa Alþ. eru ekki á einu máli heldur, þvert á móti deila hart, jafnvel skjóta menn nú skotum hver að öðrum, svo að það er auðséð, að ágreiningurinn er býsna djúpstæður.

Í síðasta lagi vil ég mega vona og tel margt benda til þess að ef þm. greiddu atkv. eftir samvisku sinni um þetta mál, þ.e. með eða móti kommissarakerfinu, þá yrði meiri hl. þm. á móti kommissarakerfinu, eins og er alveg augljóst að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er á móti kommissarakerfinu og þeirri hugmyndafræði sem þar liggur til grundvallar, og þeim hugsunarhætti sem það er grundvallað á.